30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Yfirleitt getur fjárveitinganefndin verið þakklát háttv. deild fyrir meðferð fjárlaganna við 2. umr., því það ber ekki mikið á milli, eftir þeirri áætlun, sem nefndin gerði, og eins og frv. lítur út nú. Að vísu voru gerðar einstaka breytingar á því, sem sje þær, að sumar af brtt. nefndarinnar voru feldar, en það hefir vitnast síðan, að minsta kosti með sumar, að það stafaði af misskilningi. Sumar þessar brtt. voru að eins áætlanir um upphæðir, sem hvort sem er verður að greiða, og hefir það því enga þýðingu, að þær voru feldar. Enn fremur hefi jeg heyrt það, að hæstv. stjórn hafi sjeð sig um hönd, og muni því láta taka sumar þeirra upp í háttv. Ed., sem hún lagði á móti hjer.

Eins og menn sjá á frv., er áætlað að tekjuhallinn verði 722,167,10 kr. En nú leggur fjárveitinganefndin til, að gerðar verði enn nokkrar breytingar, sem hafa, ef þær verða samþyktar, í för með sjer um 37,000 kr. aukin útgjöld, og ef þar við bætist, að tillögur frá einstökum mönnum, sem nefndin er hlynt, verða samþyktar, aukast útgjöldin enn um nálægt 12000 kr. Ef allar þær brtt., sem nefndin er fylgjandi, verða samþyktar, aukast því útgjöldin um næstum því 50 þús. kr. frá því, sem nú er. Eins og háttv. þingdm. geta sjeð, hafa enn fremur komið fram brtt. og þær allmargar, sem nefndin treystir sjer ekki til að mæla með. Ýmsar eru þær frá mönnum, sem þótti nefndin ganga of langt í tillögum sínum um fjárframlög við 2. umr., en nú lítur út fyrir að þeir menn hafi gleymt þeim sparnaði, sem þeir hjeldu óspart fram þá. Ef allar þessar brtt. yrðu samþyktar, hækkuðu þær útgjöldin um 122000 kr., en aftur á móti hafði komið fram nokkrar aðrar, sem leggja til 9600 kr. lækkun. Fjárveitinganefndin vill vara deildina við að samþykkja brtt. frá einstökum mönnum, að fáeinum undanteknum. Sjerstaklega vill hún vara deildina við að samþykkja þær tillögur, sem fara fram á stórkostlegar fjárveitingar, bæði af því að ekki er útlit fyrir, að hægt verði að ráðast í ýms af þeim stórfyrirtækjum, sem farið er fram á í sumum þeirra, vegna þeirrar teppu, sem er á öllum aðflutningum, og eins fyrir þá sök, að fjárhagurinn leyfir það ekki og allur efniskostnaðurinn svo gífurlegur. Jeg vona, að háttv. deild sýni till. fjárveitinganefndarinnar yfirleitt sömu vinsemd og við 2. umr., því þá sýndi deildin að hún er ánægð með gerðir og stefnu nefndarinnar.

Jeg skal þá snúa mjer að þeim kafla fjárlaganna, sem jeg á yfir að sækja og fara nokkrum orðum um breytingatillögur fjárveitinganefndar á þingskj. 722. og byrja á 1. lið við 8. gr. Jeg skal ekki fjölyrða um hann, því jeg skýrði frá því við aðra umr., að sú brtt. myndi koma nú, og er hún sjálfsögð. Þá er næst brtt. við 12. gr. og er hún um Landsspítalann. Eins og háttv. þingdm. muna, tók nefndin till. aftur við 2. umr. af því að hún vildi athuga hana nánar. Fjárveitinganefnd hafði komið með þá uppástungu, að skipuð yrði 7 manna nefnd, til að undirbúa landsspítalamálið, en hæstvirtur forsætisráðherra áleit, að einhverja þóknun yrði að áætla þeim fyrir þann starfa. Nefndin lítur svo á, að sú skoðun hafi við töluverð rök að styðjast, og kemur því með þessa till. hjer. Aftur á móti áleit nefndin ekki rjett að veita þá upphæð, sem stjórnin hafði sett, því hún mun hafa gengið út frá verklegum undirbúningi og því áætlað 5000 kr., en nefndin álítur, að ekki sje tími til þess kominn að svo vöxnu máli. Þótt nefndin tæki aftur upphaflegu þingsályktunartillöguna, vill hún beina því til hæstv. stjórnar, hvort ekki sje hægt að skipa þessa nefnd samt sem áður gegn einhverri þóknun, t. d. 100 kr. á ári á mann, og þess vegna hefir nefndin lagt til, að veittar yrðu 1000 kr. hvort árið. Þetta er að vísu ekki mikil þóknun, en starfið verður ekki heldur ýkjamikið. Fjárveitinganefndin leggur mikla áherslu á, að þessi nefnd undirbúi landsspítalamálið fyrir næstu þing, og komi með ábyggilegar tillögur, sem þingið geti síðar bygt á.

Þá á jeg að geta þess fyrir nefndarinnar hönd, þótt hún hafi ekki komið með neina brtt. í þá átt, að læknirinn á Vífilsstöðum hefir óskað eftir því, að bygður verði nýr læknisbústaður á Vífilsstöðum en sá, sem nú er, verði tekinn fyrir barnadeild, sjerstaklega í sambandi við ljóslækningar þær, sem nú er farið að nota þar, og mjög áríðandi eru, einkum við útvortisberkla. Hann hefir líka sýnt fram á, að mikil nauðsyn er á, að hægt sje að taka börn á Heilsuhælið, en eins og nú standa sakir, er það nálega ómögulegt. Læknirinn hefir einnig skýrt frá því, að hann hefir mjög óhentugan bústað nú, því hann er alveg í sambandi við sjálft hælið, og sjúkrastofur fyrir ofan íbúðina, og veldur það ónæði fyrir báða hlutaðeigendur. Auk þess er það aðgæsluvert, að þetta getur fælt lækna, sem fjölskyldu hafa, frá hælinu, því þar sem þannig er innangengt úr sjálfu hælinu í læknisbústaðinn, er meiri hætta á, að börn smitist en ella. Nefndin sá sjer ekki fært að leggja til, að ráðist yrði í þetta nú, en skal geta þess, að samkvæmt áætlun Rögnvalds heitins Ólafssonar myndi sjerstakur læknisbústaður kosta 20—22 þús. kr., eftir því verðlagi sem þá var, en auðvitað yrði hann dýrari nú. Nefndin vill lýsa því yfir, að hún telur sig hlynta því, að þetta verði gert í framtíðinni, og álítur, að ef svo skyldi fara, að stjórnin þyrfti að ráðast í undirbúning landsfyrirtækja til atvinnubóta, samkv. frv., sem hjer er fram komið, að þá gæti þetta fallið þar undir, og stjórnin mætti þá m. a. leggja fram fje til undirbúnings þessa verks. Hygg jeg að hún telji þessi ummæli, ef þau standa ómótmælt, nægilega heimild fyrir hana til slíks.

Jeg mintist á það við síðustu umr., að það gæti komið til mála, að nefndin kæmi með brtt., í þá átt, að hækka tillagið til rekstrarkostnaðar við Röntgensstofnunina. Nefndin hefir fallið frá því, með því að ekki var tekið vel í þess konar hækkanir af hæstv. stjórn við síðustu umr. hjer, en jeg vil þó benda á það, að þessi kostnaður hefir síðustu árin farið langt fram úr áætlun, svo jafnvel hefir munað helming. Mjer kæmi það því ekki á óvart, þótt nokkru skakkaði frá áætlun á næsta fjárhagstímabili.

Þá er 3. brtt. á þgskj. 722 og fer hún fram á, að sjúkrasjóði Fellshrepps verði greitt fyrra árið í eitt skifti fyrir öll 200 kr. Í Fellshrepp í Skagafjarðarsýslu hefir verið stofnaður sjóður til styrktar við þá, sem þurfa að leita sjer læknishjálpar út úr sveitinni og verða af því fyrir mikinn halla. Þetta er ekki venjulegt sjúkrasamlag og getur því ekki notið styrks úr landssjóði á þann hátt, en nefndin telur þetta svo lofsamlega byrjun, að ekki megi minna vera en að veittur sje þessi litli styrkur, sem viðurkenning í eitt skifti fyrir öll. Með síðari lið tillögunnar stendur líkt á. Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) skrifaði nefndinni brjef og óskaði eftir því, að slysa- og sjúkrasjóði verkmannafjelagsins Dagsbrún í Reykjavík yrðu veittar 1000 kr. hvort árið. Þetta mun aðallega vera slysasjóður og getur því ekki komið undir sjúkrasamlög, en er mjög nauðsynleg stofnun, sem hjálpar mönnum til að halda starfsþreki sínu, og því á landið að hjálpa til. Nefndin tók þessu vinsamlega, og þótt hún legði ekki til, að veittar yrðu 1000 kr. bæði árin, eins og háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) fór fram á, vill hún veita þessum sjúkrasjóði 1000 kr. í eitt skifti fyrir öll og vonar að háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) geri sig ánægðan með það, þótt óskum hans yrði ekki alveg fullnægt í þessu efni. Nefndin vildi ekki veita þennan styrk bæði árin, af því að hún vill ekki koma honum á sem fastri fjárveitingu.

Næst er 4. brtt. á þgskj. 722. Hún er um að hækka styrkinn til sjúklinga með hörundsberkla úr 1500 upp í 3000 kr. Það stendur svo á henni, að nefndinni barst brjef frá stjórnarráðinu, sem mælti með því, að tekin væri til greina umsókn eins sjúklings, sem nú er í Kaupmannahöfn á Finsensstofnuninni þar. Hann er hjeðan úr Reykjavík, hafði hörundsberkla og fór til Kaupmannahafnar til að leita sjer lækninga upp á eigin spýtur. Hann átti dálítil efni og bjóst við að þurfa ekki að vera þar lengur en svo, að efnin hrykkju til, en þegar til kom, þurfti hann að vera miklu lengur en upprunalega leit út fyrir, svo nú er hann búinn að eyða því litla, sem hann átti, og óskar nú eftir styrk sem aðrir sjúklingar, svo hann geti fengið fullan bata. Nefndin álítur sjálfsagt að taka þessa umsókn til greina, en af því að sá ákveðni styrkur yrði þá ekki nógur, leggur hún til, að hann verði hækkaður um helming.

Þá er lokið brtt. við 12. gr. og þá koma brtt. við 13. gr., sem jeg þarf ekki að fjölyrða um nú, því jeg hefi minst á hana áður. Hún fer fram á, að steinlok og járnlok á ræsi á afhentum flutningabrautum verði ekki kostuð nema að ? af landssjóði. Næsta brtt. fer fram á að lækka endurveitingu til Hjeraðsvatnabrúarinnar.

Stjórnin lagði til að laun allra aðalstöðvarstjóranna yrðu hækkuð og símaverkfræðingsins hækkuð um 400 kr. á ári, nema stöðvarstjórans í Reykjavík. Hann fær að eins 200 kr. Þetta álítur nefndin ósanngjarnt og vill því hækka þann lið um 200 kr. Er þetta samkv. till. landssímastjóra.

Þá er stærsta brtt. nefndarinnar eða sú, sem fer fram á mest fjárframlag, og það er til loftskeytastöðvarinnar í Flatey. Landssímastjórinn hefir lagt til að breyta landssímalögunum þannig, að bygðar yrðu nokkrar loftskeytastöðvar og nota til þess símalánið. Landssímastjórinn segir, að sjálfsagt sje þá að reisa þá fyrstu utan Reykjavíkur í Flatey, og rjett er að gera ráð fyrir, að það geti ef til vill orðið á næsta fjárhagstímabili. Þessi stöð gerir því meira gagn, þegar búið er að reisa hina hjer í Reykjavík. Nefndin ætlast ekki til, að þessi stöð verði reist nema efnið til hennar verði ekki tiltölulega dýrara en efnið til loftskeytastöðvarinnar hjer í Reykjavík, en það hafði ekki hækkað mikið frá því, sem var fyrir stríðið, eftir því, sem landssímastjórinn segir. Við þá áætlun er þessi upphæð 30,000 kr., miðuð. Jeg vil taka það fram, að það er tilætlun nefndarinnar, að ekki verði lagt út í þetta verk, ef kostnaðurinn verður miklu meiri en hjer er gert ráð fyrir. Nefndin hefir sett fjárveitinguna á síðara árið, af því að meiri líkindi eru til, að efni fáist þá með hæfilegu verði en fyrra árið.

Þá er síðasti liðurinn í þessum kafla og hljóðar hann um að hækka rekstrarkostnað vitanna um 100 kr. hvort árið. Þannig stendur á þeirri till., að hreppsnefnd Gerðahrepps tilkynti það, að henni væri ekki hægt að halda vitanum uppi fyrir sama gjald og áður, sökum þess, hve olía hefir hækkað mikið í verði. Vitamálastjórinn og stjórnin tóku vel í þetta, og lögðu til, að fjárveitingin til vitanna yrði hækkuð um 100 kr. vegna þessa vita.

Þá er jeg kominn út þangað, sem jeg á að fara, og skal jeg þá snúa mjer ofurlítið að brtt. frá einstökum mönnum, en jeg fer ekki nákvæmlega út í þær fyr en háttv. flutnm. hafa gert grein fyrir þeim. Jeg skal þá að eins geta þeirra, sem fjárveitinganefndin er á móti og ? atkvæða, með nafnakalli samkv. 32. gr. þingskapanna, þarf til að gangi fram. Það er þá fyrst brtt. á þingskj. 698 við 13. gr. A. 3. d. um að hækka laun póstafgreiðslumannsins á Siglufirði. Nefndin er alls ekki á móti því í sjálfu sjer, að hann fái launahækkun, en mótmælir þessu að eins fyrir formsök, því það er ekki venja að veita í fjárlögunum launahækkun póstafgreiðslumanns á sjerstakt nafn, heldur á þann liðinn, og póstmeistari svo látinn meðhöndla fjeð með bendingu um, hver á að fá hækkunina. Þetta gerir, að nefndin getur ekki tekið tillit til brtt., en vitanlega stafar þetta eingöngu af athugaleysi hjá háttv. flutnm., að þeir hafa ekki borið till. fram á rjettan hátt. Þá er önnur brtt., sem verður að sæta sömu meðferð. Hún er á þgskj. 693 og er borin fram af háttv. þm. Mýra. Nefndinni fanst ekki geta komið til mála að veita fje til þessa vegar, fyrst og fremst af því að engar upplýsingar eru fyrir hendi um þenna veg. Jeg hefi átt tal um þetta við vegamálastjórann, og hann veit ekki hvar vegurinn á að liggja. Við litum á landabrjefið og virtist svæðið heldur óárennilegt, sem vegurinn átti að liggja yfir. Það eru engar upplýsingar fyrir hendi um þenna fyrirhugaða veg, enginn verkfræðingur hefir skoðað vegarstæðið, og nefndin neyðist því að sjálfsögðu til að beita þessu ákvæði við till.

Þá er brtt. á þgskj. 642 frá þingmönnum S.-M. um nýjan vita á Kambanesi, og þar eru líka sjerstakar ástæður, sem mæla móti, sem sje þær, að hjer í deildinni er á ferðinni frv. til laga um vitabyggingar, sem líklegt er að verði samþykt. Nefndinni finst það óviðeigandi að taka í fjárlög einstaka vita úr því kerfi, sem vitamálastjórinn hefir þegar samið. Þar sem málinu er þannig komið, þá finst mjer háttv. flutnm. megi vel við una þó brtt. þeirra verði ekki samþykt.

Enn ætla jeg sjerstaklega að geta um eina brtt. enn þá. Hún er á þgskj. 640, og er frá háttv. þingmönnum Árn. og 2. þm. Rang , og fer fram á það, að varið verði 10000 kr. fyrra árið til að færa veginn úr Smiðjulaut á Hellisheiði. Flutningsmönnum þessarar brtt. er það sjálfsagt ekki kunnugt, að það er fyrirhugað af vegamálastjóra, að verja 28000 kr. til vegarins austur. Eftir fjárlagafrv. er ætlast til, að af þessum 28000 kr. verði 18000 veittar næsta fjárhagstímabil. Þessar 28000 krónur á að nota til þess aðallega, að brúa smáár í Ölfusinu, brúa Elliðaárnar á ný, og til þess að færa veginn úr Smiðjulaut. Það er því engin ástæða til, að taka upp þessa fjárveitingu. Enn fremur má geta þess, að þar sem ekki verður sjeð, að hægt verði að byrja á brúagerðum fyrst um sinn, sökum efniskostnaðar, þá eru líkindi til, að það, sem fyrst verður gert á veginum austur, verði einmitt það, að færa veginn úr Smiðjulaut. Vegamálastjóri bjóst við, að það mundi verða gert þegar á næsta ári.

Í brtt. stendur meira en þetta. Flm. ætlast til, að nokkru af þessari upphæð, sem þeir fara fram á, verði varið til að laga Kambaveginn. Nefndin hefir átt tal um þetta við vegamálastjóra. Hann segir, að ekki geti verið um viðgerð á þessum vegi að ræða, nema færa hann allan úr stað, en það mundi kosta 40000 kr. Til þess að gera veginn viðunandi verður að lengja hann, að minsta kosti um helming. Vegamálastjóri kvað ögn hafa verið lagfærðar allra verstu beygjurnar í sumar, en meira verði varla aðgert fyr en ráðist verður í að færa veginn, en á því eru engin tök á næsta fjárhagstímabili. Jeg vil því leyfa mjer að mælast til þess við háttv. flutnm., að þeir taki till. sína aftur.

Áður en jeg sest niður, vildi jeg að eins minnast á brýrnar, þótt jeg ætli mjer ekki að minnast á einstakar brúartill., fyr en flutnm. þeirra hafa gert grein fyrir þeim. En jeg tel mjer skylt að geta þess nú þegar, að vegamálastjóri hefir lýst yfir því við nefndina, að ekki sje hægt að koma af fleiri brúm á einu fjárhagstímabili, heldur en þeim, sem þegar eru komnar í fjárlögin; það sje ekki mannafli til að vinna að þeim, sjerstaklega ekki verkfræðingar til að sjá um gerð þeirra. Ef svo þar við bætist, sem allar horfur eru á, að ekkert verði unnið að brúagerð fyrra árið, þá verði meira að segja að fresta algerlega sumum af þeim brúm, sem þegar eru komnar í fjárlögin.

Jeg segi þetta áður en jeg sest niður, til athugunar þeim, sem eiga brtt. um brúargerðir. Annars geri jeg ráð fyrir að taka aftur til máls, þegar flutnm. að brtt. þessum eru búnir að skýra till. sínar.