12.07.1917
Efri deild: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

9. mál, sjúkrasamlög

Kristinn Daníelsson:

Af því að svo tókst til við 1. umr. þessa máls, að það komst ekki í neina nefnd, þá tók jeg mjer fyrir hendur að kynna mjer málið nokkru nánar. Við þá kynningu komst jeg að raun um það, að þeirrar þekkingar, er þyrfti til að fjalla um þetta mál, væri að leita hjá þeim nefndum, er fara með fjárhag og fjárveitingar, því að tilgangur frv. er sá, að styrkja sjúkrasamlögin, og munu allir að sjálfsögðu sammála um, að sjúkrasamlögin sjeu gott og nytsamt fyrirtæki.

En nú lítur svo, út sem sjúkrasamlögin geti ekki þrifist með styrk þeim, sem þeim er nú ætlaður, og þetta frv. fer eingöngu fram á að bæta úr þessu. Það eru tvö aðalráð, sem stungið er upp á. Annað er það, að landssjóður greiði ¼ hluta sjúkrahússkostnaðar samlaganna, en hitt, að samlagsmenn greiði sjálfir ¼ hluta lyfjakostnaðar utan sjúkrahúsa.

Þetta er, að því er mjer virðist, ofureinfalt mál, og gæti þeirra hluta vegna gengið fram nefndarlaust, ef vildi. Þó gæti hugsast, að nefnd hefði einhverjar fleiri breytingar að gera, og vil jeg því leggja til, að málinu verði vísað til nefndar.