30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Jörundur Brynjólfsson:

Úr því að jeg verð að taka til máls get jeg ekki látið hjá líða að tjá háttv. fjárveitinganefnd þakkir fyrir undirtektir hennar undir málaleitun þá, er jeg sendi henni, þar sem hún hefir tekið upp í 3. lið brtt. sinna á þgskj. 722 styrk til sjúkra- og styrktarsjóðs verkmanna hjer í bænum. Vænti jeg þess, að háttv. deild líti á þetta sömu augum, því að hjer er um nauðsynlegan styrk að ræða, og það er ætíð best að reyna að tryggja afkomu og líðan einstaklinganna, og rjett að ríkið leggi eitthvað af mörkum til þess. Þessi sjóður á nú að eins að bæta úr brýnasta skorti, er verkamenn verða fyrir af slysum eða sjúkdómum, en hann er svo fátækur, að hann getur það ekki nema að litlu leyti. En mjer þykir leitt að sjá í till. orðið »í eitt skifti«, en þrátt fyrir það get jeg ekki annað en tjáð nefndinni þakkir fyrir, að hún tók málaleitun þessa til greina.

Um einstakar brtt. fjárveitinganefndar skal jeg ekki fjölyrða. Flestar þeirra eru svo sanngjarnar, að það er lítil ástæða til að hafa mikið á móti þeim Að vísu geta verið skiftar skoðanir um einstaka liði, en munar venjulega svo lítilli upphæð, að vel má á sama standa, og flestar ætla jeg svo úr garði gerðar, að þær geti orðið að gagni.

Svo hefi jeg leyft mjer að koma fram með þrjár viðaukatill., á þgskj. 671, 672 og 673. Hin fyrsta fer fram á að veita ungfrú Hólmfríði Árnadóttur 500 kr. hvort ár til kvöldskólahalds í Reykjavík. Henni hefa verið veittar 500 kr. hvort ár fjárhagstímabilsins sem yfirstendur. Hefir hún haft kvöldskóla undanfarin ár, og sýnt, að henni er mjög sýnt um að stjórna skóla. Nemendur hafa sótt í skóla hennar góða mentun, og það, sem mest er um vert, vanist góðri stjórn og góðri hegðun. Skil jeg ekki, hvers vegna hæstv. stjórn hefir ekki lagt til, að fjárveitingin hjeldi áfram. Jeg þori að fullyrða, að ekkert það hefir komið fram, er rjettlæti það, að fjárveitingin falli niður, ef það hefir verið rjettmætt að veita styrkinn í fyrstu. Jeg er þess fullviss að enginn þeirra unglingaskóla annara, er landssjóður styrkir, hafi meiri rjett til styrks en þessi skóli að jeg vilji í nokkru kasta rýrð á þá. Jeg þorði ekki að fara fram á meiri fjárveitingu til þessa skóla, þótt það hefði verið eðlilegt og sjálfsagt, vegna aukinna erfiðleika af dýrtíðarinnar völdum. Þegar jeg fer svo hóflega í sakirnar, vona jeg, að háttv. deild samþykki till. Það, sem jeg hefi hjer sagt um skóla þennan, segi jeg af þekkingu á starfi hans. Þessi skóli er ekki fyrir Reykvíkinga nema að nokkru leyti. Stúlkur þær annarsstaðar að, sem dvelja í Reykjavík að vetrinum og stunda verklegt nám að deginum, leita þangað fræðslu á kvöldin. Vona jeg, að deildin sýni þá sanngirni að fella ekki þessa fjárveitingu.

Önnur brtt. et á þgskj. 672. Sú till. var hjer við 2. umr., en jeg tók hana aftur þá, af því að borist höfðu ýms skírteini frá þessum námsmanni, sem fjárveitinganefnd hafði ekki unnist tími til að athuga. Hann hefir góð meðmæli. Hann sótti um 1200 kr., en jeg hefi faríð fram á 800 kr. Jeg álít þetta mjög þýðingarmikið nám fyrir framtíðina, er tekið verður að beisla fossana hjer á landi. Þessi ungi námsmaður er fátækur og á engan að, er styrkt geti, og væri því mjög vel farið, ef þingið sæi sjer fjært að styrkja hann ofurlítið. Í sambandi við þetta má geta þess, að með brtt. á öðru þingskj. er farið fram á að styrkja annan mann til samskonar náms. Er það lík upphæð, og fjarri því, að jeg hafi nokkuð á móti henni. Þótt mennirnir séu tveir, er þeim alls ekki ofaukið, ef eitthvað verður aðhafst.

Þriðja brtt. er á þingskj. 673 og fer fram á 500 kr. þóknun hvort ár til Jóns Helgasonar, fyrrum vitavarðar á Reykjanesi. Jeg þekki manninn ekki vitund og get ekkert sagt um hann, en kunnugir segja, að það sje gamall maður og fátækur; og það er kunnugt öllum háttv. þingm., að hann hefir verið lengi í þjónustu landsins. Hann er ómagamaður og á erfitt uppdráttar. Þess vegna flyt jeg þessa till., að maðurinn hefir verið lengi í þjónustu landsins, og legg jeg það á vald háttv. deildar, hvort hún vill að einhverju draga úr erfiðleikum hans. Frekar vil jeg ekki lengja umr. að sinni.