01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

12. mál, vegir

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg gat þess við 1. umr., að frv. þetta væri komið frá háttv. Ed. og hefði legið fyrir samvinnunefnd samgöngumála. Frv. er frá stjórninni og er breyting á vegalögunum frá 22. nóv. 1907. Breyting þessi er um legu flutningabrautanna í Húnavatnssýslu. Eftir lögunum frá 1907 var ákveðið, að flutningabrautin ætti að liggja frá Blönduósi að Víðidalsá um Steinsvað. En nú er breytingin þannig, að í Austursýslunni skuli brautin að eins ná að Vatnsdalshólum. Í Vestursýslunni er feldur burt kaflinn frá Gljúfurá að Steinsvaði, en ákveðið,

að braut skuli koma frá Hvammstanga inn á þjóðveginn hjá Stóra-Ósi. Þessar breytingar eru að vísu allmiklar, en nefndirnar gátu aðhylst þær að öllu leyti. Sá kafli, sem feldur er niður í Austursýslunni, hefir litla þýðingu. Og þar sem ekki eru nema 2 bæir, sem hefðu not af þeim kafla, þá ber á það að líta, að sýslunni er hagur að losna við viðhald hans. Brautarkaflinn í Vestursýslunni, frá Gljúfurá að Steinsvaði, yrði að tiltölulega mjög litlum almennum notum fyrir hjeraðið. En eins og í upphafi var tilætlunin með flutningabrautirnar, að þær lægju frá kaupstöðunum eða kauptúnunum upp um sveitirnar, þá er alveg rjett, að flutningabraut í Vestur-Húnavatnssýslu byrji á Hvammstanga og komi á þjóðveginn hjá Stóra-Ósi. Með því móti kemur hún öllu hjeraðinu best að notum, með hliðsjón af því, að hin fyrirhugaða þjóðvegarlagning verði akfær vegur.

Öðru máli er að gegna um ákvörðun um legu þjóðvegarins, sem háttv. Ed. hefir felt í burt og samvinnunefndin lagði til. Hann liggur nú um mynni Víðidals, en á að færast talsvert norðar, um Vesturhóp og yfir Víðidalsá nálægt Faxalæk, eins og sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu hafði lagt til. En með þessu móti verður Víðidalur talsvert út undan og er gert erfitt fyrir að nota brúna. Komið höfðu til mála 2 leiðir, sem leggja mætti veginn um. Núverandi vegamálastjóri hefir hvoruga leiðina skoðað, og sá fráfarni ekki heldur rannsakað syðri leiðina til hlítar, en ýmsum kunnugum mönnum ber saman um, að á þeirri leið muni vera betra vegarstæði. Um það skal jeg ekki deila.

En það er annað atriði, sem jeg vildi minnast á, sem stendur í sambandi við þetta. Um leið og vegurinn verður færður hefir komið til mála að gefa sveitinni þá uppbót, að leggja veg yfir hálsinn vestan Víðidals, um Valdarás, og brúa Víðidalsá á öðrum stað þar fremra. Þetta skoðuðu menn sem fyrirheit til hjeraðsins um, að landssjóður kostaði brú á Víðidalsá á þessum stað. En eftir undirtektum vegamálastjóra nú er ekki að búast við, að landssjóður kosti brúna nema að einhverju leyti. Þarna er ekki búið að skoða brúarstæði enn þá, en brúa yrði þar tvær ár, Fitjaá og Víðidalsá. Það þótti því ekki ráðlegt að slá neinu föstu um veginn að sinni, meðan alt er órannsakað, er að þessu lýtur, og ekkert er ákveðið, hve miklu landssjóður vildi kosta til þessara brúa. Hjer er heldur ekkert í húfi með verkefni, því að þótt flutningabrautinni frá Blönduósi að Vatnsdalshólum verði lokið nú í sumar, þá er nóg þörf fyrir vinnukraftinn við brautina frá Hvammstanga, sem þá mætti byrja á. Verkfræðingurinn hefir fallist á þessar till., og nefndin hefir orðið sammála um, að 2. gr. frv. yrði feld, eins og líka hefir verið gert í háttv. Ed.