05.07.1917
Efri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

15. mál, mælitæki og vogaráhöld

Forsætisráðherra (J. M.):

Það hafa oft komið fram óskir um það, að skipulagi yrði komið á um löggilding mælis og vogar. Sýndist ráðuneytinu tími til kominn að bæta þar um, ef hægt væri.

Veit jeg dæmi til þess, að mönnum, sem búið hafa til ýmiskonar mál, hefir reynst það tilfinnanlega erfitt að fá þau löggilt. Virðist því full ástæða til að setja lög, sem greiði fyrir í þessu efni, og gengur frv. þetta að nokkru leyti í þá átt. Að vísu mun þetta hafa kostnað í för með sjer; geri jeg þó ráð fyrir, að hann verði ekki tilfinnanlegur.

Auðvitað er löggilding mælis og vogar ekki aðalatriðið, heldur eftirlitið, því að án rækilegs eftirlits mundi lögreglustjórum reynast ókleift að sjá um, að haldin væru ákvæðin um notkun tækjanna.

Það hefir líka komið í ljós við skoðun á mæli og vogum, að tækin hafa slitnað áður en menn varði og því lítill hluti þeirra verið rjettur. Slit þetta hefir oft verið svo mikið, að hegningarvert hefir verið að nota tækin. Frv. um löggildingu mælis og vogar mundi því alls ekki ná tilgangi sínum, ef ekki væri ákvæði um það, að eftirlit væri haft með tækjunum.