04.08.1917
Efri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

15. mál, mælitæki og vogaráhöld

Frsm. (Hannes Hafstein):

Jeg vona að þurfa ekki að tefja háttv. deild á langri framsögu í þessu máli, nema sjerstakt tilefni verði gefið til þess.

Nefndin athugaði þetta frv. og hafði það til meðferðar á mörgum fundum; varð hún sammála um, að það væri talsvert góð rjettarbót að því, og þótt það hafi nokkurn kostnað í för með sjer, þá sje ekki í það horfandi, móts við þann hagnað, sem af því leiðir.

Laun starfsmanna eru ekki gerð mikil; það er ætlað 2500 kr. laun handa forstöðumanni og 500 kr. til ferðakostnaðar, og loks 8000 kr. til þess að koma skrifstofunni á stofn. Nefndinni þykir að vísu líklegt, að sá kostnaður, sem hjer er talinn, muni reynast oflágur, auk þess sem gera má ráð fyrir launahækkun starfsmanna síðar meir, en hagnaðurinn á hinn bóginn svo mikill, að ekki sje í það horfandi, þótt kostnaður verði talsvert meiri en gert er ráð fyrir í frv. Það er einróma álit nefndarinnar, að efni frv. sje gott, og hefir hún ekki fundið ástæðu til að stinga upp á sjerstökum efnisbreytingum. En þar á móti þótti oss málið á frv. ekki sem best. Jeg hefi heyrt, að frv. hafi verið samið á skrifstofu stjórnarráðsins í Kaupmannahöfn, og er eðlilegt, að hún sje ekki jafnleikin í því að rita gott mál eins og vjer í háttv. Ed. Alþingis hljótum að vera, þó að hún hafi góðum starfskröftum á að skipa. En vjer nefndarmenn höfum eftir föngum reynt að lagfæra málið á frv. Jeg veit, að því muni vera mikið ábótavant enn, þó að það sje mikið til bóta, sem vjer höfum stungið upp á.

Jeg álít óþarft að fara að tína upp og skýra háttv. deild frá hverri breytingu; vona, að háttv. þm. hafi athugað þær, og að háttv. deild treysti því, að nefndin hafi gert það eins vel og hún gat. Vona, að háttv. deild leyfi málinu að ganga áfram.