30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Matthías Ólafsson:

Það er með samþykki fjárveitinganefndarinnar, að jeg ber fram brtt. á þgskj. 663, um styrk til Sigurðar Þórðarsonar, til tónfræðináms í Þýskalandi. Þessi piltur er nú líklega rúmlega 20 ára gamall. Hann hefir verið hjer heima þangað til í fyrra vetur, að hann sigldi til útlanda. Hjer heima gekk hann í verslunarskóla, og var því næst við verslun á Akureyri og þar á eftir í Landsbankanum hjer í Reykjavík, en gat ekki felt sig við þá vinnu, af því að hugurinn var allur hjá tónfræðinni. Hann hafði einkum stundað fiðluleik, og hafði lært mest hjá sænska fiðluleikaranum, sem hjer var, Oscar Johansen. Sömuleiðis mun hann hafa lært pianoleik hjá frú Petersen og Sigfúsi Einarssyni, og hefir góð vottorð frá þeim báðum. Enn hafði hann samið nokkur lög áður en hann fór hjeðan, og eru þau, að dómi Sigfúsar Einarssonar, mjög lagleg.

Þessi maður fjekk lán í fyrra, til þess að geta komist utan, en nú mun þetta lán vera uppetið, sem vonlegt er. Hann fer nú fram á að fá 2000 kr. styrk fyrra árið, til þess að geta haldið áfram námi sínu; síðan vonar hann, að hann verði þess umkominn að vinna fyrir sjer með kenslu.

Vegna óhagstæðra ferða milli landa hefir pilturinn ekki getað komið heim brjefi með vottorðum um það, hvernig hann stundi nám sitt, en jeg hefi sjeð brjef frá Páli Ísólfssyni, þar sem hann minnist á þennan mann, og lætur mikið af áhuga hans og iðni við námið.

Ef Sigurður yrði nú fyrir þeim vonbrigðum, að þingið vildi ekki sinna þessari ósk hans, þá yrði hann að öllum líkindum að hætta við alt nám, og væri það mjög ilt fyrir Íslendinga, því að maðurinn er mjög efnilegur, en ekki margir, sem slíkt nám stunda, svo að ekki er hætt við »Overproduktion« af mönnum á því sviði.

Fjárveitinganefndin ætlaðist til, að Sigurður fengi 2000 kr. styrk af fje því, sem hún vildi veita til skálda og listamanna, 16 þúsund krónur, en nú lækkaði þessi háttv. deild styrkinn, eins og kunnugt er, niður í 12 þús., og því hefi jeg komið fram með þessa brtt.

Jeg skal geta þess, að mjer veitist það ljett, samvisku minnar vegna, að greiða atkvæði með þessu atriði, því að jeg hefi verið nægjusamur fyrir kjördæmi mitt á þessu þingi. Kjördæmi mitt á sem sje ekki von á neinni fjárveitingu nú í fjárlögunum, nema 600 kr. til Dynjandaánna, og getur það varla talist mikið. Mjer hefir ekki sýnst það ráðlegt, að gera mikið að fjárbænum nú, en þessa fjárbeiðni þykist jeg geta varið, bæði fyrir kjósendum mínum og almenningsálitinu.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Jeg vona, að allir sjái, að rjett er að samþykkja þessa fjárveitingu. Það getur hver og einn stungið hendinni í sinn eiginn barm og spurt sjálfan sig, hvað hann mundi gera, ef eitthvert skyldmenni hans væri statt suður á Þýskalandi og yrði að hætta við nám,, ef ekki fengi örlítinn styrk. Það er svo illa ástatt fyrir oss Íslendingum, að vjer eigum enga þá sjóði, sem slíkir menn geti fengið styrk úr, og hvílir þá einskonar skylda á landssjóði til að styrkja þá.

Að síðustu skal jeg geta þess, að jeg vil heldur veita liðsinni mitt til að að styrkja þá menn, sem síðar kynnu að sýna það að þeir voru þess ekki verðir, heldur en vera á móti styrk til þeirra, sem efnilegir eru, því að það getur orðið landinu að miklu tjóni.