07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Frv. þetta, sem lagt er fyrir þingið af hæstv. stjórn, samkvæmt vilja fyrri þinga, hefir nefndin fallist á í aðalatriðunum. Þykir henni heppileg sú leið, sem valin hefir verið, að auk þess, sem bætt eru að miklum mun núgildandi ákvæði um líftrygging sjómanna, þá eru einnig teknar upp tryggingar fyrir slysum, sem ekki valda dauða.

Að undanförnu hefir verið óánægja yfir lögum þeim, sem nú gilda um líftrygging sjómanna, og er það ekki undarlegt, því að bætur þær, sem þar eru ákveðnar, geta engar mannbætur kallast.

Um slysatryggingarnar er það að segja, að líklegt er, að fyrir mörgum vaki það, að æskilegt væri, að almennum slysatryggingum yrði komið á sem fyrst. En jeg býst við, að mönnum sje það ekki ljóst alment, hversu erfitt er að koma því í framkvæmd, vegna þess, að hjer er engin reynsla og ekki heldur nægilega föst stjettaskipun til að byggja á.

Það vita allir, að þótt litið sje að eins til þeirra manna, sem sjó stunda að meira eða minna leyti, þá geta þeir tæplega talist stjett út af fyrir sig.

Takmörkin er erfitt að ákveða, því að þótt telja megi til sjómannastjettar þá menn, sem fiskveiðar stunda á stærri skipum, farmenn o. fl., þá er aftur fjöldi manna, á smærri skipum og vjelbátum, sem stunda sjó að eins nokkurn hluta árs, en hafa þar fyrir utan ýmsa atvinnu með höndum. Það getur því verið vafamál, til hvaða stjettar beri að telja slíka menn.

Þetta sýnir það fljótlega, að þeir, sem unnu að undirbúningi málsins, hafa átt úr vöndu að ráða, og hafa því tekið þann kost að flokka menn niður í þrjá flokka.

Flokkaskiftingu þessa hefir nefndin aðhylst, þótt hún telji takmörkin ekki í alla staði heppileg, enda getur það verið álitamál, hvernig henni sje haganlegast fyrir komið.

Jeg býst við, að sumum kunni að virðast gjald það, sem greiða ber, nokkuð hátt. En að mínu áliti er það fremur vægt. Kemur það ljóslega fram, ef það er borið saman við gjald það, sem greiða ber eftir núgildandi lögum, með tilliti til skaðabótanna. Nú greiða menn 24 aura á viku. Þá verður árgjaldið 12,48 kr. Skaðabæturnar eru 400 kr., sem greiðast á 4 árum. Þá nemur iðgjaldið nálægt 3% þeirri upphæð.

Aftur á móti verður gjald þetta mismunandi eftir frv. Í 1. flokki er ætlast til þess, að greiddir sjeu 70 au. á viku, og greiði skipverji helming þess, en útgerðarmaður hinn. Árgjaldið verður 36,40 kr. Skaðabæturnar eru 1500— 2000 kr., eftir því, hvort slysið veldur líftjóni eða gerir menn ófæra til vinnu að meira eða minna leyti. Taki maður nú lægri töluna, 1500 kr, þá nemur iðgjaldið tæplega 2½% af þeirri upphæð.

Þetta eru því óneitanlega aðgengilegri kjör en þau, sem menn eiga við að búa eftir núgildandi lögum.

Eftir frv. skulu menn í 2. fl. greiða 35 aura á viku, en útgerðarmaður 10 aura á viku. Þar hefir nefndin breytt svo, að útgerðarmaður greiði 20 aura á viku. Munurinn er að eins sá, að eftir frv. ber landssjóði að greiða 25 aura á viku, en eftir brtt. nefndarinnar ekki nema 15 aura á viku.

Gangi maður nú út frá till. nefndarinnar, verður iðgjaldið 55 aurar á viku. Árgjaldið verður þá 28,60 kr. Sjeu skaðabætur hinar sömu og í 1. flokki, nemur gjaldið tæplega 2%.

Í 3. flokki eru þeir, sem stunda fiskveiðar á minni róðrarbátum. Eru þeir ekki skyldir að tryggja sig, en hafa þó heimild til þess, og er það hvöt fyrir þá, að landssjóður leggur fram hálft gjaldið. Iðgjald þeirra er 35 aurar á viku. Árgjaldið verður 18,20 kr. Það er ekki nema rúmlega 11/5% af skaðabótaupphæðinni.

Af þessu öllu má sjá, að hjer eru talsvert aðgengilegri kjör í boði en þau, sem nú er við að búa.

Mun jeg svo ekki fara frekar út í efni frv. í heild, en drepa á helstu brtt., sem nefndin hefir komið fram með.

Flestar þeirra eru að eins orðabreytingar, og vil jeg, til flýtis og hægðarauka, benda á það strax, hverjar þær eru. Það eru 1., 2, 4., 5., 6, 7., 8., 9., 12., 14., 15., 17., 18., 22., 25. og 26. brtt. Allar þessar eru að eins orðabreytingar. Hinar aðrar eru efnisbreytingar, þó flestar smáar.

Það er þá fyrst brtt. 3., við niðurlag 1. málsgr. í 2. gr. frv. Þar segir svo í frv.: »Um leið og lögskráning fer fram skal skráningarstjóri gera sjerstaka skrá yfir skipverja þá, er 1. gr. nær til, hvort heldur þeir eru ráðnir hásetar, stýrimenn eða skipstjórar.« Þetta ákvæði þótti nefndinni ekki fullkomlega tæmandi, því að fleiri geta verið starfsmenn skipsins en þeir, sem taldir eru hásetar, stýrimenn eða skipstjórar. Vill nefndin fella niður upptalningu þessa, en setja í staðinn: »hverja stöðu sem þeir hafa á skipinu«.

Þá er brtt. 10., við 3. gr. frv. Þar hefir nefndin breytt takmarkinu á lestastærð skipanna úr 8 upp í 12. Sje miðað við 8 smál. stærð og gjaldið látið lækka úr 70 au. í 45 au. þá verður það stórt stökk, og virðist takmarkið sett af handahófi. Sje aftur á móti miðað við 12 smál. stærð, kemur það betur heim við önnur ákvæði um flokkun skipa og er auk þess rjettara, með tilliti til hinna flokkanna.

Brtt. 11. stendur aftur í sambandi við þessa breytingu. Þar er farið fram á það, að 45 au. gjaldið verði hækkað, eða, með öðrum orðum, að útgerðarmaður greiði 20 au. í stað 10.

Nefndin mun halda fast við þessar breytingar, því að þær koma flokkuninni í betra horf og fyrirbyggja þetta óeðlilega stökk úr 70 au. niður í 45 au.

Ef takmarkið er haft 12 smál. stærð og minkaður um leið mismunur gjaldsins, þá dregur það úr stigbreytingu þessari. Breytingar þessar eru því óneitanlega til bóta.

Brtt. 13. er aftur bein afleiðing af brtt. 11., því að um leið og gjald útgerðarmanns breytist úr 10 au. í 20 au., lækkar landssjóðsgjaldið auðvitað að sama skapi úr 25 au. niður í 15 aura. Með því móti ætlast nefndin til, að ekki þurfi að aukast útgjöld landssjóðs, þótt þeim mönnum fjölgi, sem hann greiðir iðgjöld fyrir, við það, að lágmarkið er flutt úr 8 smál. upp í 12.

Þá er brtt. 16. bein afleiðing af brtt 10., þar sem takmarkinu fyrir stærð skipanna er breytt úr 8 í 12 smál.

Brtt. 19. er ekki stórvægileg, og mun þar naumast á milli bera. Virðist nefndinni það ekki geta komið til mála, að maður fjelli óbættur, þótt hann væri ekki á skipsfjöl, þegar slysið vildi til. Svo getur t. d. staðið á, að maður sje við vinnu annarsstaðar og þó í skipsins þarfir. Sömuleiðis getur það fyrir komið, að menn sjeu fluttir veikir í land af ofkælingu eða blóðeitrun, sem stafað getur af störfum þeirra á skipinu.

Eigi nú að svifta fjölskyldu slíkra manna skaðabótunum fyrir það, að tekist hefir að koma þeim af skipi með lífsmarki, þá virðist það ekki vera í góðu samræmi við mannúðarstefnu þá, sem hrundið hefir af stað máli þessu.

Af þessum ástæðum tel jeg sjálfsagt, að þessi breyting sje gerð.

20. breytingin er í raun og veru að eins orðabreyting, sem nefndinni þótti betur fara.

Þá er 21. breytingin. Hún er fram komin af þeirri ástæðu, að nefndin leit svo á, að því viki dálítið kynlega við, að orðin »innan eins árs frá því að slysið varð« væru látin standa óbreytt, og lagði þess vegna til, að þau væru feld úr frumvarpinu. Það rekur sem sje fljótt að þessari vafaspurningu: Hverskonar gjald á þá að greiða fyrir þá menn, sem snögglega deyja, drukna eða bíða bana af öðrum vofeiflegum stórslysum? Hún áleit, að greinin yrði að minsta kosti skýrari með því móti.

Þá kem jeg að 24. breytingunni. Jeg býst við, að hún muni einkum mæta mótspyrnu, og því sje ekki vanþörf á að rökstyðja hana.

Nefndin íhugaði þetta atriði gaumgæfilega, meðal annars af því, að henni var það fyrirfram ljóst, að það kynni að mæta andblástri. Og því lengur sem hún íhugaði þennan nýja lið, því sannfærðari varð hún um, að hann væri til stórbóta. Annars skal jeg ekki tilfæra hjer allar þær ástæður, sem nefndin áleit að gerði hann í alla staði rjettmætan, að minsta kosti ekki fyr en jeg heyri, hvort hann mætir mótspyrnu hjer í deildinni. Jeg skal láta mjer nægja að benda háttv. deild á það, að systkin hins látna geta verið börn, sem engan eiga að eftir fráfall hans, og þau mundu þess vegna fara á vonarvöl, eftir ákvæði frumvarpsins. En það þótti nefndinni í alla staði ómannúðlegt. En reynslan hefir aftur á móti sýnt, að þau tilfelli, sem hjer um ræðir, eru svo sjaldgæf, að þau mundu ekki valda stórvægilegum fjárútlátum. En hins vegar áleit nefndin, að landinu bæri að hlaupa undir bagga með munaðarleysingjunum, þá sjaldan að slík slys kæmu fyrir.

26. breytingin, sem kveður svo á, að ekkert af skaðabótunum renni til fjarskyldra manna, er árjetting á ákvæði frumvarpsins, og verð jeg að telja hana til bóta.

Þá er 28. og síðasta breyting nefndarinnar. Um þessa breytingu skal jeg geta þess, að nefndinni er ekkert kappsmál, að hún verði samþykt. Hún áleit, að það gæfi sjóðnum meiri tryggingu og festu, að ábyrgð landssjóðs væri hækkuð. Því að ef sjóðurinn gæti ekki staðist útgjöldin í bili, yrði landssjóður hvort sem væri að hækka ábyrgð sína, og því væri hyggilegast að hafa hana nægilega háa þegar í fyrstu. En hún yrði auðvitað ekki skert nema nauðsyn krefði.

Jeg vonast þá til, að háttv. deild sje sammála nefndinni um það, að þessar breytingar á frumvarpinu sjeu til bóta.