07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Forsætisráðherra (J. M):

Jeg skal ekki rekja hinar smávægilegri brtt. nefndarinnar. Jeg vildi að eins minnast dálítið á aðalbreytingarnar.

Það getur ekki dulist háttv. nefnd, fremur en öðrum, að það, sem frv. fer fram á, er trygging gegn slysum, sem orsakast af atvinnurekstri. Hefir það vakað fyrir ráðuneytinu, að þetta væri byrjun til almennra slysatrygginga, svo sem tíðkast erlendis. Þar er vinnuveitandanum jafnaðarlega gert að skyldu að tryggja verkamenn sína gegn slysum, sem kynnu að stafa af þeirri atvinnu, er hann ræður þá til. En þessum grundvelli, tryggingu gegn slysum af atvinnurekstri, hefir nefndin horfið frá. Hún lætur sjer ekki nægja að tryggja menn gegn slysum, er af atvinnunni leiða, heldur fer hún lengra. Eftir frv. falla undir trygginguna þau slys, er verða á skipi á leið úr landi, út í skip eða frá skipi í land. Í sjálfu sjer hefði verið rjettast að orða ákvæðið þannig, að skaðabætur beri að greiða fyrir þau slys, er orsökuðust af atvinnurekstrinum. Erlend reynsla hefir sýnt, að um örorkuslys er það alloft miklum efa undirorpið, hvort þau stafi af atvinnurekstrinum eða ekki. Hjer er einmitt oft um smáslys að ræða, og til þess að komast hjá langri og erfiðri rannsókn á þessum slysum, var sá upp tekinn, að orða ákvæðið eins og það er í frv. Þessu fylgir sá kostur, að það er ávalt ljóst, fyrir hvert slys greiða ber skaðabætur, en á hinn bóginn munu, að heita má, öll atvinnuslys sjómanna, þau er máli skifta, falla undir lögin, samkv. orðalagi frv. 19. brtt. nefndarinnar gengur í þá átt, að skaðabætur skuli greiddar fyrir öll slys, er koma fyrir á vátryggingartímanum, án tillits til, hvort þau koma atvinnurekstrinum við eða ekki. Till. gerbreytir grundvelli laganna, og verður að gæta þess, að vinnuveitendum, þ. e. útgerðarmönnum, er gert að skyldu að greiða nokkurn hluta iðgjaldanna, en auðvitað er ekki rjett að skylda þá til að kaupa trygging gegn öðrum slysum en þeim, er af atvinnunni leiða. Í þessu sambandi skal bent á það, að sá hluti gjaldanna, sem ætlaður er fyrir kostnaði við örorkuslys, er bygður á norsku fiskimannatryggingunni, en í henni koma að eins til greina þau slys, er stafa af sjálfum fiskiveiðunum. Væri brtt. nefndarinnar samþ., yrði því að hækka iðgjöldin. Jeg hefði getað búist við einni brtt. við frv., nfl. þeirri, að útgerðarmenn, hinna stærri skipa að minsta kosti, væru neyddir að greiða öll iðgjöldin, og mundi mjer hafa orðið örðugt að mæla á móti þeirri brtt. Ráðuneytinu þótti samt ekki rjett að fara svo langt að sinni, heldur byggja á þeim vísi til slíkra vátryggingarlaga, sem nú er til.

Þá er önnur aðalbreyting nefndarinnar, sem líka ruglar allan útreikning frv. En hún er sú, að skaðabótarjetturinn nær til fleiri manna en frv. ætlast til. Markmið tryggingarinnar er að sjá þeim fyrir nokkrum skaðabótum, er orðið hafa fyrir fjárhagslegum hnekki af völdum slyssins. Þess vegna er þeim einum veittur rjettur til skaðabóta, sem að einhverju leyti hafa verið á framfæri hins látna. Sje skaðabótarjetturinn gerður víðtækari, en iðgjöldin látin óbreytt, þá verður að lækka skaðabæturnar, en auðvitað er stefnt að því að geta greitt þeim sem mestar skaðabætur, sem mist hafa framfæranda af völdum slyssins. Það er því sjálfsagt, að rjettur foreldra sje bundinn því skilyrði, að þau að einhverju leyti hafi verið á framfæri þess látna. Sje systkinum veittur rjettur til skaðabóta, getur ekki komið til mála annað en binda hann sama skilyrði.

Þetta eru aðalbreytingar nefndarinnar. Hitt er minna vert, að markið milli skipa og báta er fært úr 8 upp í 12 smálestir. En jeg held, að þessi breyting sje samt alveg óþörf. Eins og nú er ástatt ganga, að því er jeg best veit, 80 bátar, sem eru 8—12 smálestir. En þegar bátarnir eru orðnir 8 smálestir, er útgerðin orðin allstór, og því má segja, að þessi auknu útgjöld muni bátinn afarlitlu, í samanburði við alt úthaldið. Það mun láta nærri, að útgerðin sleppi með 40 kr., ef gera má ráð fyrir, að skipshöfnin sje 8 manns og útgerðartíminn 35 vikur. Þessi breyting getur því aldrei orðið að verulegu atriði fyrir útgerðina. En hún munar landssjóð dálitlu.

Enn hygg jeg, að brtt. nefndarinnar um 20 aura, í stað 10, á minni bátum sje ekki til bóta. Því að mjer finst varhugavert að leggja hátt gjald á þá menn, sem gera út litla báta.

Loksins verð jeg að telja það mjög varhugavert að nema burt það skilyrði fyrir greiðslu á dánarbótum, að slysið hafi valdið dauða innan eins árs, eins og nefndin vill gera — 21. brtt. hennar. Þetta skilyrði er einmitt mjög nauðsynlegt, vegna sjálfrar tryggingarinnar. Deyi sjómaður löngu eftir að slysið varð, þá getur oft verið mjög erfitt að skera úr því, hvort slysið hefir beinlínis verið orsök í dauða mannsins, og er því hætt við, að tryggingin verði þannig alloft að greiða dánarbætur, sem vafasamt er að henni komi nokkuð við.

Brtt. nefndarinnar á 2. gr., um stöðu skipverja, álít jeg vera heldur til bóta. En yfirleitt virðist mjer, að nefndin hafi fjallað um málið af mjög litlum skilningi.