07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Það þarf ekki að leiða neinum getum að því, hvernig frv. þetta er til orðið. Það er sagt frá því í ástæðum stjórnarinnar, og hverjir hafi aðallega starfað að því; hvort það er ungur maður eða gamall, finst mjer mjög litlu skifta. Frv. er bygt á gamalli reynslu annara þjóða í þessum efnum, en það skal jeg þegar taka fram, að jeg tek það ekki illa upp fyrir háttv. frsm. (M. K.), þótt hann segði, að stjórnin hefði lítið vit á þessu máli. Og hvað það snertir, að háttv. frsm. (M. K.) þekki betur reglur um útgerð alla, þá efast jeg um, að hann þekki betur allar reglur um vátryggingar en stjórnarráðið.

Dæmi það, er háttv. þm. Snæf. (H. St.) kom með, var mjög gott. Vjer skulum hugsa oss bónda, sem einnig stundar sjó; nú slasast hann á tryggingartímabilinu þegar hann er í landi og stundar bú sitt; þá hlýtur öllum að vera það ljóst, að slysatrygging sjómanna á ekki að bæta það slys. En dæmi háttv. þm. Snæf. (H. St.) er — á slæmu máli sagt — alveg »sláandi«, enda hygg jeg það allalgengt hjer á landi, að sami maður stundi báðar þessar atvinnugreinar.

Mjer skildist, að háttv. frsm. (M. K.) segði, að það sæist ekki á frv., hve mikið ætti að greiða, ef druknun bæri að höndum. Þetta skil jeg alls ekki, vegna þess, að það stendur einmitt berum orðum í 5. gr. frv., að bætur fyrir dauða eru 1500 krónur, en ef það slys ber að höndum, að maður verður algerður öryrki, þá skal greiða 2000 kr.; er það af ástæðum, sem nefndin hlýtur að skilja, að þá þarf eigi að eins að sjá fyrir þeim, sem eftir lifa, heldur einnig fyrir manninum sjálfum. En hvað það snertir, sem háttv. frsm. (M. K.) var að tala um, að stjórnin hefði blandað saman slysatryggingu og líftryggingu, þá held jeg, að það sje nefndin sjálf, sem það hefir gert, því að ætlun stjórnarinnar var einmitt að halda því aðgreindu.

Loks skal jeg bæta því við, að það er hagur fyrir sjómennina sjálfa, að þeir sjeu sem fæstir, sem bætur eiga að taka, því að vitanlega hljóta iðgjöldin þá að fara lækkandi.

Háttv. frsm. (M. K.) virtist vera hræddur um það, að háttv. deildarmenn myndu gera það fyrir stjórnina að vera á móti brtt. nefndarinnar. Þeir háttv. deildarmenn, sem líta öðruvísi á þetta mál en háttv. nefnd, gera það þá af því, að þeir skilja betur grundvöll tryggingarinnar og málið í heild sinni.