07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Magnús Torfason:

Jeg ætla ekki að fara að taka þátt í kappræðum þeim, sem orðið hafa um þetta mál. Jeg skal að eins lýsa yfir því, að jeg er ánægður yfir, að frv. þetta er fram komið, og get líka lýst yfir því, að háttv. nefnd hefir gert ýmislegt, sem jeg tel frv. til bóta.

En það verður oft svo, að ekki veldur einn þegar tveir deila, og jeg held, að þessi skoðanamunur, sem hjer er fram kominn, sje bæði stjórninni og nefndinni að kenna. Jeg á hjer sjerstaklega við 5. gr. frv., og um 19. brtt., við þá grein; vil jeg segja það, að mjer finst það eðlilegt, að nefndin vildi hafa ákvæðið nokkru víðara heldur en ætlast er til í 5. gr. stjórnarfrv.; ákvæðin þar eru áreiðanlega ofþröng. Jeg hjelt sem sje, að það, sem ætti að liggja til grundvallar fyrir slysatryggingu, væri það, hvort sjómaður hefði orðið fyrir slysi við atvinnu sína, en stjórnarfrv. nær ekki yfir öll þau tilfelli. Það bindur slysatrygginguna við það, að sjómaður fari út á skip, eða frá skipi í land, eða frá báti um borð í skip. En það getur komið fyrir, að menn verði fyrir slysi á landi sökum atvinnu sinnar á skipi. Og það jafnvel þráfaldlega. Jeg veit til þess, að í veiðistöðum í Ísafjarðarsýslu, þar sem vjelbátar eru víða litlir, hafa menn orðið undir þeim, er þeir voru að setja þá á sjó, og hlotið dauða eða örkuml af. Svo fór t. d. eitt sinn um þrjá menn í einu. Slík slys á að sjálfsögðu að bæta, og geng jeg að því vísu, að stjórnin hafi einnig ætlast til þess. Hitt er líka algengt þar vestra, að menn verða að fara um fjöll og firnindi til þess að ná í ís eða snjó til þess að verja beituna, og getur það þá hæglega komið fyrir, að menn slasist á þeim ferðum.

Hins vegar skilst mjer, sem brtt. nefndarinnar um þetta efni fari fulllangt. Því að samkvæmt þeim á að bæta menn, þó að þeir slasist af alt öðrum ástæðum en við koma atvinnunni sjálfri. Jeg segi fyrir mitt leyti, að mjer er mjög fjarri skapi að vilja, samkvæmt þessum lögum, láta bæta þá menn, sem fara í land af skipum og drekka sig drukna og slasast. Jeg held, að nefndin geti lagað þetta svo fyrir 3. umr. málsins, að skoðanamunurinn milli hennar og stjórnarinnar geti fallið niður.

Þá vildi jeg minnast lítillega á 24. brtt nefndarinnar, sem fer í þá átt, að skaðabætur skuli goldnar systkinum án takmarkana. Mjer skilst svo, sem ætlast hafi verið til þess, að þeir, sem hinn látni hafði á framfæri eða var forsvarsmaður fyrir, skuli fá bæturnar og aðrir ekki. Jeg veit, að þess eru dæmi, að eldri systkin ala önn fyrir yngri systkinum sínum, og væri þá hart, þegar svo stendur á, að þau yrðu alveg út undan með skaðabæturnar. Ætti að vera hægt að koma með samskonar ákvæði um þennan nýja 4. lið nefndarinnar eins og sett voru um 3. lið í frv. stjórnarinnar. Jeg vildi því beina því til nefndarinnar, hvort hún vildi ekki taka þessar tvær till. aftur, svo að unt verði að samræma þetta fyrir 3. umr., því að, eins og þær eru núna, get jeg ekki ljeð þeim mitt atkvæði, þó að jeg eigi það á hættu að verða brugðið um ofmikið stjórnfylgi.