07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Karl Einarsson:

Jeg tek ekki til máls fyrir þá sök, að mjer virðist ástæða til að aðstoða frsm. nefndarinnar (M. K.). Jeg fæ ekki sjeð annað en að hann hafi svarað öllum aðalárásunum á brtt. nefndarinnar. En jeg get ekki stilt mig um að minnast á það, er hæstv. forsætisráðherra talaði um grundvöll frumvarpsins. Nefndinni var það fullljóst, hver hann átti að vera, og svo er að sjá af aths. við frv., að stjórnin hafi líka vitað, hver hann átti að vera, en það sjest alls ekki af frv. sjálfu. Og hæstv. forsætisráðherra tók það fram, að ætlast væri til þess, að greitt væri fyrir þau slys, sem orsökuðust af atvinnunni. En þeim tilgangi verður ekki náð, ef einungis á að greiða fyrir slys eða dauða á skipi eða á leið til eða frá skipi. Það verða mörg slys á landi af störfum, sem unnin eru fyrir skipin og eftir skipan yfirmanna skipsins. Og til þeirra slysa nær frv. ekki. Ef þetta yrði lagfært og nægilega glöggar reglur settar um þetta, þá væri mikið fengið. En stjórnin hefir ekki sjeð sjer fært að gera það, og þá er naumast hægt að búast við því, að nefndin hafi getað gengið frá þessu til fullnustu, ekki lengri tími en henni var ætlaður til þessa starfs. Nefndin áleit því rjettast að taka strikið út og ákveða, að aðstandendur ættu heimtingu á skaðabótum eftir látinn mann, sem hefði orðið fyrir slysi á þessu tímabili. Og sú staðhæfing, að hjer sje blandað saman almennri líftryggingu og slysatryggingu, nær alls ekki neinni átt og er hreinasta fjarstæða.

Þessi hræðsla stjórnarinnar við að greiða skaðabætur fyrir öll slys er sprottin af þeim örfáu tilfellum, er það kemur fyrir, að menn slasast við störf, sem eru óskyld atvinnunni. Og þó er oft og tíðum sanngjarnt að greiða einmitt fyrir þesskonar slys. Það er t. d. fyllilega sanngjarnt, að maður fái bætur, þó að hann fari í land af skipi að gamni sínu eða til þess að hitta konu sína og börn og detti á þeirri leið og fótbrotni. Og þó getur þetta ekki heyrt undir það ákvæði frv., að maðurinn sje á leið til skips eða frá skipi. Þetta er algerlega privat ferðalag, sem ekkert kemur sjómenskunni við.

Það hefir verið minst á það viðvíkjandi gjaldinu, að ef til vill væri rjettast, að útgerðin borgaði það alt á stærri skipum. Jeg fyrir mitt leyti er þessu algerlega samdóma. Þetta kom til máls í nefndinni, en hún þorði ekki að gera þessa stórvægilegu breytingu, því að hún þurfti mikilla athugana við, enda hafði stjórnin sjálf ekki treyst sjer til þess að gera þetta að tillögu sinni. Það hefði orðið að sundurliða þetta nákvæmlega og hefði jafnvel verið spursmál um, hvort ekki hefði verið rjettast, að landssjóður borgaði að öllu leyti fyrir hásetana hjá smáum útgerðum.

Menn hafa ekki gengið svo langt að gera neinar verulegar aths. við brtt. nefndarinnar um foreldrana.

Ákvæði stjórnarinnar um það efni hafa þó gengið svo nálægt tilfinningum háttv. deildarmanna, að þeir hafa ekki treyst sjer til að rjettlæta þau án þess að skammast sín fyrir. En aftur á móti hefir verið talsverð mótspyrna á móti þeirri tillögu nefndarinnar, að systkin skyldu fá að njóta skaðabótanna. En jeg álít það nú ekki veginn til þess að auka ræktarsemina til ættmanna sinna, sem annars hefir verið talsverð hjer á landi, ef á að svifta sem flesta öllum rjetti eftir látin systkin. Jeg held, að það væri jafnvel ástæða til þess að breyta landslögum svo, að menn sjeu skyldugir að ala önn fyrir systkinum sínum, er þess gerist þörf og þeir eru þess megnugir.

Það virtist hneyksla háttv. þm. Ísaf. (M. T.), ef það ætti að fara að bæta mann, sem yrði drukkinn og slasaðist eða yrði jafnvel úti. Jeg furða mig á þessu, sjerstaklega þar sem ekki yrði hægt að komast hjá því að bæta mann, sem væri svo drukkinn, að hann veltist út af þóftunni í bát og druknaði. Jeg furða mig yfirleitt á því, að nokkur skuli hneykslast á því, að drukkinn maður, sem slasast, skuli fá skaðabætur, eða að yfirleitt skuli vera ætlast til þess, að slysin sjeu miðuð við það, hvort þau sjeu sjálfskaparvíti eða ekki. Fjöldinn allur af slysum er sjálfskaparvíti, en það er lúalegur hugsunarháttur að ætlast til, að það komi niður á ættingjum mannsins, sem fyrir þeim verður.