07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Halldór Steinsson:

Mig langar að eins til að gera stutta aths. út af ræðu háttv. frsm. (M. K.).

Hann tók heldur óstint upp orð mín; honum fanst jeg ekki hafa fundið neitt púður, þar sem ræða mín hefði farið í sömu átt og ræða hæstv. forsætisráðherra. En jeg öfunda hann ekki af því að hafa fundið upp þetta púður, því að jeg tók það einmitt fram sjálfur, að jeg væri hæstv. forsætisráðherra sammála og gæti ekki felt mig við brtt. nefndarinnar.

Háttv. frsm. (M. K.) kvað það ekki koma sjer á óvart, hvernig framkoma mín væri í þessu máli, og dróttaði því að mjer, að jeg hefði verið þröskuldur í vegi þessa máls á undanfarandi þingum. Jeg held, að jeg geti fullyrt, að háttv. frsm. (M. K.) hafi tekið nokkuð fullan munninn í þetta sinn. Það er alveg rjett, að jeg hefi á undanfarandi þingum setið í nefnd, sem fjallað hefir um þetta mál, en jeg neita því afdráttarlaust, að jeg hafi verið nokkur þröskuldur í vegi þess, og mjer finst það benda til þess, að jeg sje málinu hlyntur, að jeg hefi lýst yfir því, að jeg sje fylgjandi frv. stjórnarinnar. En þar sem háttv. þm. Ak. (M. K.) ber fram þessar óhæfu breytingar á frv., virðist það einmitt benda til þess, að það hafi verið hann og hans nótar, sem hafa verið aðalþröskuldar málsins á fyrri þingum.

Annars taldi háttv. frsm. (M. K.) sjer ekki skylt að svara minni ræðu, af því að hún færi í svipaða átt og ræða hæstv. forsætisráðh., en þó gat hann ekki stilt sig um það, en svar hans var ekkert annað en útúrsnúningar, hártoganir og rangfærslur. Sem dæmi þess get jeg minst á, hvernig hann svaraði dæmi mínu um sjómanninn, sem jafnframt stundaði landbúnað og fór upp í afdali að leita að kindum og hrapaði í klettum. Háttv. frsm. (M. K.) finnur þá alt í einu upp á því, að sjómaðurinn hafi komið frá skipi og sje að ráfa upp í fjöllum í skipserindum. Svar hans var alt þessu líkt, enda hefir hann ekki hrakið eitt orð af því, sem jeg og hæstv. forsætisráðherra sögðum um brtt. nefndarinnar.