07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Magnús Torfason:

Það eru ummæli háttv. þm. Vestm. (K. E.), sem hafa komið mjer til þess að standa upp. Jeg veit að vísu, að það er ekki mitt verk að dæma um það, hvað kallast megi þingleg ummæli, en jeg vildi óska þess, að menn vendu sig ekki á annan eins munnsöfnuð hjer í þessari háttv. deild eins og þessi háttv. þm. (K. E.) viðhefir.

Að öðru leyti vildi jeg beina því til háttv. þm. Vestm. (K. E.), að svo lítur út, sem nefndin sje ekki enn farin að skilja, hver grundvöllur frv. er. Samkvæmt þessum grundvelli á ekki að fara lengra en að bæta fyrir slys, sem hljótast af sjerstakri atvinnu. Og það hefir verið tekið rjettilega fram, að samkvæmt þessum lögum er ástæðulaust að bæta bónda, sem sker sig á ljá, þó að hann stundi sjóróðra einhvern tíma ársins. Og því síður er ástæða til þess að bæta hann, þótt hann yrði fyrir slysi sakir drukks. Hygg jeg, að fáir muni sammála háttv. þm. Vestm. (K. E.) um, að draga megi ályktun um lúalegan hugsunarhátt af þessu. Annars ætla jeg ekki að deila um það við háttv. þm. Vestm. (K. E.), hvaða áhrif áfengi á að hafa á slysabætur. En jeg vildi að eins óska þess, að hann (K. E.) vildi ekki slævar en jeg ljá fylgi sitt til þess, að sá slysabrunnur verði sem best byrgður.