10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Halldór Steinsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 381, sem fer fram á það, að útgerðarmenn á fjórrónum bátum og stærri sjeu ekki skyldaðir til að greiða meira en 10 aura vikugjald fyrir hvern skipverja, í stað 20 aura, sem í frv. er ákveðið. Jeg hefi tekið það fram, við fyrri umr. þessa máls, að í þessu ákvæði kendi talsverðs misrjettis, því að það er vitanlegt, að ágóði af útveg róðrarbáta er minni en ágóði af vjelabátum. Menn stunda víða útgerð á opnum bátum hjer á landi, og þar sem hafnleysi og önnur atvik gera það að verkum, að sjávarútvegur á róðrarbátum á sjer enn langan aldur hjer við land, þá verður að taka fult tillit til þess útvegs og ekki að telja hann til útgjalda í flokki með vjelbátum.

Háttv. sjávarútvegsnefnd hefir borið fram brtt. við till. mína, sem sje að fella niður orðið »brutto«. Það orð var einungis sett inn til frekari skýringar, en jeg get felt mig við, að það sje látið falla í burt.

Nefndin hefir einnig borið fram aðrar brtt. Eins og jeg var óánægður með efnisbreytingar háttv. nefndar áður, eins ánægður get jeg verið með þessar brtt., enda eru þær í samræmi við anda laganna. Eitt er þó athugavert við þær. Með þeim er meiri vandi lagður á herðar þeirra, er sjóðnum eiga að stjórna. Getur orðið ágreiningur, sem vandi væri að skera úr, um það, hvort slys stafi af starfi mannsins við sjávaratvinnu sína, eða ekki. Einnig gæti verið ágreiningur um það, hvort systkin hins látna hafi verið að svo miklu leyti á framfæri hans, að þeim bæri skaðabætur. Það verður að vera komið undir áreiðanleik stjórnar sjóðsins, og henni verður að treysta til að skera rjett úr í slíkum tilfellum.