27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Þetta mál hefir legið fyrir sjávarútvegsnefnd til umsagnar og álita, og er hún sammála um, að að því sje svo mikil rjettarbót, að það eigi fram að ganga á þessu þingi. Og þótt hún beri fram brtt. við frv., eins og það kom fram frá háttv. Ed , þá gerir hún það í þeirri von, að sú brtt. verði ekki til þess að tefja fyrir framgangi málsins. Má vera, að fleira sje við frv. að athuga, en nefndin vildi sem minst gera til að tefja fyrir málinu. Þessi eina brtt. er ekki stórfeld, en henni verður væntanlega vel tekið af öllum þeim, sem áhuga hafa á sjómannatryggingu, og fyrirfram hefir verið leitað álits háttv. sjávarútvegsnefndar Ed. og sjerfróðra manna um þetta, svo að ekki virðist neitt útlit fyrir, að frumvarpið hennar vegna mæti mótspyrnu.

Brtt. lýtur að því að tryggja líf þeirra, er fara á sjó í forföllum skipráðinna manna, og gerir þeim að skyldu að tryggja sig meðan þeir eru í slíkum sjóferðum, og þó aldrei skemur en viku.

Nefndin leggur sjerstakt kapp á að koma þessu ákvæði inn í frv., og hefir eigi getað sjeð, að nein sjerleg vandkvæði verði á því í framkvæmdinni eða hætta fyrir tryggingarsjóð.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar, nema tilefni gefist til. Taka skal þó fram, að einn af nefndarmönnum skrifaði undir nál. með fyrirvara, fyrirvara, sem hann mun gera grein fyrir, en varla mun aftra framkvæmd málsins. Að lokum vil jeg geta þess, að í nefndarálitið hefir slæðst ein villa í síðustu málsgrein, stjórn fyrir stjóra.