27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get verið að nokkru leyti samdóma hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) um það, að varlega sje í það farandi, að gera breytingar á frv., sem gætu bakað því mótstöðu í hv. Ed. En jeg verð að segja, að þessi brtt. sem hjer er komin fram, er mjög sanngjörn, því að, eins og kunnugt er, eru þess mörg dæmi, að skip þurfi að taka mann í stað lögskráðs háseta, og það á stað, þar sem ómögulegt er að fá lögskráningu. Maður, sem þannig kemur í manns stað, á að vera trygður jafnskjótt sem hann stígur á skip. Það ætti að koma því svo fyrir, að skipstjóri sjálfur geti lögskráð manninn. Það er mikilsvert, að allir sjómenn. sjeu vátrygðir, þótt einhver yfirsjón gæti valdið því, að einhver maður sje ekki lögskráður.

Þótt sumir háttv. efri deildar menn virtust misskilja ýmislegt í frv. þessu, er jeg þó ekki hræddur um, að þessi brtt. komi frv. í nokkra hættu. Háttv. formaður sjávarútvegsnefndar bar sig saman við mig um brtt. og jeg taldi hana mjög sanngjarna.

Um þær aðfinningar, er háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) nefndi, skal jeg ekki fjölyrða. Jeg held, að ákvæði frv. sjeu yflrleitt ofurhæg í framkvæmdinni, og held því rjett, að formaður tilkynni lögreglustjóra, er hann hefir ráðið.

En það var eitt í ræðu háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), er jeg tel algerlega rangt, svo fjarri lagi, að jeg hefði getað búist við, að hann myndi fara í gagnstæða átt og segja, að það væri rangt, er frv. ætlaði hásetum að greiða nokkurt gjald. Það væri í sjálfu sjer ekki nema eðlilegt, að sá, sem ræður annan mann til hættulegrar vinnu, tryggi hann fyrir því tjóni, er vinnan getur bakað honum eða framfærslumönnum hans. Það væri í raun og veru ekkert athugavert, þótt sú skylda væri lögð á útgerðarmenn stórra skipa, að vátryggja hásetana; þá mundi ekki muna mikið um það. En að stjórnin stje ekki það spor kom af því, að svo erfitt er að greina á milli þeirra útgerðarmanna, er getur munað um þetta gjald, og hinna, sem ekki munar verulega um það. Sjerstaklega getur það ekki komið til mála, að útgerðarmönnum báta sje lögð mjög þung kvöð á herðar í þessu efni, og held jeg, að háttv. Ed. hafi þar breytt frv. til hins verra. Það er oft ekki ástæða til, að bátaútgerðarmaður borgi neitt til að tryggja háseta, því að slík útgerð er einatt samútgerð bátseiganda og háseta.

En, sem sagt, er jeg algerlega á móti því, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) vildi halda fram, að hásetar skuli greiða alt. Er samt óþarft að deila um þetta. Við unum því báðir vel, að frv. nái fram að ganga, þótt við höfum nokkuð ólíkar skoðanir á því, hvað allra rjettast væri í málinu.

Jeg hefi áður nefnt það, að ráðuneytinu hafði dottið í hug að koma því ákvæði inn í þessi lög, að allir verkamenn landssjóðs skyldu trygðir á sama hátt sem hjer er gert ráð fyrir um sjómenn. Ráðuneytið hætti við þetta af því, að það bjóst við, að það mundi þykja óviðkunnanlegt að bæta slíku ákvæði hjer inn í. Jeg vona samt, að það verði ekki að sök, því að jeg býst við, að þingið verði altaf fúst til að greiða þeim, sem slasast í fastri landssjóðsvinnu, skaðabætur. Þó skal jeg taka það fram, að jeg áliti heppilegra, að til væru um það bein lagafyrirmæli, að landssjóður trygði slíka menn.