27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Matthías Ólafsson:

Jeg gleymdi áðan að taka það fram, að jeg vona, að brtt. nefndarinnar við þetta frv. verði því ekki að skaða; jeg álít nefnilega till. meinlausa og gagnslausa, og skal jeg nú sýna hvers vegna það er.

Ef maður er ráðinn í skipsrúm í stað annars, sem hefir dáið eða veikst, þá er oft ómögulegt að koma því við að tryggja hann. Menn geta ekki ætlast til þess, að maður, sem kominn er í sjóklæði og tilbúinn að taka til vinnu, fari að fara upp í búð aftur, til þess að setjast þar við skriftir. En segjum nú, að þetta yrði gert, og maðurinn kæmi í stað annars, sem hefði druknað. Síðan slasaðist einnig síðari maðurinn, og hefði að eins greitt iðgjald fyrir 1 viku. Sjóðurinn yrði þá að borga út 2 menn, og hefði næstum því ekkert fengið í staðinn.

Jeg er sannfærður um, að venjan yrði sú, að skipstjórarnir tækju mennina, hvort sem þeir væru trygðir eða ótrygðir, og ættu það á hættu, að þeir yrðu kærðir á eftir, ef illa færi.

Út af ágreiningnum milli mín og hæstv. forsætisráðherra vil jeg einungis taka það fram, að sjómennirnir eru ekki þeir einu, sem leggja nokkuð í hættu. Útgerðarmennirnir leggja skip og áhöld í hættuna og sjómennirnir krafta sína, og ef til vill líf og heilsu. En báðir eignast ágóðann, ef vel gengur.