27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Eins og háttv. deild er kunnugt þá eru þessi lög sett eftir og með ráði bæjarstjórnar Reykjavíkur, svo að jeg býst við því, að háttv. nefnd hafi ráðfært sig við bæjarstjórnina um brtt. sínar. Þessi lög eru vitanlega fyrir Reykjavíkurbæ, og því mjög mikilsvert, að bæjarstjórn skilji til fulls anda þeirra. Jeg tók ekki eftir, hvort háttv. frsm. (K. D.) sagði, að bæjarstjórnin væri samþykk brtt. nefndarinnar.

Nefndin leggur til, að 7. gr. frv. sje breytt svo, að húseigendur geti sagt upp leigjendum, ef þeir ætla sjer að taka húsið til eigin íbúðar. Mjer er allkunnugt um það, síðan jeg var bæjarfógeti hjer, að það hefir verið nokkuð mikið um það, að húsnæðislausir menn,er hafa flutt til bæjarins, hafa keypt sjer hús til íbúðar, ef þeir hafa ekki getað fengið húsnæði. Og með brtt. nefndarinnar við 2. gr. skilst mjer að þetta sje leyft.

Á þetta atriði vildi jeg benda, ef nefndin hefði ekki athugað það, eða lofað bæjarstjórninni að koma með sínar athugasemdir. Þetta er stórt og þýðingarmikið atriði, er jeg gæti trúað að bæjarstjórnin legði mikla áherslu á.

Frumvarp þetta var upphaflega samið af bæjarstjórninni, en breytt að nokkru af landsstjórninni í samráði við hana; mjer finst því rjett, að hún fái að segja álit sitt um brtt. þessar.

Menn eru farnir að kunna vel við lögin, og flestir álíta, að þau geri mikið gagn, enda hafa tiltölulega litlar kvartanir heyrst um þau.