30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Gísli Sveinsson:

Jeg á hjer, eins og fleiri góðir menn, eina brtt., og mun þykja hlýða, að jeg mæli nokkur orð með henni. Það er brtt. á þgskj. 650, um að veitt sje lítil fjárupphæð til bókaútgáfu til Einars Gunnarssonar, sem gefið hefir út ýmsar bækur, og sumar ágætar að efni og frágangi. Nú var hann byrjaður á að gefa út safn eitt, sem ekki orkar tvímælis að gagnlegt sje fyrir almenning; það eru lög Íslands. Allir vita, að lög vor eru mörg og margbrotin, og margur mun hafa orðið þess var, að mjög eru þau á víð og dreif, og erfitt fyrir almenning að hagnýta sjer þau eða vita, hvað nú eru gildandi lög hjer og hvað ekki. Nú hefir Einar Gunnarsson byrjað á að gefa út stórt lagasafn og fengið til þess að sjá um útgáfuna þann mann, sem einna færastur mun allra til þess, prófessor Einar Arnórsson. Útgáfunni er það á veg komið, að út eru komin 10 hefti, og ná þau frá 13. öld til 1869. Eftir munu vera um 20 hefti, því að lagafjöldinn hefir óðum farið vaxandi og breytingar á eldri lögum komið til. Eins og nú er ástatt mun ókleift að halda áfram útgáfunni styrklaust, jafnvel þótt bókin yrði seld með ókjörum.

En þar eð þetta upprunalega er stílað til að vera almenningsbók, má verðið ekki vera mjög uppskrúfað.

Till. mín gengur út á að veita útgefandanum 1500 kr. hvort árið og ekki meira. Fyrir þessa upphæð skuldbindur útgefandinn sig til að gefa út alt verkið, að meðtöldum lögunum frá þessu þingi, og það ákvæði er sett til tryggingar, að helming fjárins fær hann ekki fyr en hálfnuð er útgáfan, en til þess vantar mörg hefti, og hinn helming fjárins ekki fyr en bókin er öll út komin. Jeg vænti þess, að háttv. þingmenn sjái, að hjer er um mál að ræða, sem verðskuldar aðhlynningu, einmitt frá hálfu þeirra, sem standa fyrir samningu hinna mörgu laga, sem almenningur á ekki greiðan aðgang að að þekkja. Nú er þessi útgáfa ekki ætluð lögfræðingum, því að þeir geta náð til allra laganna og hafa þau bæði í huga og höndum, en almenningur veit engin deili á lagasúpunni, sem altaf vex. Jeg álít þennan útgjaldalið þarfari ýmsum öðrum útgjaldaliðum til bókaútgáfu, sem nú eru í fjárlögum, og þó ekki mega falla, enda er sjálfsagt, að þeim verði haldið áfram. Jeg býst við, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) geti orðið mjer sammála um þetta, bæði af því, að hann vildi ekki fylgja vini sínum, hv. 1. þm. Rang. (E. J.), að niðurskurðarverkinu, og eins vegna hins, að hann flytur sjálfur till. um fjárveitingu til útgáfu bókar, sem líklegt er að almenningi sje þörf á að fá gefna út, en þó ekki meiri en þessa. Lagasöfn hafa eigi heldur áður verið gefin út öðruvísi en með opinberum styrk, og eigi heldur dómasöfn.

Hvað snertir ýmsa aðra liði hjer þá get jeg látið mjer í ljettu rúmi liggja, hvort þeir ná fram að ganga eða ekki. Að eins vil jeg drepa á till. þeirra fjelaga, hv. 2. þm. Rang. (E. J.) og hv. 2. þm.

S.-M. (B. St.), sem samferða hafa orðið að niðurskurðinum, sem á víst að vera til sparnaðar, en verður þó heldur óverulegur, því að ekki munar meiru en nokkrum þús. kr., en þessi niðurskurður gildir útgáfu fornbrjefasafnsins, alþingisbókanna fornu, dómasafns landsyfirrjettarins og þýðingar íslenskra skáldrita á tungur Norðurlanda. Mjer er óskiljanlegt, úr því að takmarkið er að spara með þessu, að þeir skuli ekki líka vilja skera niður styrkinn til Bókmentafjelagsins, Fornleifafjelagsins, Þjóðvinafjelagsins og Sögufjelagsins, því að þessi fjelög öll eru styrkt til að gefa út fræðibækur, sem álitið hefir verið nauðsynlegt að kæmu út. Jeg get ekki sjeð, hvers vegna þeir hafa ráðist á þessa liði, en látið aðra í friði, sem meira var hægt að spara á að fella. Mjer þykir kynlegt, að háttv. þm., þótt ágætir sparnaðarmenn sjeu, skuli leyfa sjer að ráðast á slíka liði sem þessa, því að það er til hneisu fyrir þá að ljá ekki fylgi sitt til slíkra fjárveitinga, svo framarlega sem þeir eru ekki komnir inn í þingsalinn með það fyrir augum að brjóta niður alt andlegt vald í landi þessu, útrýma allri fræðimensku og koma í veg fyrir útgáfu allra bóka í landinu. Frá mínu sjónarmiði er þetta svo fráleitt, að það má ekki ómótmælt standa, enda er það afkáralegt, ef það á að vera gert til sparnaðar, því að það sparast ekki neitt á því þessi tvö ár, sem neinu munar.

Síðasti liðurinn af þessari hörmulegu tillögu er að fella styrkinn til að þýða Goethes Faust, sem þó er að eins 1200 kr. Rjettmæti þessa styrks var viðurkent af þinginu í vetur, og því sjálfsagt, að hann kæmi í fjárlagafrumv. stjórnarinnar, því að ekki var ástæða fyrir stjórnina til að ætla, að þingið, sömu mennirnir, hefðu skift um skoðun frá því í vetur. Það má nú gera ráð fyrir, að þessum styrk verði ekki velt, úr því að það var ekki gert hjer við 2. umr., þegar alt var hjer í sukki og kös. Síðari liður þessarar tillögu eða varatill. er þó enn fráleitari, því að hún ætlar styrkinn ekki til að þýða Faust, heldur til að gefa hann út. Þetta ber vott um svo mikla vanþekkingu á málinu, og ekki síst á bókaútgáfu, að furðu gegnir. Þeir fjelagar vilja fara að gefa út Faust, jafnframt því sem þeir eru að fella styrki til útgáfu annara bóka, sökum þess, hve dýrt er nú að gefa bækur út. En ef ætti að gefa Faust út, þá er þetta enginn styrkur, því að þetta er ekki nema nokkur þóknun til þýðandans. Það hefir glatt mig að sjá tillögur sumra ágætra sparnaðarmanna nú, sem eru niðurskurðarmenn á sjálfsagðar fjárveitingar, og sumir hverjir á móti slíkum fjárveitingum alveg út í bláinn; nú koma þessir sömu menn með till. til útgjalda, og sumar þeirra eru styrkir til manna, sem enginn þekkir og enginn veit hverjir eru. Það er víst, að þessir sömu þingmenn hefðu leyft sjer að vera á móti fjárveitingum til annara manna, sem mikið betri skilríki hefðu. Þetta sýnir, að þessir menn eru ekki nema í orði kveðnu á móti hinum og þessum fjárveitingum, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, því að þegar til þeirra kasta kemur, eru þeir hin mestu góðmenni og eru fúsir á að flytja slíkar fjárbeiðnir inn á þing.

Jeg er sammála hv. 1. þm. Árn. (S. S.) í ummælum hans um brtt. fyrv. fjármálaráðherra, hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), um að hækka styrkinn til listasafnsins og ákveða um leið að endurgreiða tillag þeirra manna, sem lagt hafa fram fje til húsgerðarinnar af fúsum og frjálsum vilja. Jeg held, að jeg verði að taka undir þau ummæli háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), ef hann hefir meint það, að þetta sje ómaklegt í garð þeirra manna, sem fjeð hafa lagt fram, því að jeg tók svo eftir, að háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hefði borið þessa brtt. fram upp á eigið eindæmi, án hvata þessara manna og í heimildarleysi frá þeirra hálfu, og hlýt jeg að telja það mjög óviðeigandi. Það getur ekki komið til mála, að þingið ákveði að fara þennan veg, því að þá lítur svo út, sem þeir menn, sem lagt hafa fram fje til hússins, hafi gert það eingöngu til að sýnast. Hjer hafa fáir viljað styrkja listir og vísindi, og hefir því ekki verið öðru að tjalda en landssjóði, því að hjer eru engir sjóðir til slíks eða Mæcenasar, er styrkja vilji listir og vísindi. Það hefir verið sagt, að þetta væri að breytast til batnaðar, því að nokkrir hefðu af fúsum og frjálsum vilja lagt fram fje til þessa listasafns. Nú er það ilt afspurnar, ef þingið grípur fram fyrir hendur þessara manna, því að ef þeir hafa ætlast til, að þingið færi að endurgreiða þeim þetta fje, hefðu þeir alls ekki átt að forma að gefa.

Nokkrar brtt. eru fram komnar, sem jeg vil mæla með, og er þá fyrst ein frá hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), um Hvammstangaskólann. Jeg hefi átt kost á að kynna mjer skilríki þessa skóla, og sje ekki annað en að hann standi fyllilega á sporði hinum unglingaskólunum sem nefndir eru í þessari aths. Það mælir einnig með að veita þessum skóla styrkinn, að unglingaskólar úr öllum öðrum fjórðungum landsins eru nefndir í aths., og því ekki nema sanngjarnt, að einn slíkur skóli í Norðlendingafjórðungi njóti líka samskonar styrks. Sömuleiðis er hjer fram komin till. um að veita kvöldskóla jungfrú Hólmfríðar Árnadóttur í Reykjavík lítinn styrk. Jeg get ekki sjeð, að nein ástæða hafi verið fyrir stjórnina að sleppa þeim skóla af fjárlagafrv., því að jeg býst við, að skólinn vinni sama gagn og áður. Jeg get hugsað mjer, að þótt aðrir skólar legðust niður, þá gæti þessi skóli starfað áfram og komið að góðum notum, því að mikið leggur hann ekki í eyðslu, og fjöldi af stúlkum þeim, sem þennan skóla sækja, koma ekki aftur til bæjarins, og þetta er eina tækifærið fyrir þær að afla sjer einhverrar mentunar. Því er svo farið með marga aðra, að þeir eru námsmenn af »profession«, og lesa því utanskóla, ef skólarnir verða lagðir niður, en því eiga þær stúlkur, sem þennan skóla sækja, ekki kost á.

Enn fremur vil jeg mæla hið besta með styrknum til Frímanns B. Arngrímssonar. Mjer hefir runnið það til rifja, eins og fleirum, hvernig sá maður hefir einatt orðið út undan, þrátt fyrir mikla mentun og brennandi áhuga. Þessi litli styrkur getur nú komið honum að nokkru haldi, þótt hann sje kominn á efri ár.

Þá fellur mjer illa, að feld var hjer við 2. umr. styrkveiting eða eftirlaun til síra Gísla Kjartanssonar, og eigi síður fyrir þá sök, að um leið og hún var feld var samþykt önnur veiting til annars prests, sem reyndar var ekki nema sjálfsagt, en hitt var líka engu síður sjálfsagt, að veita þessum presti slíkan styrk, sem alls ekki má vera lægri en brtt. fer fram á. Jeg sje, að hjer er komin brtt. frá háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) um að hækka fjárveitinguna til Sigurðar Eiríkssonar, regluboða, úr 300 kr. upp í 500 kr., og er það ekki nema maklegt. Hins vegar sje jeg enga ástæðu til að veita honum þann styrk, sem Goodtemplarar hafa haft, úr því að sá styrkur var ekki látinn falla með öllu. Jeg er sömu skoðunar og jeg var, þegar um það var rætt hjer við 2. umr., að ekki ætti að veita Goodtemplurum, sem slíkum, neinn styrk, því að jeg skoða bindindismálið eingöngu frá uppeldis sjónarmiði, og álít því, að þennan styrk ætti að veita til bindindisfræðslu, og hafði fengið þá hugmynd, að það væri vel til fallið, að Kennarafjelagið hefði þá fræðslu á hendi. Það kom reyndar fram í ræðu hjá háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), að styrkur þessi myndi geta runnið til ungtemplarastarfsemi, og væri það vel farið; en ef stórstúkan yfirleitt á að fá hann, verður að gæta þess, að hann gangi ekki til þess að borga gamlar skuldir, eða til að halda samkomur, sem eru að meira eða minna leyti óþarfar, heldur til fræðslu. Jeg ætlast til þess, að stjórnin fái skilríki fyrir því, að styrkur þessi, eins og aðrir, sje notaður á rjettan hátt, því að ef hann er notaður til þess að hafa áhrif á ungmenni landsins í hófsemisáttina, þá er maklegt að veita hann. En hitt, að fara að styrkja Goodtemplara sem slíka, finst mjer ekki geta komið til mála í bannlandi.

Jeg sje hjer fram komna beiðni um lán til rafmagnsstöðvarbyggingar á Austfjörðum, en bjóst ekki við, að farið yrði að veita lán til slíkra fyrirtækja nú, nema verkið væri langt komið eða undirbúið til fullnustu. Jeg hafði hugsað mjer að bera fram eina beiðni um slíkan styrk, en sá engin tök á því, eins og nú stóð á, og áleit enda slíka fjárbeiðni ekki rjettmæta nú, því að jeg get ekki búist við, að í slík fyrirtæki verði ráðist á næsta fjárhagstímabili. Jeg væri hlyntur slíkum styrk sem þessum á rjettum tíma, en eins og nú stendur á álít jeg ekki áríðandi að veita hann.