27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Magnús Kristjánsson:

Það mun ekki þýðingarmikið að andmæla frv. þessu. Það mun þegar vera afráðið, að það gangi fram, þótt ýms ákvæði þess kunni að vera miður heppileg.

Hæstv. atvinnumálaráðh. vildi leiðrjetta það hjá mjer, að hjer væri um skerðing eignarrjettarins að ræða. Taldi hann það frekar umráðarjettinn, sem takmarkaður væri. En mjer er spurn, hvers virði er eignarrjetturinn, ef umráðarjetturinn er tekinn burt?

Þá er það rangt mál, að lög þessi nái að eins til þessa bæjar, því að í sjálfu frv. er gert ráð fyrir því, að þau geti einnig komist á í öðrum kaupstöðum landsins. Og þótt menn geri sjer þau að góðu hjer, þá getur annað orðið uppi á teningnum annarsstaðar.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að ákvæði það úr sveitarstjórnarlögunum, sem jeg mintist á áður, væri dauður bókstafur. Það sannar einmitt mitt mál, að bæði þessi lög og önnur, sem ganga nærri rjetti manna, reynast einkis virði og óframkvæmanleg. En þótt þessu ákvæði sveitarstjórnarlaganna hafi ekki verið framfylgt af þeim, sem áttu að gæta laganna, þá tel jeg víst, að ákvæði þetta gæti einmitt orðið þýðingarmikið í þessu efni, ef því væri framfylgt hjer eftir, til þess að koma í veg fyrir enn frekari vandræði, á meðan ástandið batnar ekki að því er húsabyggingar snertir.