27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg skil vel afstöðu háttv. þm. Ak. (M. K.) í þessu máli. Mótbárur hans eru hinar sömu og alment koma fram. En hjer er um vandamál að ræða, sem ekki er gott að ráða fram úr án þess að skerða hagsmuni neins.

En það ætti að vera öllum ljóst, að hjer er um neyðarúrræði að gera, sem gripið er til í vandræðum og vonast er til, að ekki þurfi við að búa nema stuttan tíma. Ef feld væru burt orðin úr 7. brtt. »til eigin íbúðar«, þá mundi það auka rjett húseigenda og um leið rýmka svo ákvæðið, að lítið sem ekkert yrði á því bygt. Nefndin þorði því ekki að ganga svo langt.

Jeg get ekki verið sammála um það, að lög þessi muni verða að eins á pappírnum, því að þau eru þegar farin að verka og bera árangur.

Nefndin mun auðvitað verða fús á að athuga mál þetta nánar fyrir 3. umr., og vona jeg, að hæstv. forseti gefi svo langan frest, að tími vinnist til þess.