14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Frv. þetta á upptök sín í bæjarstjórn Reykjavíkur. Það hafðist við illan leik í gegn í bæjarstjórninni haustið 1915, og var sent til stjórnarinnar. Þáverandi stjórn þótti það ekki frambærilegt og sinti því að engu. Segi jeg þetta henni til maklegs hróss. — Núverandi stjórn setti fyrst bráðabirgðalög um þetta efni í vor, og eru þau að vísu miklu skárri en frv. það, sem bæjarstjórn hafði með höndum. Því verður ekki neitað, að frv. þetta tekur mjög hörðum höndum á húseigendum. Þeir geta ekki þokað til um leigjendur, hvernig sem þeim líkar við þá. Svo mikil er þverúðin, að menn mega ekki taka móður sína í eitt herbergi í húsi sínu, þótt hún sje húsnæðislaus. Þess eru dæmi.

Lögunum er ætlað að greiða úr húsnæðisvandræðunum. En það er auðsjeð, að þau munu þvert á móti fremur halda við húsnæðisskortinum, og girða þess vegna líka fyrir, að húsaleiga geti lækkað. Það munu víst fáir verða til að byggja hús í bæjarfjelagi þar sem svona lög gilda, og menn geta á hverri stundu búist við jafnvel enn þyngri búsifjum af ranglátri löggjöf. Hús hafa venjulega verið talin hjer heldur ill eign. Menn hafa lagt peninga sína í annað arðvænlegra en húsabyggingar. Af því stafar húsnæðiseklan.

Eitt ákvæði 2. gr frv. er óljóst. Þar stendur: »Uppsagnir á húsnæði ... skulu ógildar, nema húseigandi sanni fyrir húsaleigunefnd, að hann hafi, áður en lög þessi voru sett, samið um leigu á húsnæðinu« o. s. frv.

Er átt við, að samningarnir eigi að hafa verið gerðir áður en lögin voru samþykt við 3. umr. hjer í þinginu, eða áður en konungur staðfesti þau, eða kann ske sje átt við: áður en stjórnin gaf út bráðabirgðalögin um þetta efni? Það er ótækt, að þetta ákvæði skuli ekki vera ákveðnara.

Brtt. háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fara í rjetta átt, og mun jeg greiða þeim atkvæði mitt.