14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jörundur Brynjólfsson:

Það er stutt athugasemd, út af orðum háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Hann gat um það í ræðu sinni, að upptökin að þessu máli væru hjá bæjarstjórn, en það er ekki rjett athugað. Bæjarstjórnin hefir aldrei verið í húsnæðishraki á neinn hátt, heldur eru það bæjarbúar, sem hafa verið í vandræðum og kvartað til hennar, og til þess að veita bæjarbúum nokkurt lið, sem henni var skylt, varð að grípa til þessa ráðs. Að lögin sjeu hörð í garð húseigenda hjer í bænum kann að vera rjett í einstaka tilfelli, en það hygg jeg þó að komi mjög sjaldan fyrir. Húsaleigunefndin, sem á að hafa umsjón með, að lögum þessum verði hlýtt, getur bætt mikið úr þeim misfellum, sem kunna að verða á lögunum. En, eins og jeg sagði áðan, þá ber jeg ekki á móti því, að einstaka maður geti verið misrjetti beittur, og er það auðvitað mjög leiðinlegt, að saklausir verða að gjalda fyrir seka, en svo er nú samt oft.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) talaði enn fremur um, að þessi lög mundu eiga mikinn þátt í að draga úr húsabyggingum í bænum, en jeg kem ekki auga á neinar ástæður fyrir því, að það sje satt. Húsaleigunefnd mun sannarlega ekki fara að setja húsaleigu niður fyrir það, sem sanngjarnt er, svo að það ætti ekki að hafa nein áhrif á byggingar. Enda ber jeg engan kvíðboga fyrir, að svo verði.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir altaf fengið orð fyrir að vera mjög frjálslyndur maður og rjettsýnn, sem tæki mjög hart á allri harðýðgi og ranglæti, einkum af hálfu útlendinga. En jeg vil leyfa mjer að minna hann á, að eins og það er sjálfsagt að taka hart á öllu ranglæti þegar útlendingar eiga hlut að máli, þá er það engu síður sjálfsagt þegar innlendir menn hafa í frammi óbilgirni eða ranglæti í annara garð. Annars er jeg hræddur um, að háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hætti til að líta mildari augum á þá innlendu, þegar þeir eiga hlut að máli.