30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Einar Arnórsson:

Jeg ætla að hafa sama formála og aðrir, að lofa að vera mjög stuttorður. Nafn mitt stendur að eins á tveimur brtt.; önnur er tekin aftur, en hinni hefir háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) mælt svo vel með, að jeg þarf engu við það að bæta. Jeg stend því að eins upp til að tala um brtt. á þgskj. 680. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir sagt margt vel og rækilega um þessar brtt., og farið maklegum orðum um þær. Jeg mun nú reyna að taka í sama strenginn, og vil jeg þá byrja á því að athuga stuttlega hvern lið fyrir sig af þeim, sem lagt er til að skuli niður falla.

1.—4. Styrkir til að vinna að útgáfu fornbrjefasafnsins, alþingisbókanna og útgáfu dómasafnanna tveggja. Um þessa liði ætla jeg ekki að fjölyrða. Þó að þeir verði ekki teknir aftur, þá getur það ekki orkað tvímælis, að þessar fjárveitingar eru svo sjálfsagðar, að ekki kemur annað til mála en að fella brtt. Þá kem jeg að 5. brtt., og um hana ætla jeg að fara nokkrum orðum. Sá liður, sem þar er farið fram á að fella burt, er 1000 kr. styrkur til að þýða íslensk skáldrit á tungur Norðurlandabúa, dönsku, sænsku og norsku. Stjórnin hefir tekið þessa fjárveitingu upp í frv. sitt, og fjárveitinganefnd ekki dottið í hug að breyta því. Svo stendur á, að í þessum löndum er myndaður fjelagsskapur, sem hefir að markmiði að kynna þjóðunum framleiðslu hverrar annarar í andlegum efnum. Fjelög þessi hafa boðið okkur að vera með, og fengið tryggingu fyrir því, að ef við tökum þessu boði, þá verði lagt fje fram úr ríkissjóðum allra þessara landa, til þess að styrkja þýðingar á skáldritum þeirra í bundnu eða óbundnu máli á íslenska tungu. Jeg tel, að okkur sje svo mikill sómi sýndur með þessu tilboði, að við megum ekki við því að drepa hendinni við þeim sóma. Það er tvöfaldur gróði fyrir okkur að þiggja þetta boð frænda vorra á Norðurlöndum. Bókmentir vorar aukast við það að fá góðar þýðingar á úrvalsskáldritum Norðurlandaþjóðanna, og það er gróði bókmentum okkar, að okkar verkum sjeu gerð sömu skil. Þetta hvorttveggja er svo mikils virði, að ekki getur talist eftirsjón að þessum 1000 kr., til þess að þessi skifti komist á. Þó að jeg geri alls ekki lítið úr okkar verklegu framkvæmdum, þá hefir það þó verið svo hingað til, að það eru bókmentirnar, sem sjerstaklega hafa gert garðinn frægan út á við. Að láta þennan lið standa er því ekki nema sjálfsögð kurteisi við frændþjóðirnar. Það væri hrein og bein ókurteisi, ef hann væri feldur burt, og nú á tímum er okkur sjerstaklega ómissandi að halda vinfengi við aðrar þjóðir. Jeg vænti þess, að ef þetta fje verður veitt, þá verði myndaður hjer fjelagsskapur með sama markmiði, og að þeir, sem hann mynda, eigi atkvæði um það, hverjir fengnir verða til að þýða, og hvaða skáldrit verða til þess valin.

Þá ætla jeg enn fremur að fara nokkrum orðum um síðustu brtt. á þessu þgskj., um að fella burt styrkinn til að þýða Goethes Faust. Jeg ætla ekki að segja mikið um bókmentagildi þessa rits; um það vita líklega flestir. Um það, hvort Bjarni Jónsson sje hæfur til að þýða þetta rit, ætla jeg ekki heldur að tala. Hann er orðinn svo þektur af þýðingum sínum, að allir vita, að hæfileikar hans í þá átt eru ofar mínu lofi. Nægir í því efni að benda á tvær bækur, Helheima og Huliðsheima, sem hann hefir þýtt úr norsku. Höfundur bókanna fór þeim orðum um þýðinguna, að hún væri betri en frumritið, eftir því sem jeg hefi fyrir satt. Stafar það auðvitað af því, að íslenskan er fullkomnara mál en norskan og fer skáldskap betur, þar sem hann er hjer með stuðlum og höfuðstöfum.

Þessi styrkur kom til umræðu á aukaþinginu í vetur. Við 6 gamlir lærisveinar þýðandans bárum fram þingsályktunartillðgu um að veita honum 1200 kr. á yfirstandandi ári af fje því, sem veitt er til skálda og listamanna, til að halda áfram þýðingunni. Þessi tillaga er á þgskj. 61 í þingtíðindunum frá í vetur. Var hún afgreidd með rökstuddri dagskrá, sem er að finna á þgskj. 92 og í ræðuparti B. III, dálki 512. Dagskráin hljóðar á þá leið, að deildin treysti herra Bjarna Jónssyni til vandaðrar þýðingar á Goethes Faust, að hún telji víst, að nefndin, sem gerir tillögur um úthlutun fjár þess, sem hjer um ræðir, leggi til, að honum verði greitt nægilegt fje til að halda áfram þýðingunni, án beinna afskifta þingsins. Þetta er efni dagskrárinnar, og geta menn litið í þingtíðindin 1916—17, til að sannfærast um, að rjett er með farið. En af því að fjeð er lítið, en margir maklegir, sem um hafa sótt, þá hefir nefndin ekki sjeð sjer fært að taka meira af þeirri upphæð til þessa verks en 400 kr. Stjórnin hefir auðvitað greitt þá upphæð, sem nefndin stakk upp á. En af því að stjórnin skildi dagskrána svo, að þýðandanum væri ætlað að fá þá upphæð, sem tillagan fór fram á, þá tók hún það, sem á vantaði, í frv. til fjáraukalaga fyrir 1916 og 1917. Það er því fullkomið heimildarleysi hjá hv. 2. þm. Rang. (E. J.) að halda því fram, að stjórnin hafi ekki haft heimild til að taka þennan lið upp í fjárlögin. Stjórnin hafði ekki ástæðu til annars en að ætla, að deildin vildi, að þetta væri fastur styrkur. Enda er það fásinna að styrkja menn til einhvers verks, en hætta því að hálfnuðu verki. Það er rjett hjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að þessir menn, sem hann nefndi, unnu verk sín án endurgjalds. En jeg hygg þó, að landinu hefði verið sómi að því að styrkja þá menn, og annar þeirra að minsta kosti hefði þurft þess með, að landið reyndist honum betur en raun varð á. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að menn, sem eiga fyrir öðrum að sjá, geti eytt tímanum frá matarstritinu, til þess að vinna verk, sem ekkert er borgað fyrir, og jafnvel þótt það sje verk, sem manninum er mjög hugleikið. Það er auðvitað svo um þennan mann, sem hjer er um að ræða, að ef hann fær ekki þennan styrk, verður hann að vinna sjer inn fje með tímakenslustriti, ef það þá fæst, þótt af því verði minna bókmentagagn. Jeg veit, að hann vill ekki hafa skifti á þeim störfum, en hann verður að gera það, ef hann verður sviftur styrknum. En það var eitt atriði í ræðu háttv. 2. þm. Rang. (E. J), sem segja má að hafi verið fult vit í, að upphæðin gæti heyrt undir 20. liðinn í 15. gr. Það er auðvitað rjett, að styrkurinn á þar heima, og skiftir litlu máli, hvar hann er settur, En úr því að háttv. þm. (E. J.) er svo rjettsýnn að ætlast til, að styrkurinn sje veittur, þá hefði hann átt að leggja til, að 20. liðurinn yrði hækkaður, um leið og hann kom með brtt. um að fella 37. liðinn í burt. (E. J.: Jeg er ekki skyldugur til að sjá um það.). Jú, því að ef þessi styrkur verður tekinn af þeirri upphæð, þá er ekkert eftir, þegar búið er að greiða þeim mönnum, sem sjálfsagt er talið að njóti styrks af þessu fje. Jeg hefi talið saman styrkinn til þeirra manna, sem eigi verður hjá komist að veita fje af 20. lið, og eru það mennirnir, sem fjárlaganefnd 1915 tilnefndi. Eins og stjórnin tekur fram í greinargerð sinni geri jeg ráð fyrir, að styrkur Einars Hjörleifssonar verði hækkaður upp í 2400 kr., og að Einari Jónssyni verði veittar 2000 kr. (E. J.: Er það jeg?). Jeg bið háttv. þm. afsökunar á því, að jeg átti ekki við hann, heldur Einar Jónsson, myndhöggvara frá Galtafelli. Það var full von á, að þm. tæki það til sín, því að hann er listamaður. Allir vita, að hann er viðurkendur ræðusnillingur deildarinnar. En honum tókst nú ekki að slíta þráðinn hjá mjer. Jeg var að tala um það, að styrkurinn til þeirra manna, sem fyrirfram er ákveðið að skuli styrks njóta, nemi 8600 kr., þegar miðað er við áætlunarupphæðirnar í fjárlögunum 1916—1917, og athugasemdir stjórnarinnar nú um tvo áðurnefnda menn. Nú bætir stjórnin því við í athugasemdum sínum, að þeir menn, sem notið hafi styrks um mörg ár, eigi að fá ríflegri styrk nú, vegna dýrtíðarinnar. Jeg geri ráð fyrir, að þessi hækkun nemi 10—15%. Það er varla hægt að hafa hana minni, ef hækkað er á annað borð. Þá eru komnar 9500 kr. til fyrirfram ákveðinna manna. Þá eru eftir 2½ þúsund handa öllum öðrum, sem um styrk sækja. Jeg gæti nefnt fjölda manna, ef jeg vildi þreyta deildina á að hlýða á það, sem hafa notið styrks af þessu fje, og aðra, sem ekki hafa notið styrks, en eiga fulla rjettlætiskröfu til, að tillit sje til þeirra tekið. Það er því vandi að úthluta þessum 2500 kr. Ef þessar 1200 kr. væru auk þess teknar af þessu fje, þá er svo sem ekkert eftir. Það hefði því verið full ástæða fyrir háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) til að koma um leið með brtt. um tilsvarandi hækkun á 20. lið.

Þótt undarlegt kunni að virðast, þá ætla jeg að enda orð mín með þakklæti til háttv. tillögumanna. Þakklætið er fyrir það, hversu þeir hafa orðið ósamkvæmir sjálfum sjer, fyrir það, að þótt þeir hafi ráðist á þessa liði, þá hafa þeir samt látið standa liði, sem búast hefði mátt við að gerð yrðu sömu skil, ef samræmi á í að vera, t. d. jarðabók Árna Magnússonar og árbók Fornleifafjelagsins. Það er langt frá því, að jeg mæli á móti þessum ritum; þvert á móti álít jeg þau nauðsynleg, en þau eiga að hlíta sömu reglu sem hin.

Jeg vil jafnframt geta þess um tillögumennina, sem eru sparnaðarmenn, er víst þykir lofsvert, að þótt þeir með þessum liðum hafi lagt til þess að spara 9600 kr., þá hafa þeir í öðrum tillögum, bæði í samlögum við mig og fleiri, farið fram á 36800 kr. hækkun á útgjöldunum, en ef þeir vilja spara, þá eiga þeir ekki að fara fram á hækkun.

Jeg skal loks benda á eitt atriði, sem lýtur að 13. gr. B, sem sje það, að till. um brúargerðir virðast ekki eiga vel heima nú, vegna þess, að erfitt er að hlaða eða gera brýr nú, með því að í þær þarf mestmegnis útlent efni, svo sem sement, járn og timbur. Öðru máli gegnir um vegi; þá er yfirleitt hægt að leggja, hvernig sem stendur á um útlent efni, því að þess þarf ekki hjer til, nema eitthvað lítils háttar af sementi og járni í smábrýr og rennur. Þess vegna mun jeg greiða atkvæði á móti brúm, en með vegum yfirleitt, þeim sem ekki eru sýsluvegir eða hreppsvegir, af þeim ástæðum, sem jeg hefi greint, að ekki er viðlit að gera brýr á næstu tímum, þótt í sjálfu sjer sjeu nauðsynlegar.