18.07.1917
Efri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

21. mál, framkvæmd eignarnáms

Jóhannes Jóhannesson:

Má jeg skjóta því til háttv. framsm. (M. T.), hvort honum finst ekki 4. málsgr. 6. gr., um yfirmatið, dálítið ógreinilega orðuð í brtt. nefndarinnar? Í frv. stendur: »Nú hefir eignarnemi krafist yfirmats, og ber honum þá að greiða allan kostnað, sem þar af leiðir, og sömuleiðis þótt aðrir málsaðiljar hafi krafist þess, ef matsverðið er hækkað að minsta kosti um 10%.« En ef brtt. nefndarinnar verða samþ., verður málsgr. á þessa leið: »Hafi eignarnemi krafist yfirmats, ber honum að greiða allan kostnað af því, sje matsverðið hækkað um 10 % eða meira.« — Mjer skilst því, að eignarneminn verði laus við að greiða kostnaðinn af matinu, samkvæmt brtt. nefndarinnar, ef matsverðið hefir ekki verið hækkað um 10%. Það er þess vegna ósk mín, að nefndin taki þetta til nánari íhugunar.