30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Björn Stefánsson:

Jeg er riðinn við 6 brtt. við þessa umr.; 4 þeirra hafa aðrir gert grein fyrir, svo að best er, að jeg byrji þá á þeim, sem ekki hafa enn verið nefndar. Háttv. fjárveitinganefnd hefir tekið hörðum höndum á brtt. á þgskj. 642, svo að hún vill nú neyta þess rjettar, sem hún hefir, að krefjast ? atkv. til þess, að till. verði samþykt. Mig furðar á því, að háttv. þm. V. Ísf. (M. Ó.) skuli vera með í þessum samtökum; það er ámóta og jeg mintist á um háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) í ábúðarlögunum, hvað hann var nægjusamur í breytingum á þeim. Ástæðan hjá nefndinni er sú, að annað frv. liggi nú fyrir, sem taki vitana í kerfi, og því sje ótækt að raska. Þar til er því að svara, að það frv. hefir að eins verið hjer til 1. umr., svo að nógur tími er, ef það verður vel reiðfara, að kippa þessum vita út úr því frv. Í annan stað eru nú 4 vitar í fjárlögunum, og þeim fylgir sú athugasemd, að ef erfitt verður að koma þeim upp, þá sje heimilt að fresta gerð þeirra þessi ár. Jeg get ekki búist við því, að ef einhver þessara vita fellur niður á næsta fjárhagstímabili, þá ætlist háttv. þm. V.-Ísf.

(M. Ó.) til þess, að hann bíði þangað til kerfinu er fullnægt. Í þriðja lagi er það tekið fram í frv., að færa megi vitana til í kerfinu, svo að jeg skil ekki, hvers vegna háttv. nefnd ber fram þessa yfirskinsástæðu. En til þess að sýna rjettmæti þessarar till., þá skal jeg benda á það, að af 31 vita landsins eru að eins 3 á Austfjörðum, svo að Austfirðingar hafa sannarlega orðið út undan. Nú er það öllum kunnugt, að Austfirðir liggja svo, að þar að koma fyrst útlend skip, er hingað koma, svo að einungis Reykjanes eitt er ef til vill sá staður, sem fleiri skip koma oftar að fyrst, er úr hafi koma, og er mjer þó efi á því.

Mjer hefir verið brigslað um ósamræmi, síðast af háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), þar sem jeg annars vegar leggi til sparnaðar, en hins vegar komi með eyðslutillögur. Þessi ásökun er ekki rjettmæt. Jeg vil benda á það, að jeg átti enga brtt. við 2. umr., þegar alt var í sukkinu, eins og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) komst að orði, og það var ásetningur minn að vinna að því, að útgjöldin yrðu ekki mikið hækkuð á þinginu. En þegar jeg sá, að aðrir voru hóflausir í kröfum sínum, þá fanst mjer ástæðulaust að láta rjettlátari kröfur frá Austfirðingum liggja niðri.

Jeg gleymdi að geta þess áðan um Kambanessvitann, að vitamálastjórinn hefir lagt það til, að hann yrði tekinn inn í fjárlögin nú, en stjórnin hefir smokkað því fram af sjer, án þess að gera nokkra nánari grein fyrir því. En samt mundum við ekki hafa leyft oss að bera till. fram, ef ekki hefðum við haft meðmæli vitamálastjórans til þess, því að í rauninni er það annar viti, sem Austfirðingar óska alment fyr, sem sje Seleyjarvitinn, en við vildum ekki fara ofan í tillögur vitamálastjórans, enda færði hann þær ástæður fyrir því, að rjettara væri að fresta Seleyjarvitanum í þetta skifti, sem við vildum taka til greina.

Þá er jeg meðflytjandi að brtt. um fjárveitingu til þess að gera vegarspotta á Völlum. Sú brtt. er ekki borin fram í trássi við vegamálastjórann, því að hann hefir tekið fram, að það væri að ýmsu leyti hagkvæmt að gera eða bæta þennan veg, samtímis Hróarstunguveginum, með því að þar er svo stutt á milli, að sami verkstjórinn getur hæglega stjórnað hvorri tveggja vegabótanna; auk þess svo fyrirhafnarlítið að flytja á milli áhöld og verkfæri, eftir því sem hentar eða með þarf á hvorum stað. Hann hefir þannig játað, að heppilegt væri, að þessar vegagerðir færu saman, og því ekki mælt á móti. Í annan stað vil jeg benda á það, að í tillögum fyrverandi landsverkfræðings Jóns Þorlákssonar, sem prentaðar eru í fgskj. við fjárlagafrv. stjórnarinnar 1915, er þessi vegarspotti talinn eiga að ganga fyrir öðrum, en jeg hygg nú, að allir þeir vegir, sem þar var ætlað að hafa forgangsrjett, sjeu nú komnir í fjárlögin, annaðhvort hin núgildandi eða þau, sem nú eru í smíðum, nema þessi vegur, svo að jeg vona, að menn sannfærist um það, að ekki er hjer farið fram á neina óhæfu.

Um aðrar brtt. okkar þingmanna S.-M. þarf jeg ekki að fjölyrða, með því að hv. samþingism. minn (Sv. Ó.) hefir gert rækilega grein fyrir þeim. Að eins skal jeg geta þess, út af orðum háttv. framsm. (B. J.) um húsin á Hallormsstað, að þau mundu geta lafað um tíma, að jeg get fullvissað hann um, að þetta er ekki rjett. Jeg kom þar á matsferð í fyrra, og spurði þá skógarvörðinn, hvort húsin mundu verða látin hanga í vetur, og sagði hann svo mundu vera, því að annars væri ekki kostur. Annars skal jeg taka það fram, að það framhýsi, sem minst hefir verið á, er að eins notandi til gestabústaðar á sumrum, en annars er þetta vindblásinn timburhjallur, óhæfur til vetrarbústaðar. Jeg skil ekki, þar sem landið á jörðina og húsin, hvernig Alþingi getur farið að synja um þessa fjárveitingu, jafnvel þótt háttv. nefnd segi í nál., að hún treysti sjer ekki til að mæla með því, að ráðist verði í húsagerð nú; jeg held miklu fremur, að þessi orð hennar stafi af því, að hún taki ekki trúanlegt, að þörfin sje svo brýn, sem hún er í raun og veru.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. á þgskj. 680. Það hefir nú margt verið um þær brtt. skrafað, og þær hlotið harða dóma, einkum hjá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.). Mjer skilst næstum á þessum háttv. þm., sem hjer sje farið fram á einhverja goðgá, og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að þetta væri enginn sparnaður, þrátt fyrir það, þótt tillögurnar á þessu þgskj. feli í sjer 9600 kr. sparnað, ef þær ná fram að ganga. Jeg held, að látin sjeu liggja niðri störf, sem meiri bjargráð geyma en þessir liðir, þótt jeg hins vegar játi, að allir þessir liðir geymi verk, sem vinna þarf, en vjer höfum verið mintir á að spara bæði orð og skriftir, svo að mjer finst, að verk sem þessi geti beðið að skaðlausu, með því líka að þau eru ekki dauð, þótt frestað sje framkvæmd þeirra þangað til pappír og prentun verður ódýrara en nú og fjárhagur betri.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) mintist á tillögin til Bókmentafjelagsins, Þjóðvinafjelagsins, Fornleifafjelagsins, Sögufjelagsins og Fræðafjelagsins. En hjer gegnir alt öðru máli. Hjer er um faststarfandi fjelög að ræða, en ekki einstök verk, og í annan stað er ekki loku fyrir það skotið, ef þessar tillögur okkar verða nú samþyktar, að þá megi kippa burt þessum liðum líka, ef hv. þm. (E. A.) álítur, að þeir geti beðið, alveg eins og þessir liðir. Jeg sje ekki, að fornbrjefasafnið, alþingisbækurnar og dómasöfnin sjeu sú þjóðarnauðsyn, að ekki megi bíða á þessum vandræðatímum. Jeg býst við, að t. d. þeir, sem halda þurfa á nýjum dómum landsyfirrjettar, sjer til leiðbeiningar, geti fengið greiðan aðgang að þeim, með því að snúa sjer til yfirdómaranna.

Nokkuð öðru máli gegnir um fjárveitinguna til þýðinga á íslenskum skáldritum á tungur Norðurlanda, með því að það er nú upplýst, að hjer er að ræða um samvinnu milli Norðurlandaþjóða, og þá kurteisi frá vorri hálfu gagnvart öðrum bræðraþjóðum vorum. En í aths. stjórnarinnar við fjárlagafrv. eru nafngreindir 3 menn, sem mjer skilst vera ætlað að hafa á hendi umsjón eða stjórn þessa fyrirtækis; 2 þeirra eru ókunnir sem rithöfundar og ritdómarar, en sá þriðji hefir að vísu margt skrifað, en allmisjafnlega falla dómar manna um smekkvísi hans, og víst mundi mörgum þykja fulllangt farið, ef Dúna Kvaran yrði þýdd, sem sami maður hefir valið í Skírni. Yfirleitt eru mjög skiftar skoðanir manna um skáldrit allajafna, og jafnan mætti þá gera ráð fyrir hlutdrægni. Alt öðru máli hefði verið að gegna, ef hjer hefði verið um þýðingar á fræðiritum að ræða; þá hefði till. verið miklu aðgengilegri.

Þá kem jeg að þýðingunni á Goethes Faust. Um þá fjárveitingu er sama að segja sem um hina liðina, að hjer er um illa forsvaranlega dýrtíðarráðstöfun að ræða, af því að þjóðarnauðsyn liggur ekki við, en margt annað nauðsynlegt verður að liggja niðri. Það hefir raunar verið bent á það, að hlutaðeigandi sje mjög vel hæfur til þessa verks, og býst jeg ekki við, að nokkur vefengi það. En þótt þingið hafi gefið þann úrskurð í vetur, að maðurinn sje vel hæfur til að leysa verkið af hendi, þá liggur það ekki í dagskránni, sem samþykt var út af þingsál.till. í vetur, að um nokkurt nauðsynjaverk sje að ræða. Enda verðum vjer nú að láta marga góða krafta ónotaða, og hyggnir menn neita sjer um ýms þægindi og skemtanir í harðærum, sem þeir veita sjer í góðum árum, en þessa fjárveitingu má vel heimfæra hjer undir. Í annan stað sýndi nefnd dagskrá í vetur að eins það, að deildin teldi þennan mann vel hæfan til þess að keppa um hlutdeild í styrknum til skálda og listamanna.

Um varatillöguna er það að segja, að mjer finst sjálfsagt að samþykkja hana, ef aðaltillagan er feld. Ef hjer væri um mann að ræða, sem þingið teldi sig, sóma síns vegna, verða að sjá fyrir, þá væri nokkuð öðru máli að gegna.

En hjer er ekki því til að dreifa um þennan mann. Hann hefir fast embætti með viðunandi launum, og er að því leyti betur settur en almenningur. Það er því ekki ástæða til að gjalda honum fje fyrir annað en verk, sem hann vinnur, og með því skilyrði hefði jeg ekki á móti því, að hann fengi alt að 200 kr. fyrir örkina, ef þess væri talin þörf. Það er sagt, að skáldin geti ekki starfað nema þegar andinn sje yfir þeim, og því megi ekki mæla laun þeirra á sama mælikvarða sem annars tíðkast. En það er ekki ástæða til að gjalda þeim skáldum mikið fje, sem andinn kemur sjaldan eða aldrei yfir, og yfirleitt rjettust regla að greiða ekki fyrir annað en það, sem er unnið.

Það hefir þótt vera í ósamræmi við aðrar brtt. okkar háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), að við höfum á þgskj. 679. borið fram till. um, að síra Gísla Kjartanssyni sjeu veittar í eftirlaun 800 kr. á ári. Jeg skal játa það, að þessi styrkur ætti að vera annarsstaðar niður kominn en í 18. gr., en finst þó, að þingið geti varla staðið sig við að taka þennan eina mann út úr, en samþykkja alla hina halarófuna. Rjettast hefði mjer þótt, að hann hefði staðið í 14. gr. A. a. 3 — þar á hann best heima — og að styrkurinn til uppgjafapresta hefði verið hækkaður þar.

Jeg tel mesta tryggingu fyrir því, að þeir prestar, sem maklegastir og nauðþurftugastir eru, fái styrkinn, ef þannig er um hnútana búið. Það er engin trygging fyrir því, að einmitt hinir verðugustu leiti til þingsins eða fái áheyrn hjá því; hitt einmitt eins líklegt, að sumir þeirra hreyfi sig ekki, en beri harm sinn í hljóði, en hinir, sem framfærnari eru og treysta því, að þingið láti fáa synjandi frá sjer fara, koma. Við höfum fengið ámæli fyrir að greiða atkvæði gegn 16.000 kr. til listamanna og skálda. Jeg mundi síður hafa verið á móti fjárveitingu þessari, ef jeg hefði ekki orðið þess var, að verið er að smeygja inn annarsstaðar því, sem beint heyrir undir þennan lið, svo sem styrknum til þýðingarinnar á Faust.

Á meðan á fundi hefir staðið sje jeg, að útbýtt hefir verið hjer í deildinni till. um að hækka fjárveitinguna til að kaupa fyrir íslensk listaverk úr 2000 kr. á ári upp í 3000 kr. Jeg tel það ganga í rjetta átt að kaupa af listamönnum verk, sem þeir hafa unnið, og hið sama hefði líka átt að ná til skáldanna, að þeim væri að eins borgað fyrir unnin verk, og varla fyrir önnur verk en þau, sem bera á sjer listamannsmót. Ef engir eða sárfáir vilja kaupa af þeim, sem við listir fást, ætti það að vera bending fyrir þing og stjórn að fara varlega í að styrkja þessa menn, og fyrir þá sjálfa bending um að hverfa út af listamannabrautinni og snúa sjer að öðru, sem þeim ljeti betur.

Jeg gat þess áðan, að mjer fyndist styrkurinn til síra Gísla Kjartanssonar eiga betur heima í 14. gr. A. a. 3. En eins vil jeg segja um alla 18. gr., að mjer virtist best við eiga, að allar þær fjárveitingar, sem eigi gætu flust þaðan yfir í 14. gr. A. a. 3, væru dregnar saman í eitt og stjórninni fengin einhver ákveðin upphæð til úthlutunar; því að það er leiðinlegt og óviðeigandi að vera að togast á um nöfn einstakra manna, eins og hjer er gert.

Jeg býst við, að sumt af því, sem jeg hefi sagt, leiði til þess, að jeg þurfi að standa upp aftur, og þá mun jeg ef til vill minnast á einstöku brtt. frá öðrum.