04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

28. mál, áveita á Flóann

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Landbúnaðarnefndin hefir haft mál þetta til meðferðar og leggur til, að frv. verði samþ. með einni breytingu, við 7. gr. Nefndin viðurkennir það í áliti sínu, að þótt þetta sje stórmál og í sjálfu sjer mjög vandasamt, þá hefir það nú fengið betri undirbúning en mál alment fá. En brtt. á þgskj. 219 er komin fram að miklu leyti eftir ósk hlutaðeigandi manna, sem á áveitusvæðinu búa. Í 7. gr. segir nefnilega, að landssjóði veitist heimild til að ábyrgjast lán fyrir áveitukostnaðinum, gegn tryggingu í þeim jörðum, sem njóta áveitunnar, ásamt mannvirkjum þeim, sem á jörðunum eru og notuð eru við ábúðina, þó svo, að ? jarðarverðsins sjeu lausir til veðsetningar annarsstaðar. Nú er svo háttað um jarðir á þessu svæði, eins og víðar, að þær eru misjafnlega vel hýstar og misjafnlega mikil mannvirki á þeim. Þess vegna eru þessir ? hlutar, sem landssjóður hefir að tryggingu, mismunandi að verðmæti. Þótt áveitulönd jarða sjeu jafnstór og notin þar af leiðandi jafnmikil, þá leggja þeir meira í sölurnar til tryggingarinnar, sem meiri hús og mannvirki eiga á jörðum sínum. Í því er fólgið misrjetti, sem nefndin vildi ráða bót á með brtt. á þgskj. 219. Hún ætlast til, að peningshús og önnur húsakynni eða mannvirki, sem við ábúð jarðanna eru notuð, sjeu metin með jörðunum til tryggingarinnar, alt að 1000 kr. upphæð, en það, sem þar er fram yfir af húsum eða mannvirkjum, sje undanskilið tryggingunni. Jeg vona, að till. þessi verði samþ., eins og frv. í heild sinni. Það er ekki hægt að segja, að brtt. rýri veð landssjóðs, ekki ef borið er saman við aðrar jarðir, sem jafnstórt áveituland hafa, þótt húsakynni sjeu minni. Hjer er að eins um jöfnuð að ræða gagnvart jarðeigendunum. Svo eyði jeg ekki fleirum orðum að þessu, en vænti góðra undirtekta.