27.08.1917
Efri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

28. mál, áveita á Flóann

Frsm. (Hjörtur Snorrason):

Mál þetta er stórmál og þarfnast rækilegrar athugunar. En bót er það í máli, að það er mun betur undirbúið en flest önnur mál, sem þingið hefir nú um að fjalla. Búið er þegar að kosta miklu fje til undirbúnings áveitunni, og fjelagsskapur þegar myndaður með jarðeigenda á áveitusvæðinu. Þeir eru, að því er virðist, reiðubúnir að taka á sínar herðar ¾ hluta af áveitukostnaðinum, þótt þungbær verði nokkuð í byrjun, gegn því, að landssjóður leggi fram ¼ hluta. Hins vegar er vonin um það, að þetta stórfelda fyrirtæki beri góðan árangur, að með áveitunni megi takast að rækta stórt landssvæði og gera það mjög arðberandi með tímanum. Það virðist því óheppilegt og ógerandi að leggja nú hömlur á, að fyrirtæki þetta komist í framkvæmd eða dragist um langan tíma. Með því móti gæti svo farið, að alt, sem þegar hefir gert verið til undirbúnings fyrirtækinu, yrði sem á glæ kastað. Ræktun landsins er eitt af aðalskilyrðunum fyrir framförum, efnalegu sjálfstæði og gengi þjóðarinnar yfirleitt í framtíðinni. Er því áríðandi, að sem best sje hlynt að öllu því, sem til þess getur orðið, að sem mestu verði þar á orkað. Jafnvel í þeim greinum, sem orkað getur tvímælis um, hvernig gefast muni — eins og ef til vill á sjer stað í þessu máli — getur verið varhugavert að vera um of varfærinn, því að ef aldrei er hafist handa, verður engu ágengt.

Landbúnaðarnefndin, sem haft hefir mál þetta til meðferðar, er sammála um að ráða háttv. deild til að samþykkja frv., með þeirri einu breytingu á þgskj. 616, sem fer fram á að bæta inn í 19. gr. orðunum: » . . er sje svo stórt og þannig lagað, að á því megi reisa nýbýli«. Í grein þessari er sem sje ráð fyrir því gert, að jarðeigandi geti látið land af hendi til landssjóðs upp í áveitukostnaðinn, án þess að tekið sje nokkuð fram um það, hve stórt landið þurfi að vera, eða hvernig því sje háttað. Hugsanlegt er því, að fyrir gæti það komið, að jarðeigendur vilji nota sjer ákvæði þetta, og ef ekki væri betur um þetta búið, að svo gæti farið, að landssjóður eignaðist marga smálandskika, sem honum væri lítil eign að og gætu ekki orðið arðberandi. Öðru máli er að gegna, ef land það, sem þannig væri látið af hendi, væri svo stórt og þannig lagað, að á því megi byggja sjerstakt býli.

Jeg sje svo ekki þörf á að fjölyrða meira um þetta, en vænti þess, að háttv. deild geti fallist á þessa litlu brtt. og frv. nái fram að ganga.