30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Það hefir ekkert verið sjerstaklega haft á móti brtt. nefndarinnar við þann kafla fjárlaganna, sem jeg er framsögumaður fyrir, og þarf ekki mikið að svara fyrir þær.

Skal jeg þá snúa mjer að þeim einstöku þm., sem flutt hafa brtt., er nefndin hefir ekki getað fallist á.

Það var víst háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), sem var enn að tala um þennan vegarkafla á Mýrunum, og gat þess, að sýslunefnd hefði veitt fje til rannsókna. Það er leiðinlegt, að ekki skuli hafa orðið meira úr þessari rannsókn. Jeg átti tal við vegamálastjóra í dag, og kvað hann enga rannsókn hafa fram farið og sjer með öllu ókunnugt um vegarstæðið. Sjá allir, að það er ómögulegt, að þingið fari að kasta fje í einhvern vegspotta, þegar vegamálastjóra er með öllu ókunnugt um hann, og vegarstæðið er ófundið. Sje slíkt gert, má jafnan eiga á hættu, að sá vegspotti verði með öllu ónýtur, ef vegarstæðið er illa valið, og hefir þá fje þessu verið fleygt í »mýrarnar«, til engra nota. Vona jeg, að allir hv. þm., og háttv. flutnm. (P. Þ.) líka, sjái, að jeg er ekki að amast við því, að Mýramenn fái vegi, sem aðrir menn, heldur vil jeg, að slík fyrirtæki fái fullnægjandi undirbúning. Það er ekki nema lofsvert, að Ungmennafjelögin hafa byrjað á veginum, en óvarlegt að halda áfram, meðan því er ekki slegið föstu af verkfræðingum eða öðrum, hvar vegurinn eigi að liggja. Háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) bar saman þessa brtt. og fjárveitinguna til vegar yfir Flöguflóa. Það voru einungis veittar 500 kr. til að gera þann flóa reiðfæran.

Út af athugasemd hæstv. atvinnumálaráðherra um loftskeytastöð í Flatey á Breiðafirði verð jeg að taka það fram, að hann hefir líklega ekki heyrt, að nefndin ætlast ekki til, að hún verði bygð, ef hún verður tiltölulega dýrari en loftskeytastöðin hjer í Reykjavík. Vona jeg, að menn skilji, að jeg á við það, ef efnið verður hlutfallslega dýrara.

Þá er brtt. frá háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) um að veita hjeraðslækninum í Keflavík styrk til að fá sjer aðstoðarmann yfir vertíðina. Fjárveitinganefndin hefir ekki getað fallist á till., og eins og hann tók fram hefir landlæknir lagt á móti henni. Nefndinni fanst, að ef þarna þyrfti aðstoðarlækni, mundi arðvænlegt fyrir lækninn að fá sjer mann upp á eigin spýtur. Það er náttúrlega alveg rjett, sem háttv. flutnm. (B. K.) sagði, að það yrði dýrara landssjóði, ef læknirinn segði af sjer og kæmi á eftirlaun. En jeg held, að þingið geti yfirleitt ekki fylgt þeirri stefnu, að styrkja eldri lækna til að fá sjer aðstoð, svo að þeir geti setið þess lengur, og síst ef nógur verður kostur ungra lækna til að taka við embættinu. Þótt það yrði nokkur hundruð króna sparnaður á ári, býst jeg ekki við, að sú stefna verði upp tekin.

Þá skal jeg snúa mjer að þessum litla vegarkafla á Völlunum, sem háttv. 2. þm. S.-M.

(B. St.) mintist á. Nefndin getur ekki lagt með því að leggja fje til þessa vegar. Það er ekki af því, að hún sje á móti því, að hann sje lagður. Hann er á lögskipuðum vegum, á að leggjast og er í því vegakerfi, sem ráðgert er að lagt verði innan viss tíma. Það er líka rjett, að vegamálastjórinn álítur ekki ósanngjarnt, að hann verði lagður samhliða Hróarstunguvegi. Nefndin er móti þessari brtt. af sömu ástæðu og Öxnadalsveginum við 2. umr. Hún vill ekki bæta fleiri vegarköflum en komið er í fjárlögin, en ætlast þó til, að unnið verði að þessum vegarköflum eftir hentugleikum, og er ekki þröskuldur í vegi þess, að það verði gert næsta fjárhagstímabil, ef á annað borð verður hægt að vinna meira en þegar stendur í fjárlögum. Það er gert ráð fyrir brúafje, og ef brýr verða ekki bygðar, mun það fje lagt í vegi, eftir till. vegamálastjóra. Nú telur vegamálastjóri þessa með þeim fremstu, Öxnadalsveg og þann er hjer um ræðir, og þennan þó engu fremri, og býst við og telur þegar allar líkur til, að ekki verði bygðar brýr fyrra ár fjárhagstímabilsins, svo að þá kemur þegar eitthvert fje fram yfir það, sem beint er ákveðið til vega, svo að einhverjir kaflar verða gerðir fram yfir það.

Þá skal jeg snúa mjer að þessum stóru brtt. um brúarbyggingarnar. Jeg veit ekki, hvað er á ferðinni hjer í deildinni. Það lítur helst út fyrir, að menn sjeu komnir út úr öllu samhengi við tímann og álíti, að nú sjeu alt aðrir tímar en hjer hefir heyrst áður, er þeir leggja til, að lagt sje út í fjölda fyrirtækja, sem vitanlegt er að kostnaðurinn við er mestmegnis efniskostnaður. Þessar brtt. fara ekki fram á nein smáræðis útgjöld; það er öðru nær. Þær myndu hafa í för með sjer um 130 þús. kr. útgjöld að minsta kosti.

Skal jeg þá fyrst snúa mjer að brtt. frá meiri hluta samgöngumálanefndar um brú á Hofsá í Vopnafirði. Jeg verð að telja það mjög undarlegt, að háttv. samgöngumálanefnd lætur fá sig til að flytja slíka fjárbeiðni sem þessa. Það er ekki nema eðlilegt, að einstakir þm. flytji fjárbeiðnir fyrir sitt kjördæmi, sem þeir annaðhvort hafa verið beðnir um, eða þykjast hafa siðferðisskyldu til, eða mega til með að láta sjást eftir sig og gera til málamynda, þótt þeir ekki búist við, að þær nái fram að ganga. Þeir hafa þó látið að óskum sinna kæru kjósenda og gert það, sem þeir gátu. En það er öðru máli að gegna, þegar stór meiri hluti jafnstórrar nefndar og hjer er um að ræða leyfir sjer að leggja til að rífa sundur heilt kerfi, sem búið er að undirbúa, um fyrirhuguð stórvirki í samgöngum landsins, og er í raun og veru nokkurs konar lög. Á þinginu 1915 var þessu fyrirhugaða kerfi slegið föstu, því að till. um það voru á fylgiskjali við fjárlagafrv. stjórnarinnar þá, og þá staðfestar af fjárlaganefndum þingsins. Er venjulega litið svo á, að slíkt sje bindandi lög fyrir framtíðina, eða þeim jafngilt. Og það er ekki einungis þingið 1915, sem hefir samþykt þetta kerfi, heldur hefir og þetta þing bygt á því hingað til, og er óhætt að segja, að fyrirætlanir þess um brúa- og vegagerðir í framtíðinni byggjast að mestu leyti á því. En ef þessi tillaga nær fram að ganga, er það röskun á því, sem þar er slegið föstu, að hinar einstöku stórbrýr skuli bygðar í vissri röð. Sje ein einstök brú tekin inn þar fyrir utan, hlýtur það að valda ruglingi, því að þá er opin leið fyrir aðra, sem jafnan rjett þykjast hafa til að víkka glufuna, sem verður þar á hinni upphaflegu röð.

Jeg hjó eftir því hjá hv. flm. (Þorst. J.), að hann kvaðst tala fyrir hönd meiri hluta samgöngumálanefndar. Jeg áttaði mig ekki á því í fyrstu, en fann það síðar, að það var sjerstök ástæða fyrir hann til að taka það fram, að hann talaði ekki fyrir sinn eigin munn. Ræða hans og till. sjálf er sem sje algerlega í ósamræmi við það, sem hann sagði, er hann var að tala fyrir lagafrv. sínu um brú á þessa sömu á, sem hjer er um að ræða. Hann lýsti þá yfir því, hvað eftir annað, að það væri alls ekki meiningin, að þessi brú ætti að sitja í fyrirrúmi fyrir þeim landsbrúm, er þegar væri ákveðið að byggja á þjóðvegum. En nú er sýnilega svo til ætlast, og eigi varð annað skilið á orðum hans en að hann legði beint á móti því, að þær brtt., sem hjer eru á ferðinni, um slíkar lands-stórbrýr, næðu fram að ganga. En þessar 2 brýr, brýrnar á Miðfjarðará og Hjeraðsvötn, eiga einmitt samkvæmt till. vegamálastjóra, samþ. af þingunum, að vera á undan Hofsárbrúnni. Þetta er því undarlegra, þar sem hann sagði þá, að það væri ekki tilætlunin að hraða brúarbyggingunni, heldur einungis að gefa hlutaðeigendum bendingu um að safna fje og búa sig undir að taka sinn hlut í fyrirtækinu. Það virðist hafa annaðhvort farið fram hjá hv. þm. (Þorst. J.), eða hann ekki álitið vert að taka það til greina, er jeg gat um, hvað vegamálastjóri hefði sagt um þessar brýr, og vil jeg því endurtaka það. Hann lýsti yfir því, að ekki þýddi að samþykkja fleiri brýr en samþyktar voru við 2 umr., því að eigi mundi fást nægur mannafli nje verkfræðingar til að sjá um starfið. Það er ekki rjett hjá háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), flutnm., að ekkert hafi verið lagt til brúa á Austurlandi nema Lagarfljótsbrúarinnar.

(Þorst. J.: Ekki stórbrúa). Jeg skal ekki segja, hvað hann kallar stórbrú, en 1913 munu hafa verið veittar 11000 kr. til brúar á Hamarsá í Geithellnahreppi, og jeg veit ekki, hve mikið hefir verið lagt til brúar á Jökulsá á Dal. Og þótt þessar brýr sjeu ef til vill ekki á Austfjörðum, þá eru þær þó á Austurlandi. Hefði ef til vill verið rjettara af honum að orða þetta svo, að ekkert hafi verið lagt til stórbrúa í Borgarfirði eystra.

Mjer finst sem sagt þetta mikið alvörumál fyrir hv. deild, vegna þess, að þeir þm., er þar eiga hlut að máli, hafa talið sjer skylt að koma með brtt. um brúarbyggingar í sínum kjördæmum, af því að lögákveðið er, að þær skuli sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum, og þar á meðal þessi brú á Hofsá. Enda hafa þeir lýst yfir því, að þeir mundu taka brtt. sínar aftur, ef þessi yrði feld. Verð jeg því að skjóta því til hæstv. forseta, að þessi brtt. verði borin undir atkv. fyrst af brúartill., og er það ekki einungis með tilliti til þess, að hinar verða teknar aftur, ef þessi er feld, heldur og þess, að fjárveitinganefnd telur sjer siðferðislega skylt að greiða hinum brtt. atkv., ef þessi gengur í gegn. En jeg vil jafnframt skjóta því til hv. flutningsmanns — (Þorst J.: Það er samgöngumálanefnd.). Já, jeg býst ekki við, að meirihluti samgöngumálanefndar mundi hrófla við því, er hann gerði í þessu — hvort hann vildi ekki taka saman við hina um að taka brtt. sína aftur ásamt hinum. Það væri heldur mannssómi en hitt, sem háttv. meiri hluti samgöngumálanefndar mætti vel við una. Jeg held, að það yrði ekki til neinna bóta í framtíðinni, nje flýtti fyrir brúabyggingum, þótt þessi brú væri nú keyrð hjer í gegn, á kostnað annara. Jeg skal geta þess, að jeg talaði við vegamálastjóra einmitt um þessa brú, og hjelt hann fast við fyrri skoðun þings og verkfræðings, að þessi brú væri ekki einu sinni næst í röðinni. T. d. stæði brú á Hvítá hjá Ferjukoti miklu nær en Hofsá. Jeg er hissa á því, að hv. samgöngumálanefnd skyldi ekki taka upp það ráð, sem jeg benti henni á, er frv. um margnefnda brú var til umr. í deildinni, að semja og bera fram till. til þingsályktunar um að skora á stjórnina að láta skoða brúarstæði á verstu ám og hættulegustu og gera yfirlit yfir, hvar þyrfti að brúa og í hverri röð. Það hefði verið góð undirstaða, og með því haldið áfram því, sem hingað til hefir verið gert.

Annars skal jeg ekki fara að tala sjerstaklega á móti hinum brúnum, þótt nefndin sje yfirleitt á móti þeim öllum. En því er ekki hægt að neita, að fjárveitinganefnd hefði heldur kosið að setja sumar þær brýr í fjárlögin, ekki síst Miðfjarðarárbrúna, sem þegar hefir verið skotið aftur fyrir, til þess að geta tekið Jökulsárbrúna strax. Hafa verið höfð áraskifti á þeim brúm. Jeg ætla ekki að fara að rengja það, að nauðsyn sje á þessari brú, Hofsárbrúnni. Það er vitanlega nauðsynlegt að fá fjölda margar ár brúaðar. En þegar menn fara að draga reipi um, hvar mest sje þörfin, er hætt við, að menn geri sem mest úr usla þeim, er árnar valda. Og Austfirðingar, sem ef til vill eru ekki eins kunnugir á þessum slóðum og hv. frsm. samgöngumálan. (Þorst. J.), hafa sagt mjer, að þeir hafi aldrei heyrt getið um neina sjerstaka fjárskaða, er á þessi hafi valdið. (Þorst. J.: Hvaða Austfirðingar?). Jeg sagði, að þeir væru ef til vill ekki eins kunnugir. (Þorst. J.: Þeir hafa kann ske aldrei komið þar nærri.). Getur verið, en það mun frjettast úr einni sveit í aðra, og jafnvel sýslna á milli, ef miklir skaðar verða.

Jeg vona nú, að háttv. deild sje þetta mál ljóst, þótt jeg segi ekki meira í svip. En ef háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) tekur til máls, býst jeg við að verða að svara honum. Jeg býst sem sagt við, að háttv. deild sje það ljóst, að hjer er ekki að eins að ræða um 16,000 kr. útgjöld fyrir landssjóð, heldur er hjer miklu meira alvörumál á ferðinni, að fara að setja inn í fjárlögin, sjerstaklega á þessum tímum, stórfyrirtæki, sem ómögulegt er að geti komist í framkvæmd, þótt alt gengi betur en á horfist nú, því að jeg geri ráð fyrir, að háttv. flutnm. (Þorst. J.) ætlist ekki til þess, að brú þessi sje bygð á undan þeim, sem þegar er búið að setja í frv.

Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) talaði með einni brúartill., og ætla jeg ekki að mæla sjerstaklega á móti honum, þótt sú brú sje ekki ein þeirra fyrirhuguðu, heldur standi jafnfætis Hofsárbrúnni. Jeg skal ekki lá honum, þótt hann glæptist til að bera fram þessa brtt., er hann sá þetta mikla örlæti háttv. samgöngumálanefndar.

Jeg ætla ekki að svo komnu að fara meira út í þennan kafla og brtt. við hann, og ætla að sleppa að minnast á Kambanessvitann, því að jeg sje, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) er búinn að biðja um orðið, svo að jeg býst við að segja það sama og hann, ef við tölum báðir um þetta. Enda beindi háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) sjerstaklega máli sínu til hans.