25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

32. mál, vátrygging sveitabæja

Frsm. (Einar Árnason):

Þar sem þetta frv., er hjer liggur fyrir, er samhljóða frv. því um vátrygging sveitabæja, er deildin hafði til meðferðar í vetur, og þá sætti engum andmælum, þarf jeg ekki að tala langt mál, því að jeg geri ekki ráð fyrir, að háttv. deild hafi snúist hugur.

Breyting sú, sem frv. gerir á lögunum frá 1905, er eingöngu í því fólgin, að hinn vátrygði hluti húsanna er hækkaður úr ? í 5/6, í samræmi við það, sem er í Brunabótafjelagi Íslands. Sýnist ekkert vera þessu til fyrirstöðu, þar sem brunahætta er minni í sveitum en sjávarþorpum.

En svo hefir nefndin leyft sjer að koma fram með viðaukatillögu, sem fer í þá átt, að þeim mönnum, sem hafa með höndum árlega starfrækslu brunabótafjelaga í sveitum, verði greidd lítils háttar þóknun fyrir ómök sín.

Nefndinni er sem sje kunnugt um, að það atriði, að sveitarstjórnir fá enga borgun fyrir ómök sín, hefir orðið þess valdandi, að lögin hafa víða ekki komið til framkvæmda. Hreppsnefndirnar hafa ógjarnan viljað taka á sig þessa fyrirhöfn án þóknunar. Nefndin hefir því lagt til, að þóknun verði veitt þeim, sem umsjónina hefir. Þessi þóknun er að eins 50 aurar fyrir hvert býli, sem vátrygt er. Hún áleit rjett að hafa gjaldið ekki hærra, því að hún bjóst við, að hreppsfjelögin vildu síður sinna málinu, ef þau sæju, að það bakaði sveitarsjóði töluverð útgjöld.

Þá þótti nefndinni rjett, að það kæmi skýrt fram, að aðalreglan væri sú, að oddvitarnir hefðu þetta starf með höndum, því að bæði eru þeir kunnugastir öllum ástæðum í hreppnum, og auk þess einu mennirnir í sveitarstjórnum, sem hafa nokkra borgun fyrir störf sín. Og þótt þessi þóknun, sem nefndin leggur til að samþykt verði, sje lítil, þá er hún þó bót frá því, sem er.

Nefndin hefir enn fremur talið rjett, að þessi breyting, ef hún gengur fram, verði færð inn í lagatextann, svo að hann myndi eina heild. Er það miklu þægilegra þeim, er nota þurfa lögin, sjerstaklega ef það eru alþýðumenn.

Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um þetta mál, ef mjer gefst ekki sjerstakt tilefni til, en að eins óska, að það verði látið ganga til 3. umr.