18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

35. mál, stefnufrestur

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg get verið mjög stuttorður að þessu sinni. Allsherjarnefnd hefir haft frv. þetta til meðferðar, og leggur til, að það nái fram að ganga. Nefndin hefir að vísu gert tvær brtt. við frv., en engin ástæða er til að fjölyrða um þær. Önnur breytingin er að eins til skýringar. Málsgrein sú, sem lagt er til að bætt verði við 2. gr., stóð áður í athugasemdunum við frv. En nefndinni þótti tryggara að taka hana upp í lagatextann, til þess að girða fyrir allan misskilning. Hin brtt. ákveður skýrar stefnufrest fyrir gestarjett og breytir honum, þar sem farið er fram á, að stefnufresturinn verði aldrei lengri en 6 vikur, ef varnaraðili dvelur hjer á landi, og eigi lengri en 6 mánuðir, ef hann dvelur erlendis. Við nánari athugun fanst nefndinni nauðsynlegt að setja þessi takmörk. Borið saman við almennan stefnufrest, er fresturinn til gestarjettarstefnu nokkuð stuttur. En það er í samræmi við gamla dómsvenju, því að svo er til ætlast, að þau mál, sem stefnt er fyrir gestarjett, sjeu fljótar afgreidd en önnur.

Vera má, að sumum þyki 6 vikna frestur ofskammur hjer á landi. En þess ber að gæta, að þegar senda þarf stefnuna með pósti langa leið, getur hún oft tafist á leiðinni. En þar sem stefnu skal birta á heimili hins stefnda, verður fresturinn auðvitað reiknaður frá þeim degi, sem stefnan er þar birt. Nú veit stefnandi eigi, hversu langt kunni að líða frá útgáfu stefnu til birtingar, og verður því til örygðar að setja frestinn rúman, til þess að vera þess viss, að stefnan verði eigi of seint birt og stefnufrestur því ofskammur.

Til samanburðar má geta þess, að lengsti stefnufrestur til landsyfirdóms er 6 vikur. Verði fresturinn í einstöku tilfellum samt ofstuttur, svo að stefndur geti ekki mætt fyrir rjettinum, þá verður ráðin bót á því, ef frv. til laga um stefnubirtingar, sem útbýtt er hjer í deildinni í dag, nær fram að ganga, þar sem hinum stefnda er heimilað að koma fram vörnum sínum fyrir æðra dómi, eða láta taka málið upp að nýju.