30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Björn Stefánsson:

Það er ekki gustuk að lengja umræður úr þessu, og lýsi jeg yfir því, að jeg mun hætta að tala um nokkra liði fjárlaganna eða brtt., sem jeg hafði ætlað mjer að minnast á; en að eins svara háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) nokkru.

Háttv. þm. (M. Ó.) kvaðst heldur hafa viljað beygja sig fyrir meiri hluta nefndarinnar en gera ágreining í þessu. Það er ekki heldur það, sem jeg ásaka hann fyrir, heldur hitt, að hann skyldi láta það við gangast, að þessari harðdrægni væri beitt við atriði, sem snertir sjávarútveginn.

Háttv. þm. (M. Ó.) sagði, að sjer væri ekki sjerlegt kappsmál, að till okkar þm. S.-M. á þgskj. 642 gengi fram að þessu sinni. Mig furðar á þessu, því að jeg bjóst við, að hann, þessi aðalsvaramaður sjávarútvegsins, mundi styðja allar þær tillögur, sem snerta sjávarútveginn, og miða að því að efla hann og tryggja. Af því, að jeg hafði þetta traust á honum, átti jeg nokkum þátt í því, að hann komst í fjárveitinganefnd. Vænti jeg þess, að með því væri fyrir því sjeð, að sjávarútvegurinn ætti ötulan málssvara í þeirri nefnd. Háttv. þm. (M. Ó.) kvað það ekki muna miklu, hvort viti þessi væri tekinn í fjárlög nú eða næstu fjárlög. Það munar þó alt af um tvö ár, og getur margt tjón hlotist af vitaleysinu á þeim tíma, enda ekki einu sinni víst, að hann verði settur í næstu röð. Ein ástæða háttv. þm. (M. Ó.) móti tillögunni var sú, að hann vildi ekki, að meira væri lagt til vita á þessu fjárhagstímabili en þegar væri ákveðið. Nú erum við sammála um það, að landið skuldi vitasjóði stórfje, þar sem það hafi haft miklu meiri tekjur af vitunum en því nemur, sem það hefir lagt fram til þeirra. Hvernig sem á er litið fundust mjer aðgerðir hv. þm. (M. Ó.) koma úr hörðustu átt.

Háttv. þm. (M. Ó.) kvaðst ekki vita, hvers vegna stjórnin hefði tekið út úr þennan vita, sem hjer ræðir um, en taldi víst, að það hefði verið gert í samráði við vitamálastjórann. Jeg held, að það hafi varla verið, heldur muni stjórnin hafa gert það af eigin hvötum, þótt jeg viti ekki, hvað henni hefði átt að hafa gengið til þess, nema ef vera skyldi, að hún hefði vænt þess, að Austfirðingar mundu una því betur en aðrir að vera hafðir út undan; þeir væru, hvort sem væri, því svo vanir.

Hv. þm. (M.Ó.) talaði um, að skipskaðar væru færri á Austurlandi en annarsstaðar hjer við land. Jeg hef ekki í höndum mjer skýrslur til að hrekja þetta með, en efast þó stórum um, að þetta sje rjett, að tiltölulega færri skip farist þar en annarsstaðar. Um vjelbáta getur þetta rjett verið, en það stafar af því, að þar eystra er ekki vertíð í háskammdeginu. Háttv. þm. (M. Ó.) vefengdi það, sem jeg sagði, að ekki væru nema 3 vitar við Austurland; hann tilnefndi hinn 4., en þess er að gæta, að sá viti getur ekki, nema ef vera skyldi að hálfu leyti, talist til Austfjarðavita. En fyrst að okkur ber ekki á milli nema um hálfan vita, tekur það því ekki að gera mikla rekistefnu út af því.