06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal leyfa mjer að geta þess gagnvart háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að það er að minni meiningu ekki lítil breyting á frv., sem allsherjarnefnd hefir gert; hún hefir gerbreytt dómaraembættinu og gert miklu auðveldara að gegna því en til var ætlast í sjálfu frv. Það, sem við deildum um við 1. umr. málsins, var ekki eingöngu um sjálfa skifting bæjarfógetaembættisins, heldur og um önnur atriði, sem standa í sambandi við hana. Jeg staðhæfði, að það væri ekki verulega ljett störfum á dómaranum, ef lögreglustörfin ættu að heyra undir hann.

Jeg gat þess áður, að það mætti ekki bera saman laun þeirra, sem hefðu mikla peningaábyrgð, og hinna, sem ættu hreinum dómarastörfum að gegna; og því stingur það eigi mjög í stúf, þótt bæjarfógetinn í Reykjavík hafi haft hærri laun en yfirdómararnir.

En nú, þegar stofna á hreint undirdómaraembætti með 5500 kr., þá finst mjer það naumast fært, nema launum yfirdómaranna sje þá breytt um leið.

Það kom til tals hjá stjórninni að uppfylla fyrirheit það, sem jeg tel yfirdómurunum hafa verið gefið um launahækkun; en þó varð ekki af því, að hún bæri fram tillögu um það; henni þótti varúðarvert að fara að breyta til frambúðar launum embættismanna, meðan verðgildi peninga er á jafnmiklu reiki sem nú.

Að öðru leyti tel jeg laun þau, sem háttv. nefnd hefir sett, hæfileg, og álít rjett að samþykkja allar brtt. hennar.