30.08.1917
Neðri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Matthías Ólafsson:

Það er leitt, að háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) skuli ekki geta skilið ástæður mínar fyrir framkomu minni. Það er misskilningur hjá háttv. þm. (B. St.) á stöðu minni, ef hann telur það skyldu mína að framfylgja öllum tillögum og kröfum, sem kunna að koma fram frá sjávarútvegsmönnum, hve ósanngjarnar sem þær kunna að vera, eða hversu mjög sem þær kunna að ríða í bág við kröfur annara sjávarútvegsmanna eða hagsmuni sjávarútvegsins í heild sinni.

Jeg vil ekki, að rjettur sjávarútvegsmanna sje fyrir borð borinn, og að því mun jeg stuðla eftir megni, að svo verði eigi, en jeg vil þó eigi, að öðrum atvinnuvegum sje traðkað, og einkum vil jeg reyna að hafa heildaryfirlit yfir hagsmuni alls landsins, en ekki eingöngu einstakra hjeraða, og á ferðum mínum hefir mjer tekist að ná því að nokkru, að því er sjávarútveginn snertir, og mun jeg með atkvæði mínu jafnan reyna að fylgja því, er jeg tel til mestra hagsmuna fyrir sem flesta, því að jeg tel mig fyrst og fremst þingmann alls landsins, en ekki einstaks hjeraðs eða einstakrar atvinnugreinar, þótt jeg af eðlilegum ástæðum leggi mest til málanna um þann atvinnuveginn, sem jeg þekki best og mál þess hjeraðs, sem jeg er kunnugastur í og kosinn fyrir.

Enn eru t. d. ekki komnir nema 2 vitar á Vestfjörðum, en jeg fæst ekki svo mjög um það, meðan jeg veit, að annarsstaðar er hættan meiri og vitaþörfin enn ríkari.

Háttv. þm. S.-M. (B. St.) heldur því fram, að hættan sje jafnmikil við Austurland sem annarsstaðar, þótt hann geti ekki fært full rök, og ber því við, að hann hafi ekki getað rannsakað skýrslur um það. En það er sama, hvað mikið sem hann rannsakar, þá getur hann aldrei fært sönnur á það. Strönd hafa verið fátíð við Austurland, og hefir þó fjöldi franskra fiskiskipa verið þar að veiðum. Aftur hlýtur háttv. þm. (B. St.) að vita eitthvað um, hvílíkur fjöldi skipa hefir strandað við suðurströnd landsins, og eins getur honum ekki verið ókunnugt um, hvílíkt gagn er að því að hafa þar vita. Þá hafa þau ekki heldur verið fátíð, ströndin, hjer við Mýrarnar.

Það er satt, að landssjóður mundi vera í skuld við vitasjóð, ef vitagjöldunum hefði verið haldið út af fyrir sig, og reikningar gerðir upp milli þeirra sjóða. En jeg hefi aldrei ætlast til, að landssjóður borgaði beinlínis það fje út, en tel það nægja, að landssjóður ábyrgist það lán, sem þarf til vitabygginga, og sjái um borgun þess. Jeg ætla ekki að svara háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) miklu. Flest, sem hann sagði út af ræðu minni, var bygt á helberum miskilningi. Jeg trúi því ofurvel, að háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) viti ekki mikið um safn þetta; hann hefir líklega haft lítið fyrir að kynna sjer það, enda óvíst, hvort hann ber fult skyn á að dæma um verðmæti þess, og það getur verið vorkunnarmál, því að það mun ekki á allra færi; en hitt ætti háttv. þm. (E. J.) að vera vorkunnarlaust að skilja, að ekkjunni muni ekki standa það á sama, að safn þetta dreifist eða sje selt úr landi, þar sem maður hennar hafði lagt jafnmikið í sölurnar sem hann gerði, bæði af fje og tíma, til að koma því upp, og óskaði þess, að það geymdist ósundrað hjer í landi, öðrum til gagns. Vilji háttv. þm. (E. J.) skilja þetta, þá mun hann heldur óska þess, að landið njóti þess en aðrir, jafnvel þótt hún fái minna verð fyrir það en hún gæti fengið. Hins vegar er hún langt frá svo efnum búin, að hún geti gefið það með öllu.

Þegar háttv. 2. þm. Rang, (E. J.) athugar þetta, hygg jeg, að hann þurfi engan kinnroða að bera, fyrir hönd landsins nje sína eigin, fyrir að þiggja þessa gjöf, sem hann er að tala um, og betur, að hann ljeti aldrei blekkjast meir en þótt hann fylgi tillögum mínum í þessu máli, því að eftir dómi þeirra, sem gott skyn bera á, er hjer um mjög merkilegt og torfengið safn að ræða.