27.08.1917
Efri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

37. mál, skipting bæjarfógetaembættisins í Reykjavík

Frsm. (Hannes Hafstein):

Eins og tekið er fram í nefndarálitinu hefir sú niðurstaða orðið hjá nefndinni, að ráða háttv. deild til að samþykkja frv. með nokkrum breytingum.

Nefndin kannast við það, að æskilegt sje, að sjerstök tollgæsla komist á í Reykjavík, og því leggur hún til, að þessi skifting nái fram að ganga.

Nefndin er á einu máli um, að eigi hæfi að sæma embættismenn þessa minni launum, 5000 kr. hækkandi upp í 6000 kr. á ári, en farið er fram á í frumvarpinu, enda er það ekki hátt launað, ef litið er á það, hve miklu laun bæjarfógetans í Reykjavík hafa numið hingað til. Eins og sjest á sundurliðun þeirri, er fylgir áliti Nd. nefndarinnar, hafa árstekjur bæjarfógetaembættisins komist upp undir 30 þús. kr.

En nú þegar nefndin fór að athuga launin, fanst henni bæði sjálfsagt og rjett að bæta úr hinu skammarlega ranglæti, sem yfirdómendur landsins hafa átt við að búa. Það er margendurtekið og margviðurkent, að laun þeirra sjeu altof lág, og að úr því beri að bæta. Síðan 1889 hafa yfirdómendurnir setið við 3500 kr. árslaun, og það má heita, að það væri viðurkent strax eftir setningu laganna 1889, að þetta væru ranglát laun — altof lág. Og síðan hafa peningar fallið mikið í verði. Og það verða allir að viðurkenna, að það er óheppilegt, að yfirdómendum landsins sje ekki launað svo, að þeir geti verið efnalega sjálfstæðir.

Þegar nefndin fór að athuga þetta frv., fanst henni það naumast vera skammlaust að setja á fót tvö dómaraembætti, þar sem dómara og tollstjóra væru ætluð nærfelt helmingi hærri laun en yfirdómendunum.

Henni fanst, að hún gæti það trauðla, og að lækka launin frá því, sem háttv. Nd. lagði til, taldi nefndin ekki rjett vera.

Jeg vænti þess, að allir háttv. þm. hafi kynt sjer brtt. nefndarinnar um þetta. Breytingin felst í 2. tillögu nefndarinnar, um að bæta nýrri grein framan við frv., þar sem laun háyfirdómarans eru ákveðin 6000 kr., hækkandi upp í 7000 kr. á ári, og laun meðdómaranna 5000 kr. á ári, hækkandi upp í 6000 kr.

Að öðru leyti gera brtt. nefndarinnar engar efnisbreytingar á frv., eins og það kom frá háttv. Nd., en eru að eins formlegs efnis, og miða jafnframt að því að skýra orðalag og ákvæði frv.