12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

43. mál, alidýrasjúkdómar

Stefán Stefánsson:

Af því að jeg er meðflytjandi að þessu frv., vil jeg fara um það nokkrum orðum. Síðan lög þessi gengu í gildi hefi jeg fengist við að safna skýrslum í mínum hreppi, en hversu vel sem jeg hefi viljað gera þær úr garði, þá hefir mjer verið það ljóst, að fremur lítið hefir verið á þeim að byggja, og þar afleiðandi leitt að verða að senda þær frá sjer, enda mun það alment vera svo, að bændur hafa enga minstu trú á skýrslugerðinni, og það af þeirri einföldu ástæðu, að í mörgum tilfellum vita þeir ekki, hvað að skepnunni gengur, hvort sem hún lifir eða deyr. (P. J.: Þetta er rangt; í flestum tilfellum geta þeir sagt um það). Í mjög mörgum tilfellum geta þeir ekkert um það vitað. Það er nú líka svo komið, að full vissa er fengin um það, að dýralæknarnir kynna sjer ekki hið allra minsta skýrslurnar, og þegar svo er jafnvel um þann dýralækninn, sem mest hefir hvatt til eða unnið að því, að lögin yrðu sett, þá er ekki að furða sig á, þótt almenningur leggi litla rækt við og hafi litla trú á slíku lagaákvæði sem þessum sjúkdómsskýrslum. Þegar svo er komið, er full ástæða til að hætta við þetta, — jeg vil segja »humbug«, — að safna skýrslum í mörg ár um alt land, hlaða þeim í bunka, sem enginn lítur á og ekkert er á að græða. Jeg skal játa með háttv. þm. S -Þ. (P. J.), að þetta er illa farið. En það er skiljanlegt, að skepnueigendur viti ekki, hvað þeir eiga að segja um eitt eða annað sjúkdómstilfelli, en þar sem það er þó eini grundvöllurinn, sem á er að byggja, þá er það sjáanlegt, að þetta hefir frá upphafi verið fásinna.

Jeg er því eindregið þeirrar skoðunar, að þessu beri ekki að halda lengur áfram, og því fyr sem lögin eru afnumin, því betra. Af fullri sannfæringu fyrir þessari skoðun minni hefi jeg gerst meðflutningsmaður að frumvarpinu.