07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

43. mál, alidýrasjúkdómar

Frsm. (Stefán Stefánsson); Eins og sjá má á áliti landbúnaðarnefndar þá kannast hún við, að torvelt hafi verið að safna ábyggilegum skýrslum um sjúkdóma alidýra, og að þær skýrslur, sem til eru, sjeu gagnslitlar og að engu leyti ábyggilegar, sem byggist á því, að menn alment hafa svo nauðalitla þekkingu á sjúkdómum alidýra. Þegar svo er, að þá nauðsynlegu þekkingu vantar hjá þeim, sem eiga að leggja undirstöðuna til þessa fróðleiks, þá er það auðsætt, að þessi tilhögun er algerlega ófullnægjandi til að byggja á hagfræðiskýrslur fyrir framtíðina. En um leið og nefndin kannast við þetta, þá leggur hún þó til, svo að bætt verði úr þessu að nokkru leyti, að stjórnin skipi dýralæknum landsins fyrir um að afla sjer upplýsinga um helstu alidýrasjúkdóma í umdæmum sínum, og sendi hagstofunni árlega skýrslur um heilbrigðisástandið, bæði eftir sinni eigin reynslu um þá sjúkdóma, er þeir hafa við fengist, og eins um þá sjúkdóma í umdæminu, er þeir hafa fulla vissu um. Hefir mjer sjerstaklega dottið í hug, að heppilegt mundi vera og allábyggilegt, að þeir leituðu til eftirlitsmanna kúaræktarfjelaganna um sjúkdóma á nautgripum, og þeirra, er vinna að bólusetning á sauðfje, um sjúkdóma á því. Þessir menn ættu að vera því nákunnugir, hver reynslan væri á því sviði, er þeir hafa aðallega með höndum, og skýrslum þeirra þar af leiðandi vel treystandi. Dýralæknaskýrslur með þessum undirbúningi ættu að geta gefið ábyggilegt yfirlit, að því sem það nær til, og vill því landbúnaðarnefndin ráða til þess, að þær verði sendar hagstofunni. Þetta áleit nefndin að væri eina leiðin til að kasta ekki málinu frá sjer, án þess aðhafa sýnt því viðurkenningu, sem það þó í sjálfu sjer á skilið.