08.09.1917
Neðri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

55. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Frv. þetta hefir tekið miklum breytingum frá því að það lá hjer fyrir hv. deild. Eru þær mest sprotnar af því, að síðan hafa komið fram frv. um símamál, sem vísað hefir verið til nefndarinnar, bæði frá háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), þm. Mýra. (P. Þ.) og símastjóra. Auk þess höfðu nefndinni borist ýms álitsskjöl þessu viðvíkjandi. Nefndin vildi láta allar breytingar, sem gerðar væru á þessu þingi á símalögunum, koma fram í einu frv. Innihald laga nr. 52, 3. nóv. 1915, er að ýmsu leyti orðið óþarft, og þótti því nefndinni rjett að taka það, sem eftir stendur af þeim, upp í frv. sitt. Öll lagaákvæði um símamál verða því að finna í símalögum frá 1913 og, í þeim breytingum, sem þetta þing gerir á þeim.

Fyrsta brtt. nefndarinnar er við 2. gr. símalaganna frá 1913. Nefndin vill bæta við tveim nýjum línum, annari milli Hjarðarfells og Borgarness, en hinni milli Víkur í Mýrdal og Hornafjarðar. Hvortveggja till. er gerð með eindregnum meðmælum símastjóra. Línan milli Borgarness og Hjarðarfells mun liggja um fjölmennar sveitir, og er nauðsynleg vegna sambandsins við Vesturland. Hvað snertir hina línuna, þá hefir hún lengi verið fyrirhuguð og er nauðsynleg til þess, að sambandið milli Suður- og Austurlandsins verði örugt og gott. Þessi lína verður dýr, og talsvert af henni liggur um óbygðir, en eftir áliti símastjórans er ekki meiri hætta á símaslitum þar en annarsstaðar.

Þá er brtt. við 4. gr. símalaganna. Þar er frv. á þgskj. 194 tekið upp. Í staðinn fyrir: »Borgarfjarðar um Sandaskörð«, eins og stendur í lögum frá 1915, á að koma: Unaóss og Borgarfjarðar austur. Þá mun línan liggja lengur um bygð og yfir skemri fjallveg. Línan er öruggari, en kostnaðarauki verður þó mjög lítill. Það er eindreginn vilji nefndarinnar, að þessi breyting verði gerð.

Það hefir þegar verið veitt heimild í fjáraukalögum til að veita fje til línunnar frá Borgarnesi til Svignaskarðs. Það er álit símastjóra, eftir því sem nefndinni var tjáð, að þessa línu eigi að leggja á landssjóðskostnað. Hún er nauðsynleg fyrir ferðamenn, sem fara á milli Norður- og Suðurlandsins. Þeir þurfa að vita, hvað bátsferðum líður á milli Borgarness og Reykjavíkur. Væri ferðamönnum gott að geta beðið uppi í sveitinni, þar til að þeir þyrftu að fara niður í Borgarnes, til að komast með bátnum, því að í Borgarnesi er oft svo þröngt í kringum bátsferðir, að menn geta ekki fengið gistingu. Það heyrist nú á símastjóra, að það hafi aldrei verið tilætlunin, að landssjóður kostaði alveg þessa línu. Verður það því að vera samningsmál á milli sveitarstjórnar og símastjóra.

Sú breyting var gerð í Ed., að á eftir Súgandafirði — Reykjarfirði komi Trjekyllisvík. Nefndin vill ekki leggja til, að línunni verði haldið áfram til Ingólfsfjarðar, þó að búast megi við því, að þar komi upp síldveiðistöð, því að búast má við, að Norðmenn, sem hefja síldveiði þaðan, leggi sjálfir þangað síma.

3. gr. í frv. nefndarinnar er breyting á 5. gr. símalaganna. Inn í gr. bætist: og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir. Nefndin vill, að það komi greinilega fram í lögunum, að stjórninni sje heimilt að gera ýmislegt, sem nauðsynlegt er til þess, að starfræksla símans sje í góðu lagi. T. d. má nefna kaup á varasæsíma og símamótorskipi. Það hefir komið í ljós fyrir skömmu, að hvorttveggja er nauðsynlegt.

4. gr. er brtt. við 6. gr. símalaganna. Þar er heimilað að reisa litlar þráðlausar firðviðskiftastöðvar. Getur það verið nauðsynlegt til að koma ýmsum landshlutum í samband við símakerfi landsins, eða til þess, að hægt sje að ná sambandi við skip á sjó. Það var álit nefndarinnar, að hina fyrstu slíkra stöðva ætti að reisa í Flatey á Breiðafirði.

Þá er 5. brtt. Á eftir orðunum »samkvæmt 5. gr.« í 7. gr. símalaganna komi: (að undanskildum 8. og 9. lið 2. greinar). Það á við nýju liðina, sem bætt var við fyrsta flokks símalínurnar. Ætlast er til, að þær línur verði lagðar fyrir lánsfje. Þessar línur geta því ekki dregið úr 2. og 3. flokks samböndum, sem lögð eru fyrir afgangsfje starfrækslu símans.

Landssímastjórinn hafði ýmislegt við frv. á þgskj. 357, eins og það var samþykt í Nd., að athuga. T. d. það, að felt er burt úr 9. gr. ákvæði um ábyrgð sveitarstjórna á starfrækslu símastöðva. En auðvitað verður þetta ákvæði að standa meðan það er í lögum, að hreppar kosti starfræksluna að einhverju leyti. Landssímastjóri vildi ekki, að sett væri ákveðin regla um, að landssíminn skuli altaf greiða hálfan rekstrarkostnað 3. flokks stöðva. Ef þetta ákvæði væri sett, og því fylgt bókstaflega, þá myndu sumar sveitir verða að greiða hálfan rekstrarkostnað af þeim stöðvum, sem landssjóður kostar nú að öllu leyti, og aftur eru aðrar, sem sama sem engar tekjur gefa. Þetta taldi nefndin betra að jafna, og mætti ekki taka algerlega fram fyrir hendurnar á stjórninni um það. Rekstrarkostnað stöðva, sem settar eru eingöngu til eftirlits með símanum, taldi hann að landssjóður ætti að greiða allan. Nefndin fjellst á þessar till. hans, og hefir tekið þær upp í frv. sitt, enda er stefnunni ekki haggað frá því sem áður var.

Það hefir komið fram í umræðunum um þetta mál, að forgangssamtölin, sem farin eru að tíðkast, væru eingöngu komin á fyrir einræði landssímastjóra. Jeg vil geta þess, að hann ber á móti því, að þetta sje rjett hermt í sinn garð. Stjórnin hefir samþykt, að svo skuli það vera. Líklegt er, að þetta sje rjett hermt, en áherslu verður að leggja á það, að þetta sje ekki misbrúkað, svo að neinum verði skaði að.

Allar brtt. eru samkvæmt einróma áliti samvinnunefndar samgöngumála, og væntir hún þess, að þeim verði vel tekið.