01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

60. mál, kynbætur hesta

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg get verið mjög stuttorður um mál þetta. Landbúnaðarnefndin, sem fjallaði um það, leggur til að gera á frv. um kynbætur hesta 2 ofurlitlar breytingar. Jeg geri ráð fyrir, að menn hafi áttað sig á þessum breytingum og þyki þær sjálfsagðar. Fyrsta brtt. er við 1. gr. og önnur brtt. við 2. gr. — Eftir 1. gr. og breytingartillögunni, verði hún samþykt, verður aðalreglan að banna lausagang graðhesta eldri en l½ árs, en heimila þó undantekningar með þá graðhesta, sem ætlaðir eru til kynbóta eða undaneldis.

Önnur brtt. er að eins í því fólgin, að í stað þess, að sektirnar eru í frv. ákveðnar alt að 100 kr., skuli lágmark þeirra vera 10 kr. og hámark 100 kr., er renni í sveitarsjóð.

Jeg vænti þess, að háttv. deild samþykki frv. og brtt. Og segi jeg svo ekki meira um þetta að sinni.