29.05.1918
Sameinað þing: 2. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

45. mál, útsæði

Pjetur Jónsson:

Það hefir ekki orðið mjög mikill ágreiningur milli bjargráðanefnda deildanna. Það er að eins um 3. lið þingsályktunartill., að nefndirnar hafa ekki getað orðið sammála. Nefndin í Nd. vildi, að landsstjórninni væri falið að útvega útsæði í tíma, svo að menn úti um land gætu fengið það í tæka tíð og lenti ekki í eindaga með útvegunina, þegar komið væri fram á vor. Þess vegna þótti nefndinni rjettast, að útsæðið væri útvegað að haustinu. Þetta vildi bjargráðanefnd Ed. ekki fallast á að væri nauðsynlegt. Og þó er það öllum vitanlegt, að það útsæði, sem fæst frá útlöndum síðari hluta vetrar og á vorin er tæpast notandi, því að það er ekki valið sem útsæði, heldur almennar kartöflur seldar holt og bolt. (E. A.: Hvaða verslun er það?). Verslun landsins. (E. A.: Nú —heitir hún holt og bolt?). Auk þess er hæpinn flutningur á þeim að vetrarlagi, vegna frosta, og of seint að fá þær að vorinu.

Í sambandi við þetta ályktaði bjargráðanefnd Nd., að þurfa mundi að byggja geymsluhús, og vildi láta verja fje úr landssjóði til þess. Vitanlega var ekki ráð fyrir gert, að það yrði stórhýsi, heldur að eins tryggur skúr með kjallara undir. En þennan kostnað vill Ed. nefndin ekki heldur leggja út í. Hún vill láta við það sitja, að stjórnin útvegaði útsæði, ef fram kæmi skortur á því síðari part vetrar. En þetta álítur Nd. nefndin geta orðið mikið of seint, eins og erfitt er nú með aðflutninga frá útlöndum. Nefndin hefir því komið fram með brtt. á þgskj. 247, sem fer bil beggja. Með henni er mælt svo fyrir, að stjórnin sjái um að afla innlends eða útlends útsæðis af bestu tegundum til geymslu, til frekari tryggingar því, að ekki verði útsæðisskortur í landinu. Nefndin álítur þetta ákvæði nauðsynlegt, til þess að hafa einhvern forða fyrirliggjandi, en þar með er ekki meint, að fara eigi að safna hjer meginhlutanum af því, sem landið þarf með af útsæði, á einn stað, heldur sje þetta að eins tryggingarforði.

Jeg geri ráð fyrir, að stjórnin beri ráð sín um það, sem gert verður í þessu máli, saman við Búnaðarfjelag Íslands, þar sem það er kunnugast kringumstæðum. Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um málið.