15.05.1918
Neðri deild: 23. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

49. mál, styrkur og lánsheimild til flóabáta

Sigurður Stefánsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með viðaukatill. á þgskj. 132. Jeg skal geta þess, að hún er ekki svo greinilega orðuð sem hefði átt að vera; það hefði farið betur, að þar hefði staðið: Aftan við 1. lið bætist.

Jeg skal þá fyrst geta þess, að jeg hefði ekki komið fram með þessa till. ef ekkert hefði verið hreyft við þessum flóabátum hjer á þinginu, en úr því að það er svo komið, og lítur út fyrir að hafa góðan byr hjer, þá þótti mjer rjett að koma með þessa viðaukatill, og skal jeg skýra frá í stuttu máli, hvað því veldur. Eins og menn vita, er styrkurinn til báts á Ísafjarðardjúpinu 7.500 krónur, og er útgerðarmanni bátsins, sem er „privat“-maður, gert að skyldu að flytja jafnan póstinn með bátnum milli Arngerðareyrar og Ísafjarðar. Síðastliðinn vetur teptust 2 ferðir um Djúpið, sökum ísalaga, en á síðasta sýslufundi kom brjef um það frá stjórnarráðinu, að Djúpbátsnefndinni, er semur um ferðir bátsins við útgerðarmanninn, væri skylt að annast um póstflutninginn er bátaferðirnar teptust af óviðráðanlegum orsökum, eins og í vetur. Það er með öðrum orðum, að Djúpbátsnefndinni er eftir þessu gert að skyldu að greiða kostnað við að flytja póstinn milli Ísafjarðarkaupstaðar og Arngerðareyrar, þegar báturinn getur ekki farið vegna íss. Eins og menn vita, hefir stjórn bátsins ekkert annað fje í höndum en það, sem þingið leggur til, en á hinn bóginn var búið að semja við bátseigandann um ferðirnar þetta ár, svo að ekki var hægt að skylda hann á neinn hátt til að borga þennan kostnað, þar sem svo er ákveðið. Þessar bátsferðir eru beint skilyrði fyrir því, að almenningur þar vestra komi frá sjer búnaðarafurðum sínum og nái í kaupstaðarvörur; gildir þetta ekki að eins um Ísafjarðarsýslu innanverða, heldur og um nærsveitirnar í Stranda- og Barðastrandarsýslum. En styrkur sá, er báturinn nú hefir, er, eins og nú er ástatt, alveg ónógur, enda hefir útgerðarmaðurinn nú upp á síðkastið haft mjög litlar „netto“ tekjur af ferðunum, og því minni ef hann verður að kosta flutning á landpóstinum frá Ísafirði að Arngerðareyri þegar báturinn teppist.

Jeg skal að lokum geta þess, að jeg hefi ekki borið þetta mál undir samgöngumála- eða fjárveitinganefndir deildarinnar, en jeg vil ekki knýja það svo fast fram, að þær á nokkurn hátt verði hindraðar frá að athuga það.