24.06.1918
Neðri deild: 54. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg verð að taka í sama strenginn og hæstv. forsætisráðh. og óska þess, að málið verði tekið út af dagskrá og látið bíða, þangað til fullreynt er, hvort ekki er hægt að koma á samkomulagi. Í háttv. Ed. komu líka fram raddir um þetta saa, að ráða málinu ekki til lykta fyr en í þinglok, og voru þær rökstuddar á sama hátt og hæstv. forsætisráðh. gerði í ræðu sinni, að komið gætu fram ýmsar breytingar, eftir því sem tíminn liður, sem vert væri að taka til íhugunar.

Jeg hefi þegar farið mörgum orðum um þetta mál, bæði í þessari hv. deild og hv. Ed. Jeg ætla því ekki að bæta við langri ræðu að þessu sinni. Hún mundi verða að miklu leyti endurtekning á því, sem jeg hefi áður sagt.

Viðvíkjandi tillögunum, sem fyrir liggja, vildi jeg leggja það til, að frv. yrði aftur fœrt í það horf, sem það var í, er það fór frá þessari háttv. deild, en tekin út lánsheimildin, sem Ed. setti inn í það.

Að því er snertir till. meiri hl. bjargráðanefndar og ástæður þær, sem háttv. frsm. (S. St.) færði fyrir þeim í ræðu sinni, þar sem hann sagði, meðal annars, að lánaleiðin væri rjettmætari en gjafaleiðin, þá get jeg vísað til þess, sem jeg hefi sagt í háttv. Ed. Jeg get með engu móti litið svo á, að komið geti til mála, að kalla það fátækrastyrk til þjóðarinnar, þótt landssjóður veiti þessa dýrtíðarhjálp. Þá hefði líka, eins og hæstv. forsætisráðh. tók fram, verið ástæða til þess að kalla það fátækrastyrk, þegar niðurfæralan á kolaverðinu var veitt í fyrra. Jeg hefi ekki orðið var við það, að neinn hafi tekið það í mál. Þessi leið er líka farin hjá öðrum þjóðum, t. d. hjá Dönum. Þeir hafa veitt dýrtíðarstyrk, vissa upphæð á mann í sveitarfjelögunum, og bæði þar og annarsstaðar hefir verið veitt niðurfærsla á vörum, t. d. smjöri, en hvergi hefi jeg orðið þess var, að þessi hjálp hafi verið kölluð fátækrastyrkur. En jeg tel heppilegra fyrir sveitarfjelögin að fá ákveðna upphæð, þótt ekki sje fullnægjandi, heldur en að binda sig í skuldasúpu, sem tvísýnt er um, hve nær þau geta leyst sig úr.

Háttv. frsm. (S. St.) var að bera hallærishjálpina núna saman við hallærishjálpina, sem veitt var árin 1880—88. Jeg lít nú svo á, að hagur landsins sje, þrátt fyrir alt, betri nú en hann var þá. En jeg skal ekki fara frekar út í það. Þá hjelt hann (S. St.), að ef haldið væri inn á styrkleiðina, þá mundu efnamennirnir leggja kapp á að ná í styrk handa sveitarfjelögunum, til þess að ljetta útgjaldabyrði af sjálfum sjer. Jeg álít að niðurstaðan yrði alveg öfug. Til þess að ná í landssjóðsstyrkinn, verða sveitarfjelögin að leggja á sig meiri byrði en venjulega. Þessi aukna byrði kemur að sjálfsögðu þannig niður, að hærri upphæð verður að jafna niður eftir efnum og ástæðum. Hún lendir því aðallega á efnamönnunum. Mjer þykir ólíklegt, að þeir vildu fara að stuðla að því, að jafnað væri niður hærri upphæð. Jeg get ekki skilið það.

Jeg verð að líta svo á, að hjálpin, sem frv. fer fram á, sje svo takmörkuð, sem frekast er unt. Og landssjóður getur betur staðið sig við, að veita svo takmarkaða hjálp en að binda sig við að lána, eftir því sem þörf gerist. Lánaleiðin er alls ekki heppileg frá landssjóðsins sjónarmiði.

Jeg ætla svo ekki að bæta fleiru við það, sem jeg hefi áður sagt. En jeg vildi óska þess, að málið yrði tekið út af dagskrá að þessu sinni, og reynt að finna einhverja leið, sem þingið gæti sameinað sig um. Jeg segi ekki, að það sje örvænt um, að hægt sje að finna einhverja leið.