24.05.1918
Efri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

49. mál, styrkur og lánsheimild til flóabáta

Halldór Steinsson:

Til Breiðafjarðarbáts voru áætlaðar 18.000 kr. í þá 7 mánuði, sem ætlast var til að hann gengi. En þegar til kom, varð hann að halda uppi ferðum alt árið, því að á þessum tíma kom ekkert skip frá Eimskipafjelagi Íslands eða landsstjórninni inn á Breiðafjörð. Af þessu leiddi, að báturinn tapaði miklu fje. Vetrarferðirnar voru erfiðar og óhagstæðar vegna illviðra og ísalaga. En með þeim varð þó komið í veg fyrir bjargarskort, sem annars hefði leitt af samgönguleysinu. Hefði landsstjórnin átt að halda uppi ferðum á þessum tíma, hefðu þær orðið margfalt dýrari en sá viðbótarstyrkur, sem hjer er farið fram á. Vona jeg því, að háttv. deild sjái, að þetta er ekki nema sanngjarnt endurgjald, og veiti brtt. fúslega samþykki sitt.

Jeg skal geta þess, að stjórn Breiðafjarðarbátsins fór fram á 10.000 kr. styrk, því að þeirri upphæð hafði báturinn tapað á vetrarferðunum. En samgöngumálanefndin sá sjer ekki fært að mæla með nema 8.500 kr. Því meiri sanngirni er þá fyrir háttv. deild að veita þessa upphæð.