15.05.1918
Neðri deild: 23. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

52. mál, rannsókn mómýra

Pjetur Jónsson:

Má jeg geta þess, þó að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sje frsm. í málinu, að nefndin hefir einmitt gert sjer far um að útvega allar þær upplýsingar um rannsókn á mómýrum, sem hún gat, en því miður var ekki farið í stjórnarráðið, vegna þess, að við vissum ekki til þess, að þar hefði nokkur rannsókn fram farið, eða málinu verið hreyft þar. Fyrir mörgum árum hafði einhver mórannsókn á mýrum farið fram hjer, en hún hafði verið mjög lausleg og því óábyggileg í þessu augnamiði. Helgi Jónsson grasafræðingur mun hafa gert rannsóknina í sambandi við aðrar mýrarannsóknir, og hefir hann látið það uppi við nefndina, að hún hefði ekki verið gerð með það fyrir augum, sem hjer er verið að tala um. En um það, sem hæstv. forsætisráðherra talaði um upplýsingar, sem fyrir hendi væru, þá er ekki nema sjálfsagt að nota sjer þær. En jeg er ekki viss um, að fresta þurfi umr. þessari fyrir þá sök.