17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

52. mál, rannsókn mómýra

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer þykir rjett að gera nokkrar athugasemdir út af till., af því að atvinnumálaráðherra er ekki við.

Jeg kynti mjer mál þetta nokkuð við dvöl mína erlendis síðast. Talaði jeg þá við þann mann í Svíþjóð, sem einna mest hefir við mómýrarannsóknir fengist þar og einna mest hefir með þau mál að sýsla þar. Fjekk jeg hjá honum skýrslur um þetta mál, sem jeg álít að geti komið að góðu haldi við athugun þess hjer í þinginu. Þessar skýrslur afhenti jeg atvinnumálaskrifstofunni, og svo hefir hún verið afhent verkfræðingi landsins, og býst jeg við, að nefndin hafi borið sig saman við hann.

Jeg tel rjett að benda á það, að aðferð sú til móvinslu, sem sennilega er hjer höfð fyrir augum, er bundin einkarjetti fjelags eins. Í Svíþjóð var nýlega stofnað fjelag með 7 milj. kr. veltufje, og í ráði var að stofna annað í Danmörku, og eru þau í sambandi innbyrðis. (S. S.: Tillagan fer ekki fram á það). Það er ekki til neins að rannsaka nánara skilyrði fyrir móvinslu með þessum hætti, nema í sambandi við þessi fjelög. En það má vel athuga málið, og hinn sænski maður, er jeg nefndi áðan, var fús til að útvega hingað verkfræðing til þess að rannsaka mómýrar hjer. Maðurinn átti að fást með góðum kjörum, en varla mundi samt unt að gera miklar rannsóknir fyrir 3.000 kr. Þessar rannsóknir mundu samt aðallega miða að því, að komast að einhverri niðurstöðu um mómagn hjer á landi.

Jeg býst við, að nefndinni sje kunnugt um það, að fyrir nokkrum árum var hjer verkfræðingur frá útlendu fjelagi við slíka rannsókn. Þessi maður fór víða um land og komst að þeirri niðurstöðu, að mórinn hjer við Reykjavík og í næstu sveitum er ekki sem best fallinn til móvinslu í stórum stíl. Á Kjalarnesi er að sögn ein mýri með góðum skilyrðum, að öðru leyti en því, að hún er heldur lítil. Í Skagafirði þóttu skilyrðin ekki góð. Einasti staðurinn, sem hann taldi vera líklegan til þess, að hægt væri að setja þar á stofn mókolavinslu í stórum stíl, var á Snæfellsnesi, því að þar var bæði mikill og góður mór.

Mórinn sjálfur er sagður víða óhentugur til slíkrar vinslu.

Jeg vildi að eins skjóta þessu fram til þess að sýna, að ýmsar upplýsingar eru til um málið, sem nefndin hefir ekki aflað sjer eða náð í.

Hvað verkfærunum viðvíkur, efa jeg, að auðvelt sje að fá þau nú. (S. S.: Hve nær ferðaðist þessi verkfræðingur hjer?). Það var fyrir nokkrum árum, en jeg get ekki sagt upp á ár hve nær það var, því að jeg hefi fengið svo óljósar upplýsingar. (P. Þ.: Það var 1911-12).