17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

52. mál, rannsókn mómýra

Pjetur Jónsson:

Háttv. þm. Dala. (B. J ), sem ber fram till. þessa á þgskj. 131, sagði sig úr bjargráðanefnd fyrir annríkis sakir, og hefir ekki borið sig saman við bjargráðanefndina áður en hann bar till. fram. En ef hann hefði gert það, hefði till. áreiðanlega orðið styttri, og hefði hann viljað fara að ráðum nefndarinnar, hefði hann sennilega ekki flutt hana.

Enda þótt till. þessi í heild sje ekki svo löguð, að hægt sje að tala mikið um hana, þá eru þar þó ýms atriði, sem vekja upp það, sem nefndin hefir haft til meðferðar, bæði leynt og ljóst. Skal jeg því minnast á þá einstöku liði.

Í raun og veru hefir bjargráðanefnd haft til athugunar öll þau bjargráð í till, sem verulegu máli skifta.

Ætla jeg þá fyrst að minnast á söl og fjörugrös. Nefndin áleit ekki sjerstaka þörf á að gera neitt í því máli nú, því að hún mintist þess, að þingið í fyrra hafði samþykt þingsályktun um að skora á stjórnina að gera það, sem hægt væri í málinu, og lagði með því, að einum vissum manni væri veitt fje til þess að vinna að því að útbreiða þekkingu í þessum efnum meðal almennings og koma út á prent leiðarvísi um söfnun og hagnýtingu sölva og annara ætiþörunga.

Jeg hefi ekki neitt heyrt um árangurinn af þessu og held ekki, að þingsályktun nú geti hert á þessu máli að gagni. En mjer er kunnugt um, að þessi maður, dr. Helgi Jónsson, hefir skrifað ritgerð um þetta efni í Búnaðarritið, sent út um land ýmsar fyrirspurnir, til þess að afla sjer upplýsinga, og nú heyri jeg, að hann ætli að ferðast í sumar.

Til þess var ætlast, að þetta yrði til verulegs gagns, nú í dýrtíðinni, að þessi maður leiðbeindi mönnum í öflun fjörugrasa, meðferð þeirra og notkun, og má vel vera, að þetta hafi þegar orðið að verulegu gagni, þótt jeg viti ekki til þess. Annars getur skeð, að hæstv. atvinnumálaráðherra gæti gefið upplýsingar um þetta þegar í stað, en jeg hygg það ekki þýða að senda stjórninni frekari áskoranir í sömu átt. (B. J.: Helgi bróðir minn átti ekki að safna þessum jurtum fyrir landsmenn). Fyrsti liður till. fer fram á, að stjórnin sjái um, að sem flestir einstaklingar leggi kapp á að safna þessum jurtum, og hjelt jeg, að hafa ætti dr. Helga Jónsson til þess að hvetja menn og kenna þeim að safna þessum jurtum. Hafi það ekki orðið, er jeg hræddur um, að aðgerðir þingsins þyrftu að vera kröftugri en þessi þingsál., ef vænta ætti meiri árangurs.

Eitt af því, sem bjargráðanefndin vildi kynna sjer, var um kartöfluútsæði. Hún aflaði sjer því upplýsinga og komst að því, að stjórnin hafði gert mikið í málinu með aðstoð Búnaðarfjelags Íslands og landsverslunarinnar. Því að þótt mikið af útsæðinu hafi komið heldur seint til þess að sendast út um land í tækan tíma, þá hyggjum vjer, að þar hafi stjórnin gert alt, sem hægt var eftir atvikum, og komið var í kring, þá er þing kom saman. En það kom í ljós við athugun þessa máls og ýmsar fregnir, er nefndinni bárust, að mikið af útsæðinu hefir farið forgörðum fyrir frostin í vetur og ónóga geymslu. Þess vegna ber bjargráðanefndin fram till. þá um útsæði, sem búið er að samþ. hjer í deildinni. Hyggjum vjer því, að búið sje að gera það, sem gert verður í þessu máli með þingsályktun. Svo að það yrði ekki nema endurtekning að samþ. það í till. hv. þm. Dala. (B. J.), er að þessu lýtur.

Þá er eldsneytismálið. Það mál hefir nefndin haft til athugunar frá fyrstu, bæði kola- og mómálið.

Fyrst er þá kolamálið. Báðar bjargráðanefndir þingsins hafa haft það til meðferðar. Nd. nefndin hefir verið hikandi í því að leggja með nýju kolanámi á kostnað landssjóðs. Henni hefir þótt kostnaðurinn nokkuð mikill við Tjörnesnámuna. Stjórnin hafði sent þangað útlendan verkfræðing til þess að rannsaka þá námu og aðrar, og koma á nýjum vinnuaðferðum. Enn fremur ráðið þar verkstjóra til sumarsins. Taldi nefndin ekki rjett að taka fram fyrir hendur stjórnarinnar í þessu máli, eða hafa frekari afskifti af því, enda þótt mjög orki tvímælis um þetta kolanám. Auk þess hefir verið borin fram í hv. Ed. þingályktunartillaga um að styrkja sýslufjelög til kolanáms. Geri jeg ráð fyrir, að ekki verði frekar í þessu máli gert og að við þennan rekspöl megi una.

Þá hefir nefndin ekki látið mómálið afskiftalaust. Vjer höfum rannsakað, hver eru þau hjeruð og bygðarlög, kauptún og sjávarþorp, er bjargast geti að miklu eða öllu leyti án aðfengins eldsneytis, svo sem með mótekju, skógarhöggi eða innlendum kolum. Og þegar vjer fórum kringum landið í huganum, þá sáum vjer, að það er allvíða, sem menn ættu að geta verið sæmilega birgir, þótt þeir fái ekki útlend kol). Sumstaðar er t. d. kolanám, svo sem á Tjörnesi, í Reyðarfirði og Bolungarvík og víðar, sem getur orðið þeim bygðarlögum til styrktar. Eru það væntanlega engar sveitir og færri kaupstaðir og sjávarþorp, sem geta heitið á flæðiskeri stödd með eldsneyti. Er það sjerstaklega Reykjavík og Gullbringusýsla, og hefir Reykjavík þó mikla mótekju. Náttúrlega er ekki gott um eldsneyti á Ísafirði, og sjálfsagt er erfitt að fá nóga mótekju á Akureyri, þótt mór sje þar mikill til. En út af þessum hugleiðingum rjeð nefndin það af að skrifa stjórninni og ráðleggja henni að skrifa bæjar- og sveitarstjórnum og hvetja þær til þess að afla eldsneytis af eigin ramleik, svo að þær þyrftu sem minst eða helst engin kol. Þannig hefir nefndin í þessu efni gert það, sem farið er fram á í till. háttv. þm. Dala. (B. J.), og er því óþarfi að samþykkja hana að því leyti.

Þá er skógarhöggið. Hefir komið erindi frá skógræktarstjóra Kofoed-Hansen um flutning á skógarviði til Reykjavíkur, bæði úr Hallormsstaðarskógi og Vatnaskógi, og er þar farið fram á fjárveitingu úr landssjóði til þess að koma þessu í framkvæmd. Þetta erindi skógræktarstjórans hefir svo nefndin sent stjórninni ásamt brjefi, með nokkrum hvatningum, og ljet hún þar í ljós, að þar sem slíkur viðarflutningur gæti borið sig, þá mundi stjórnin hafa fult umboð til þess að ráðast í hann eins og hún teldi skynsamlegast og heppilegast. Nefndin áleit ekki „plan“ það, er skógræktarstjóri lagði fram, með öllu ráðlegt; það var ekki vel sundurliðað og ýmislegt við það að athuga. En það virðist liggja í augum uppi, og reynslan staðfestir það, að hingað sje hægt að flytja skógarvið, að minsta kosti úr Vatnaskógi, svo borgi kostnaðinn, en ella er ekkert vit í flutningnum. Þar sem nú bæði skógræktarstjóri og bjargráðanefndin hafa mint stjórnina á þetta, þá þarf hjer ekki við að bæta.

Þá er öflun bátaviðar. Það mál hafði nefndin til íhugunar og aðgerða og var að hugsa um að bera fram þingsályktunartillögu, en fanst þó hitt heppilegra, að athuga sjálf, hversu statt væri bæði um byggingu smærri fiskibáta og efni til þeirra. Fór nefndin því að rannsaka málið.

Fjekk hún að vita í landsversluninni, að komið hefði nokkuð af trjávið til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, sem nothæfur væri til bátagerðar. Þannig hefir nefndin komist að þeirri niðurstöðu, að svo myndi vera ástatt hjer við Faxaflóa, að ekki stæði það í veginum, ef menn vildu koma sjer upp róðrarbátum. Býst jeg því við, að tilhlutun stjórnarinnar hefði sáralítinn árangur, nema þá að hún reyndi útvegun á sænsku timbri hingað um Kaupmannahöfn, til þess að senda það til fjarlægari hjeraða, þar sem ver kann að standa á, svo sem til Vestfjarða, Eyjafjarðar eða Austfjarða. En það hlýtur að hleypa verðinu gríðarmikið fram, ef fyrst á að flytja viðinn til Reykjavíkur og setja hann svo um borð í strandferðaskip. Nefndin hefir rætt þetta mál við landsverslunina og lagt niður fyrir henni að sinna þessari útvegun eftir því sem hún gæti.

Þá er hjer minst á hagnýting búfjárnytja, mjólkur og þess háttar. Það mál var, eins og kunnugt er, til meðferðar í Ed., og hygg jeg, að sú hv. deild hafi gert málnytu landsins svo til góða, að ekki sje hægt að gera það betur. (B. J.: Hefir hún þá etið hana alla?). Nei, að vísu ekki. Hún hefir strokkað hana.

Það atriði að útvega mannafla í sveitirnar hefir líka legið fyrir háttv. Ed., og er þar til meðferðar með samráði við bjargráðanefnd Nd., svo að jeg hygg, að ekki þýði að koma fram með þingsályktunartill um það efni.

Jeg hefi nú álitið rjett að skýra frá því, sem nefndin hefir gert í þessum efnum, þótt jeg hafi fremur hugsað mjer, að það kæmi fram í nál , sem yfirlit yfir það, sem nefndin hefir starfað, því að hún hefir ekki legið á liði sínu. Jeg skal að eins geta þess um þau atriði, sem nefndin hefir ekki tekið til verulegrar meðferðar, t. d. að safna berjum, ætijurtum o. fl., að jeg geri ekki lítið úr þeim, nje neinu því, sem miðar að því að nýta og bjargast við það, sem landið hefir fram að bjóða sjálft. En jeg er sannfærður um það, að ef stjórnin vill vinna að þessu máli með áhuga og gera eitthvað að gagni í því, frekar en það, sem bjargráðanefnd og þing þegar er búið að beina til hennar, þá væri það besta ráðið að senda okkur þingmennina heim, hvern á sinn stað, þótt ekki væri til annars en að tína ber; það væri miklu meira gagn að því heldur en að sitja hjer yfir sífeldu þrefi og mælgi um það, hvað hægt er að gera.