21.06.1918
Sameinað þing: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

52. mál, rannsókn mómýra

Pjetur Jónsson:

Jeg er hræddur um, að hæstv. atvinnumálaráðherra hafi ekki alveg skilið rjett orð mín áðan. Jeg sagði, að bjargráðanefnd Nd. hefði falið það á vald stjórnarinnar, hvort hún treysti innlendum manni til þess að framkvæma þessa rannsókn, svo að hún næði tilgangi sínum, eða hvort hún fengi til þess útlendan mann. Nefndin vildi ekki ákveða, að innlendur maður skyldi framkvæma rannsóknina, þó að það sje að sjálfsögðu ósk manna, að ekki sje leitað út úr landinu, ef fær maður fengist innanlands. Það var ekki heldur meining nefndarinnar í Nd., að rannsókninni væri skift í tvent, lítilfjörlega rannsókn fyrst, er kostuð sje af opinberu fje, en svo sje fullkomnari rannsókn látin bíða þess, að ráðist verði í að setja verksmiðju á stofn, heldur var það ætlun nefndarinnar, að þegar í byrjun færi fram svo rækileg rannsókn, að á henni mætti byggja ályktanir um það, hvort móiðnaður í stærri stíl gæti borgað sig eða ekki. Þetta var meginatriði till., eins og hún lá fyrir í Nd., og hún bygðist algerlega á þessu.

Þetta, sem háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) var að minnast á, hvað stofnun til að reka fullkominn móiðnað með Lavals-aðferðinni mundi kosta, var ekki alveg nákvæmt. Kostnaðurinn fer auðvitað eftir því, hve stórt fyrirtækið er, sem í er ráðist, því að hægt er að setja upp mismunandi stórar verksmiðjur. Eftir áætlun Þorkels Clementz, sem hefir athugað þessi fyrirtæki í Svíþjóð, mundi sú stofnun, sem þyrfti til að byrja slíkan iðnað hjer á landi, kosta innan við ½ miljón. Annars skal jeg játa, að jeg hefi ekki athugað þessa hlið málsins eins rækilega og skyldi, því að jeg hafði ekki tekið að mjer framsögu þessa máls og bjóst ekki við að þurfa að halda uppi svörum fyrir það. En það skiftir að svo komnu ekki miklu máli, hve mikið slík stofnun mundi kosta, því að það liggur ekki fyrir nú að taka neina ákvörðun um það, hvort hún skuli sett á fót eða ekki, þótt komið gæti til mála að setja hana upp síðar, ef mómýrarannsóknin leiddi það í ljós, að nægilegur mór fengist á einum stað, og samgöngur við þann stað væru svo greiðar, að líklegt væri, að borgaði sig að vinna móinn þar.