17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Matthías Ólafsson:

Mjer kemur ekki á óvart, þó að þessi till. sje fram komin hjer á þessu þingi, og jeg vonaðist einmitt eftir henni úr þeirri átt, sem hún nú er komin. Jeg hefi áður verið með háttv. flm. (St. St.) og komist að því, að honum er illa við, að sparisjóðunum sjeu settar nokkrar skorður um það, hvernig þeir eru starfræktir. Honum er illa við, að þeim sjeu fastar skorður settar, en hann vill, að þeim sjeu veitt öll rjettindi. Jeg er líka samdóma honum um það, að sparisjóðir eigi að njóta allra sömu rjettinda og aðrar lánstofnanir, en jeg vil þá líka, að þeim sjeu settar fastar og ákveðnar skorður um alt, sem lýtur að starfrækslu sjóðanna og meðferð fjárins, til þess að sem allra tryggilegast sje um hnútana búið. Við vorum því hvorugur ánægður með reglugerð stjórnarinnar, þegar hún kom út. Hún gekk ekki eins langt í því, að tryggja eignir sparisjóðanna, eins og jeg hefði viljað, en hún gekk lengra en háttv. flm. þessarar till. (St. St.) taldi við þurfa Mjer kom því ekki á óvart, að hann kemur fram með till. En hitt kom mjer á óvart, að bankastjóri skyldi standa hjer upp í deildinni til þess að lýsa yfir því, að hann vill, að veittar sjeu undanþágur frá þeim kröfum, sem reglugerðin setur. Það er ekki hægt að telja mjer trú um, að hægt sje að fá fljótt og glögt yfirlit yfir hag sjóðsins og viðskifti með þremur bókum, eins og hv. flm. (St. St.) hjelt fram. (St. St.: Jeg nefndi aldrei 3 bækur, heldur 4 — 5 bækur). Mjer heyrðist hv. flm. (St. St.) segja 3 bækur í ræðu sinni; 4—5 er strax miklu betra, en alls ekki fullnægjandi, til þess að sjá alt, sem máli skiftir, um viðskiftin.

Jeg var að hugsa um að þegja og leggja ekkert til málanna nema atkv. mitt, og hefði ekki gert það, hefði bankastjórinn, sem situr hjer við hlið mjer (B. Sv.) ekki lagt til, að farið væri að veita undanþágu frá þeim kröfum, sem settar hafa verið. Rök hans fundust mjer ljettvæg og ekki ástæða til þess að svara þeim.

Mín skoðun er það, sem sagt, að sparisjóðir eigi að hafa öll sömu rjettindi og aðrar lánstofnanir, en jeg vil þá, að þeim sjeu settar svo fastar skorður, sem frekast er þörf, til tryggingar. Og jeg sje ekki ástæðu til þess að vera vægari í kröfum við smásjóðina en hina stærri. Væri frekar ástæða til að setja þeim öllu strangari kröfur, því að þeim er meiri hætta búin, ef eitthvað fer aflaga.

Jeg ætla svo ekki að orðlengja meira um þetta, en vona, að menn sjeu ekki í neinum vafa um, hvernig þeir eigi að greiða atkvæði.