17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

Pjetur Jónsson:

Jeg er auðvitað alveg á sama máli um sparisjóðsreglugerðina og háttv. flm. (St. St.). En jeg er ekki ánægður með till. að forminu til. Jeg get ekki sætt mig við það að skora á stjórnina að veita takmarkalausar undanþágur og eyðileggja þannig sitt eigið verk, heldur álít jeg, að breyta beri reglugerðinni, enda liggur frammi brjef á lestrarsalnum frá einum sparisjóði, sem greinir þetta nánar. Jeg ætla ekki að endurtaka það, sem sagt hefir verið þessari skoðun til meðmæla, en vil skjóta því fram, hvort ekki megi treysta stjórninni til þess að liðka svo til í málinu, að minni sparisjóðum verði hægra fyrir um starfrækslu og bókhaldið. Hefir mjer þess vegna dottið í hug að bera fram þannig lagaða rökstudda dagskrá:

„Í því trausti, að landsstjórnin sjái sjer fært að breyta hinni gildandi reglugerð um sparisjóði í þá átt, sem tillagan fer fram á, einkum fyrir smærri sparisjóði, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Jeg býst við, að ef sú nefnd, sem málið fengi til meðferðar, kæmist að þeirri niðurstöðu, að hjer þurfi að breyta til, þá mundi það vera í þessa átt, og málið sjálft með umræðunum og þessari dagskrá gera sama gagn og þingsályktun.